Fara í efni
Minningargreinar

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Elsku Fríða okkar hefur kvatt þennan heim. Eftir situr fjölskylda og stór vinahópur í sorg en jafnframt er hjarta okkar fullt af þakklæti fyrir að hafa haft þessa yndislegu konu í lífi okkar. Einn af vinahópum Fríðu kallast Hætturnar. Í þessum hópi er starfsfólk Lundarskóla sem hætt er störfum og hittist vikulega. Þá er nú oftast glatt á hjalla og mikið spjallað. Í Lundarskóla starfaði Fríða sem skólaritari en hún var svo miklu meira en það. Hún var afar bóngóð og leysti úr allskyns vanda bæði starfsfólks og nemenda sem hefur örugglega ekki fallið undir starfsskyldur hennar sem ritara. Fríða dekraði líka við samstarfsfólkið sitt með ýmsum hætti, til dæmis færði hún okkur ævinlega dásamlegar berlínarbollur á bolludaginn og útbjó páskaglaðning með heimagerðu konfekti og skemmtilegum málshætti.

Þetta litla ljóð var samið og sungið fyrir Fríðu í leynivinaviku fyrir mörgum árum og lýsir það vel hvað hún var mikils metin af okkur sem vorum svo heppin að fá að vinna með henni og njóta þjónustu hennar og vináttu.

Fríða er óþreytandi
að þjóna mér og þér,
hún er sístarfandi
síst telur eftir sér,
að ljósrita og líma
lipur mjög hún er,
hún svarar líka í síma
og skilaboðin ber.

Með blíðu augun bláu
hún brosir alltaf hreint,
í stóru jafnt sem smáu,
bæði snemma og seint.
Boðin er og búin
að leggja öllum lið,
von að hún sé lúin,
því hún fær aldrei frið.

Elsku Fríða mín, elsku Fríða mín,
megi englarnir ávallt gæta þín,
elsku Fríða mín, elsku Fríða mín,
megi englarnir gæta þín.
(Sigríður María Bjarnadóttir)
Eiginmanni Fríðu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum sendum við okkar hlýjustu samúðar og kærleikskveðju.

Sigríður María Bjarnadóttir og Vilborg Karlsdóttir

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

Anna Gunndís Guðmundsdóttir skrifar
25. september 2025 | kl. 08:30

Hallfríður Lilja Einarsdóttir

25. september 2025 | kl. 06:00

Jón Björnsson

Héðinn Styrmir Jónsson skrifar
12. september 2025 | kl. 06:00

Heimir Þorleifur Kristinsson

Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
08. september 2025 | kl. 12:00

Stefán Þórðarson

Herdís Ármannsdóttir. skrifar
03. september 2025 | kl. 06:00