Fara í efni
Minningargreinar

Heba Ásgrímsdóttir

Heba Ásgrímsdóttir

Árið 2013 var orðið ljósmóðir valið fegursta orð íslenskrar tungu. Fegurðin var líka aðalsmerki Hebu Ásgrímsdóttur ljósmóður, sem nú hefur kvatt eftir stutt en átakanleg veikindi. Hún gerði allt fallega, hvort sem það var að bjóða upp á bláberjabæ eða taka á móti barni. Hún klæddi sig fallega og kom fallega fram við aðra. Hún lagði fallega á borð og hugsaði fallega til fólksins síns. Hún hélt fallegt heimili og sönglaði fallega í amstri dagsins. Sjálf var hún fegurðin holdi klædd.

Heba var bæði ljósmóðir og húsmóðir en þó kannski fyrst og síðast móðir og ættmóðir. Tæpu ári eftir að hún lauk ljósmæðranáminu hafði hún sjálf fætt sitt fyrsta barn, fjórum árum síðar annað og eftir sjö ár til viðbótar það þriðja. Móðurhlutverkið tvinnaðist þannig saman við ljósmóðurhlutverkið á 46 ára langri starfsævinni. Þegar barnabörnin bættust svo við hvert af öðru varð hlutverk ömmu og ættmóður sífellt stærra. Öllum hlutverkunum náði hún að sinna létt á fæti og létt í lund. Hún var lífsins móðir sem lét plöntur blómstra og ungbörn hjala.

Í þessum móðurhlutverkum birtist einstakt næmi Hebu fyrir líðan og þörfum annarra ásamt yfirburðafærni í að sýna umhyggju í verki. Hún hafði sannkallaða þjónustulund í bestu merkingu þess orðs, ávallt boðin og búin að taka á sig byrðar annarra þegar á þurfti að halda án nokkurra skilyrða eða væntinga. Þetta gerði hún fumlaust, hratt og örugglega. Þegar einhverjum leið illa hafði hún einstakt lag á að hughreysta og styðja án þess að þykjast hafa svör eða búa yfir töfralausnum. Oftast var þó einmitt það sem hún gerði töfralausnin sem á þurfti að halda.

Heba var ekki einungis næm á fólk heldur líka á fegurðina í kringum sig. Hún var unnandi góðra lista og dugleg að sækja menningarviðburði. Einkum var það þó tónlist og tónleikar sem áttu hug hennar allan og hún hafði góðan smekk fyrir ýmiss konar klassískri tónlist. Það sem var vandað og vel var gert höfðaði til hennar. Þessi smekkvísi endurspeglaði á vissan hátt hvernig hún sjálf leysti verk sín af hendi og kom fram við aðra, af vandvirkni og öryggi án þess að láta mikið á því bera. Hógværð hennar, snerpa og næmi fyrir því sem þurfti við hverju sinni varð til þess að oft var eins og hlutirnir gerðust af sjálfu sér og allir nutu góðs af.

Þessir eiginleikar Hebu kölluðu fram traust og kærleika hjá þeim sem hana þekktu. Við treystum á hana og trúðum henni fyrir því sem okkur var kærast. Nú þegar hennar nýtur ekki lengur við er veröldin eins og í lausu lofti, stoðin og styttan horfin á braut og minningarnar einar eftir.

Ég kveð tengdamóður mína með miklum söknuði en umfram allt þakklæti. Mannkostir Hebu komu einstaklega vel fram í því hvernig hún tók við mér og syni mínum inn í fjölskylduna á sínum tíma þegar við Guðfinna tókum saman. Þar gekk ég óundirbúinn inn í hlutverk stjúpföður og fæ aldrei fullþakkað stuðninginn sem Heba og Halli veittu mér á því hála svelli. Það var mín gæfa. Ég mun geyma minninguna um Hebu Ásgrímsdóttur, móður ljóssins og lífsins, á meðan ég sjálfur lifi.

Sigurður Kristinsson

Þorleifur Jóhannsson - minning

11. janúar 2021 | kl. 06:45

Þorleifur Jóhannsson

Inga Dagný Eydal skrifar
11. janúar 2021 | kl. 06:50

Ágúst H. Guðmundsson

Ásmundur Hreinn, Bjarni Ármann og Guðmundur Ævar Oddssynir skrifa
13. janúar 2021 | kl. 07:00

Þorleifur Jóhannsson

Símon Jón Jóhannsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 09:30

Þorleifur Jóhannsson

Sævar Benediktsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 10:30

Ágúst H. Guðmundsson

Guðrún Gísladóttir skrifar
13. janúar 2021 | kl. 07:00