Fara í efni
Minningargreinar

Halldór Ingi Ásgeirsson

Það voru tveir saklausir drengir sem settust á bekk Menntaskólans á Akureyri eitt haust fyrir ekki svo löngu, frændur frá Ólafsfirði, yðar einlægur og Kiddi Hreins. Helstu hasarbækur okkar fram að því voru biblíusögurnar. Það átti eftir að breytast þegar við kynntumst sveitastráknum Halldóri Inga Ásgeirssyni, sem við kölluðum alltaf Dóra stóra af augljósum ástæðum. Með okkur þremur tókst vinátta sem endist út yfir gröf og dauða.

Móður hans Dóra, Gunnellu frá Brekku (1934-2018), þekkti ég vel, svo vel að stundum lét hún mig heyra það – alltaf undurfallega, og brosti svo í kampinn, oftar en ekki með rettu á lofti, enda heyri ég röddina í henni enn í dag, þótt ég þekkti betur pabbann, lífsglaða Geira í Ólafsfirði (1937-2015), og hálfbræður hans Dóra, alla fjóra.

Við þrír bundust tryggðarböndum við fyrstu skólasetningu MA og lögðumst eins fljótt og verða mátti í mikilvægar mannlífsrannsóknir, sem tóku heil fjögur ár. Aldrei var ætlunin að birta niðurstöður þeirra rannsókna, þótt Nóböllur vísindanna væri í boði, en árangurinn var undraverður. Í raun svo merkilegur, svo skemmtilegur að í 6. bekk ákváðum við félagarnir að falla með stæl um vorið, í þeim göfuga tilgangi að geta sinnt rannsóknum áfram, bara einn vetur enn. Helstu rannsóknarstofurnar voru heimavistin, Háið, Sjallinn, herbergi í heimahúsum, og svo Kjallari lífsgleðinnar, sem var merkilega nálægur gamla skóla. Því miður tókst mér ekki ætlunarverkið, né Kidda, sama hvernig við reyndum, og var það stærsta klúður okkar á MA-ferlinum. Dóra tókst það hins vegar með stæl og dýfu og fékk eitt ár til viðbótar. Við Kiddi öfunduðum hann alltaf af því. Ein aðferð okkar til að falla örugglega var að drekka rauðvín (hugsanlega eitthvað fleira, en bara hugsanlega) í Lystigarðinum, frá hádegi þar til sólin hvarf, meðan við lásum einhver fjöll og fyrnindi, en vorum aðallega að fylgjast með HM í fótbolta, allan júní, sumir fram í júlí, þótt mótinu væru löngu lokið. Stundum sváfum við sætir og sólbrúnir, oftar en ekki á stuttbuxum, undir birkitrjám uns morgnaði við fuglasöng.

Þegar við komum út úr verndaða umhverfinu í MA leið okkur áreiðanlega eins og hvítvoðungi sem kemur í heiminn öskrandi af ótta og kulda, og saknar hitans og öryggisins inni. Við tók veröldin köld og hrein. Við félagarnir dreifðumst í allar áttir eins og farfuglar á flótta. Dóri fann ástina á Þórshöfn, hana Unni yndislegu, og eignaðist með henni einkadótturina Elínu Ingu. Ég man vel eftir þeim í Hamarstígnum á Akureyri. Þó bar þeim ekki gæfa til að búa saman lengi.

Í menntaskóla var ég viss um að Dóri yrði íslenskufræðingur af stærri gerðinni eða prófessor í pápísku eða eitthvað annað háfleygt, svo fimur var hann í heimi ljóða og íslenskrar tungu. Sveitin elur af sér margan slíkan snilling, en einn þeirra var kennari okkar í MA, meistari Gísli Jónsson frá Hofi í Svarfaðardal, sveitungi Dóra. En vegna einhverra tiktúra náttúrunnar fann Dóri ekki ástæðu til að nýta sér þessa meðfæddu hæfileika sína, sem er miður. Hann leitaði alltaf heim til sveitarinnar, Brekku í Svarfaðardal, sem átti hug hans allan, til dýranna, fjóssins og hlöðunnar, túnsins heima. En ætíð var gaman að heilsa upp á hann, spjalla, rifja upp asnaprik fortíðar og byggja skýjaborgir framtíðar. Dóri er fallegasti og traustasti vinur minn á þessu stutta randi sem við köllum líf, auðvitað ásamt Kidda frænda. Þrír stöndum við saman eilífðina á enda. Alltaf að heilsast, kveðjumst aldrei. Samt faðmaði ég hann þétt og fast í þessari síðustu heimsókn á sjúkrahúsinu, en það var meira til að þykjast, því við vorum að plana framtíðina.

Dóri var viðkvæmt karlmenni, oft hrjúfur að utan en undir sló heitt, ljóðelskandi, hláturmilt hjarta sveitastráksins. Ég græt með syrgjendum góðan dreng.

Helgi Jónsson

Þór Sigurðsson

Valgerður H. Bjarnadóttir skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:00

Þór Sigurðsson

Kristín, Sigurður og Herdís skrifa
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Hörður Geirsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 09:30

Þór Sigurðsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 06:00

Þór Sigurðsson – lífshlaupið

10. júní 2024 | kl. 06:00