Fara í efni
Minningargreinar

Gunnþóra Árnadóttir

Gunnþóra Árnadóttir (Dúlla) fæddist á Akureyri 29. mars 1932. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri, 25. desember 2022. Útför Gunnþóru fór fram frá Akureyrarkirkju 10. janúar.
_ _ _

Ave María

Þú blíða drottning,
bjartari en sólin.
Þú biður fyrir lifendum og dauðum.
Hríf um eilífð oss frá heljar nauðum.
Ave María, Ave María, Ave María
Gef þeim himnesk jólin.

Bið þinn son,
að vernda oss frá villu.
Í veröld eru margir stígar hálir.
Um eilífð vernda allar látnar sálir.
Ave María, Ave María, Ave María
Frelsa þær frá illu.
Indriði Einarsson/Sigvaldi Kaldalóns.

Dúlla tengdamamma mín var ættmóðirin okkar og hún tók við sem höfuð fjölskyldunnar þegar Óðinn kvaddi fyrir átta árum. Hún lifði langa ævi og átti gott líf en síðustu átta ár saknaði hún Óðins síns alltaf. Hún var ljúf og blíð og góð kona en ég hafði aldrei hugsað um hana sem drottningu. Ekki fyrr en á jóladagskvöld þegar hún hafði kvatt þetta líf. Þá kom hjúkrunarfræðingur að rúminu hennar og sagði «Mér finnst það við hæfi að drottningin okkar kveðji á jólunum» En hún sagði okkur jafnframt að þau sem vinna á Grenihlíð hafi kallað tvær konur sem kvöddu þetta líf á sama sólarhringnum, drottningar, því þær voru svo glaðar og sáttar og sælar með það sem gert var fyrir þær á Grenihlíð. Við þetta drottningatal þá rann það upp fyrir mér að auðvitað var hún Dúlla drottning, hún var drottningin hans Óðins alla tíð og drottningin okkar. Á því augnabliki kom upp í huga minn Ave María, Indriða Einarssonar og Sigvalda Kaldalóns og raulaði í huganum «Þú blíða drottning, bjartari en sólin» Þegar ég kom heim seint þessa nótt, hlustaði ég á Víking Heiðar spila Ave María og hér eftir þegar ég hlusta á Ave María, Kaldalóns þá verður amma Dúlla í huga mér.

Mér finnst ótrúlegt að við Dúlla séum búnar að eiga samleið í 55 ár, svo langur tími en samt svo stutt.

Ég held í alvöru að okkur hafi aldrei orðið sundurorða en mér finnst ekki ósennilegt að hún hafi kannski ekki alltaf verið sátt við allt sem börnin á neðri hæðinni voru að bralla því auðvitað vorum við Ingvi bara börn að eiga börn en aldrei fann hún að neinu við mig.

Ég hef ekki lært eins mikið af neinum eins og Dúllu, ekki einu sinni mömmu. Við bjuggum niðri hjá þeim Óðni og Dúllu og það var stutt að leita ráða uppi, því ég kunni svo sannarlega ekki neitt þegar við fórum að búa. Við höfum oft sagt það hjónin að við vorum ekki gömul þegar við tókum við uppeldinu af foreldrum okkar og sáum um að ala hvort annað upp, en við fengum góðan grunn. Dúlla var sjálf 18 ára þegar hún átti tvíburana og bjó hjá foreldrum sínum í Hvammi, svo hún þekkti þetta.

Nú eru enn ein kaflaskilin hjá okkur, Dúlla er síðust af foreldrum okkar Ingva til að kveðja svo nú eiga dæturnar okkar ekki lengur fjársjóðinn sem hún amma Dúlla var þeim alltaf en þær eiga óteljandi góðar minningar.

Það er svo ótal ótal margt sem ég gæti týnt til og rifjað upp en ég ætla bara að tala um ömmu Dúllu. Amma Dúlla var amma með stórum staf, hún elskaði barnabörnin sín og hafði alltaf nægan tíma fyrir þau. Hún var sú fyrsta sem ég heyrði nota fallega orðið «hjartablóm» um barnabörnin sín. Kærleikur og ást er það sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um ömmu Dúllu og ömmubörnin hennar.

Stelpurnar okkar voru eins og hálfs árs, fimm og sex ára þegar við fluttum úr kjallaranum frá Óðni og Dúllu. Þá urðu heldur betur kaflaskil á báðum bæjum, mínar höfðu átt athvarf uppi og leituðu þangað mikið og eins vantaði ömmu Dúllu mikið þegar stelpurnar voru fluttar. Hún hringdi á hverjum degi og talaði við þær allar og þær gáfu ömmu sinni «rapport» um það sem gerst hafði í lífi þeirra frá því í gær. Afi og amma Dúlla spiluðu risastórt hlutverk í lífi stelpnanna okkar. Það var leitað með allt til ömmu og afa. Útilegurnar og sumarbústaðaferðirnar sem Imba, Obba og Jón Ingvi fóru með afa og ömmu og seinna Dídó og Óðinn yngri voru margar og ógleymanlegar. Það má held ég segja að frá því Dídó var um sjö ára þar til hún var um þrettán ára, þá áttum við þrjár stelpur virka daga en tvær um helgar. Hún var sótt á föstudögum og skilað á sunnudögum þetta hentaði henni svo vel að vera stjarnan hjá afa og ömmu og fá að stjórna því lítið hefur hún getað stjórnað heima hjá sér, sú yngsta af fullorðnum, eins og ein sagði.

Það er svo margt sem ég á og vil þakka ömmu Dúllu á kveðjustund en fyrst og síðast er það hve yndisleg amma hún var stelpunum mínum og afa og ömmubörnum okkar Ingva. Það er ekki hægt að óska sér betri ömmu en hún var. Það var ekkert það til sem hún var ekki tilbúin að gera fyrir ömmu börnin sín og fram á síðustu stundu voru það börnin sem áttu hug hennar allan.

Uppáhaldsskáld ömmu Dúllu var Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, sveitungi hennar og læt ég fylgja með eitt af fallegu ljóðunum hans.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær
þó degi sé tekið að halla.
Það er eins og festingin færist nær
og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng
að þar heyrast englar tala
og einn þeirra blakar bleikum væng
svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt
svo blaktir síðasti loginn.
En svo kemur dagur og sumarnótt
og svanur á bláan voginn.
Davíð Stefánsson

Úr hópi starfsfólks Grenihlíðar eignaðist Dúlla góða vini og aðdáendur. Það var annast um hana af umhyggju og fyrir það þökkum við.

Þakklát fyrir allt kveð ég elsku tengdamömmu mína og segi góða ferð og viltu flytja öllum okkar sem eru í Sumarlandinu kærar kveðjur .

Þín tengdadóttir,

Rósa María Tómasdóttir

Guðmundur Tulinius

Jón Hlöðver Áskelsson og Sæbjörg Jónsdóttir skrifa
28. mars 2024 | kl. 12:05

Guðmundur Tulinius – lífshlaupið

28. mars 2024 | kl. 12:00

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen skrifa
04. mars 2024 | kl. 09:30

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
04. mars 2024 | kl. 06:00

Hermína Jónsdóttir

Daði, Freyr og Katrín skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05