Fara í efni
Minningargreinar

Heiðdís Norðfjörð

Elsku amma mín!

Það berst um í mér hrærigrautur af tilfinningum, hugsunum og minningum þegar ég sest niður og reyni að finna einhver orð til að kveðja þig. Það er langt síðan ég byrjaði að sakna þín, en núna er komið að kveðjustund. Veikindin þín voru ósanngjörn og erfið. Þau rændu þig svo miklu. Sögunum og ljóðunum. Svo miklum og dýrmætum tíma. Þau rændu því að þú fengir að kynnast drengjunum mínum, og ó, hvað þú hefðir haft gaman af þeim!

Það var svo óskaplega sárt að sjá þig lokast inni og verða loks bara að skugganum af því sem þú eitt sinn varst. En núna ertu frjáls. Laus úr þessum fjötrum. Farin á betri stað. Og fyrir mig, sem horfi á eftir þér, gerist eitthvað undravert, og óvænt. Það er eins og reiðin og gremjan yfir þessum ómaklegu örlögum dofni burtu líka. Sjúkdómurinn er ekki lengur í forgrunni og allt í einu skapast rúm fyrir allar þessar dásamlegu minningar sem ég á, til að stíga aftur fram og kveðja sér hljóðs. Minningar klæddar í sorg og söknuð, en ekki síst þakklæti.

Ég held að það hafi enginn átt betri ömmu en ég. Þegar ég sé þig fyrir mér þá man ég hvernig mér leið í hvert sinn sem ég kom til þín í Hraungerðið. Ég fann hvað ég var velkomin og elskuð. Þú mættir mér alltaf með stærsta brosinu sem þú áttir og opnum faðmi, eins og ég væri sólin sjálf sem hefði ákveðið að heiðra þig með nærveru minni. Sjáaldur augna þinna, til að nota þín eigin orð. Allar minningar um þig eru litaðar af þessari gleði og birtu, og ég er ekki í minnsta vafa um að þessi gleði hafði mótandi áhrif á litla skottu.

Já, það voru ófá skiptin sem ég rölti til þín í Hraungerðið. Ég kom stundum með heimalexíurnar mínar og vann þær við eldhúsborðið hjá þér. Ég á þér að þakka að margföldunartöflurnar sitja sem fastast í hausnum á mér. Mér gekk ekki alveg nógu vel að leggja þær á minnið fyrr en þú sagðir (og ég skal viðurkenna að mér fannst þetta frekar asnalegt á þessum tíma) að ég ætti bara að syngja þær! Þá myndi ég sko ekki gleyma þeim. Ég hélt nú ekki! Glætan! „Jú!“ sagðir þú. „Þú getur meira að segja rappað þær!“ Svo gerðirðu þér lítið fyrir og rappaðir sex-sinnum-töfluna. Auðvitað hafðirðu rétt fyrir þér. Ekki bara lögðust töflurnar á minnið, heldur sé ég líka ömmu gömlu fyrir mér að rappa í hvert sinn sem ég þarf að margfalda með sex.

Það var líka fátt betra en að fá að gista hjá þér um helgar. Þú varst alltaf vöknuð fyrir allar aldir. Og svo var heilög stund hjá okkur þegar þú vaktir mig til að horfa á barnatímann. Þú pakkaðir mér ofan í sjónvarpsstólinn þinn með teppi á fótunum og púða við bakið, og færðir mér svo eitthvað gotterí til að maula. Eftir hádegið fékk ég svo að skottast með þér í öll erindi. Við fórum í kaffi til Kristjáns frá Djúpalæk og Unnar hans. Ég man þegar ég sat í fanginu á þér og bruddi kandís, og þú sagðir mér að Kristján hefði samið söguna um Pílu Pínu. Hann hlaut að vera heimsfrægur fannst mér. En samt fannst mér þú eiga ansi mikið í sögunni líka, það varst jú þú sem glæddir hana lífi með lögunum þínum.

Stundum fórstu með mig í leikhúsið. Þá klæddum við okkur í okkar fínasta púss. Í hléinu bentirðu mér á málverkið af langafa sem hékk þar uppá vegg. „Hann var leikari“ sagðirðu mér, og ég fann að hann hafði verið merkilegur karl. Stundum fórum við bara í bíltúr og fengum okkur ís. Svo keyrðirðu með mig um Oddeyrina og sagðir mér sögur af þér þegar þú varst lítil stelpa. Það sem við hlógum í þessum bíltúrum, því að þú varst víst algjör óþekktarormur og sögurnar þínar fyndnar eftir því. Stundum þurftum við að stoppa bílinn til að geta hlegið almennilega.

Það er náttúrlega engin leið að gera öllum okkar dásamlegu stundum skil í svona litlu bréfi. Eftir því sem ég set fleiri minningar á blað, þeim mun fleiri koma upp í hugann. Og þær hlýja mér allar. Núna, þegar ég sem fullorðin kona hugsa um þig og þína litríku ævi, þá velti ég því stundum fyrir mér hvaða brautir þú hefðir valið ef þú hefðir fæðst 20 eða 40 árum síðar. Ef þú hefðir ekki misst pabba þinn 15 ára gömul, eða verið ættleidd í tvígang. Ef þú hefðir ekki farið í húsmæðraskóla heldur listaháskóla. Þú varst svo mikill listamaður og þú hafðir svo stórkostlega sýn á lífið. Þú fannst náðargáfunni þinni farveg í sögunum þínum og söngvum sem munu lifa áfram. Þú gafst mér svo mikið og þú gerðir það af öllu hjarta.

Elsku amma mín! Góða ferð inn í ljósið. Það mun skína bjartar vegna þín.

Þín sonardóttir,
Heiðdís Norðfjörð yngri

Guðmundur Tulinius

Jón Hlöðver Áskelsson og Sæbjörg Jónsdóttir skrifa
28. mars 2024 | kl. 12:05

Guðmundur Tulinius – lífshlaupið

28. mars 2024 | kl. 12:00

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen skrifa
04. mars 2024 | kl. 09:30

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
04. mars 2024 | kl. 06:00

Hermína Jónsdóttir

Daði, Freyr og Katrín skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05