Fara í efni
Minningargreinar

Heiðdís Norðfjörð

Elskuleg svilkona mín Heiðdís Norðfjörð er látin eftir nokkurra ára erfið veikindi. Það eru komin hartnær fimmtíu ár síðan við nýtrúlofað kærustuparið, blaut á bakvið eyrun, hófum búskap á neðri hæðinni hjá Heiðdísi og Gunna í Hamarstíg 3. Frá fyrsta degi tóku þau okkur opnum örmum og vildu allt fyrir okkur gera. Og þegar frumburður okkar fæddist fékk ég margar þarfar kennslustundir í umönnun þar sem ég einbirnið vissi vart hvað snéri fram eða aftur á ungabarni. Heiðdís var konan með reynsluna, búin að eignast þrjá stráka. Þegar ég svo byrjaði aftur að vinna hálfan daginn bauðst hún til þess að passa, „af því að hún var hvort sem er heima,“ sagði hún. Auðvitað tók hún ekki í mál að taka greiðslu fyrir og þetta lýsir Heiðdísi svo vel, endalaust að reyna að gera öðrum lífið léttara. Í minningunni var alltaf sól og logn, gleði og gaman þau þrjú ár sem við bjuggum í Hamarstígnum.

Upp úr þrítugu lærði Heiðdís til sjúkraliða og vann um tíma sem forstöðukona elliheimilisins í Skjaldarvík. Seinna gerðist hún ritari hjá héraðslæknisembættinu og þegar það embætti var lagt niður færði hún sig yfir á Heilsugæslustöðina á Akureyri (HAK) og vann þar sem læknaritari til starfsloka. Þar vorum við vinnufélagar í yfir 20 ár. Heiðdís naut sín vel í öflugu félagsstarfi á HAK, var sjálfskipaður forsetaritari hjá forseta starfsmannafélagsins og gaf út ein og óstudd Hökuna sem var fyrir margra hluta sakir hið merkilegasta blað. Um tíma gaf hún einnig út Undirhökuna þar sem birtist eingöngu kveðskapur eftir starfsmenn en óvenjumargir snjallir hagyrðingar voru á HAK á þessum árum. Útgáfa var nefnd Heiðprent.

Meðfram fullu starfi var Heiðdís meðhjálpari í Akureyrarkirkju í fjöldamörg ár og stýrði um tíma barnastund hjá RÚVAK, svæðisútvarpi og söng lengi með Kvennakór Akureyrar.

Heiðdís var einkar fjölhæf og hugmyndarík. Hún spilaði á píanó, samdi bækur, sögur, ljóð og lög. Einnig las hún inn á snældur Sögur fyrir svefninn sem voru bæði hennar eigin sögur og annarra. Þau eru ófá börnin sem hafa í gegnum tíðina sofnað út frá röddinni hennar fallegu. Platan með lögum og söng Heiðdísar og textum Kristjáns frá Djúpalæk um Pílu pínu músastelpu er löngu orðin klassík og mörg börn grátið fögrum tárum yfir Saknaðarljóði Gínu mömmu. Það gladdi Heiðdísi mjög þegar Leikfélag Akureyrar setti upp fyrir nokkrum árum söngleik byggðan á þessari sögu og söngvum.

Heiðdís var árrisul, fór á fætur við fyrsta hanagal til að semja áður en dagsins amstur hófst. Það voru hennar helgistundir.

Ég kveð þig nú mín kæra Heiðdís með þökk fyrir samfylgdina. Þú gerðir veröldina einfaldlega betri með tilvist þinni.

Þín,
Anna Maja.

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00