Fara í efni
Minningargreinar

Guðrún Hjaltadóttir

Guðrún Hjaltadóttir lést 20. janúar 2022 á 84. aldursári eftir skammvinn veikindi. Tengdamamma var smart töffari, hún kveinkaði sér aldrei, tók ekki töflur og keyrði áfram á hörkunni. Hún var svo sannarlega af gamla skólanum.

Ég kynntist tengdaforeldrum mínum árið 1983 og tókst strax með okkur yndislegur vinskapur sem entist fram á síðasta dag.

Okkur Dúnu varð aldrei sundurorða. Við unnum saman hlið við hlið í um 18 ár í litla fjölskyldufyrirtækinu, Pedromyndum sem þau hjónin Guðrún og Friðrik Vestmann stofnuðu árið 1965 og ráku í 36 ár eða allt þar til þau hættu störfum árið 2001, seldu mér og Ingu dóttur sinni reksturinn og fluttust til Spánar. Þar dvöldu þau í hlýjunni yfir vetrarmánuðina og undu sér vel eftir stranga starfsævi.

Mér er minnisstætt þegar ég var að koma heim af næturvöktum á skemmtistöðum bæjarins, þar sem ég vann sem diskótekari þá 17 ára, að ég átti það til að laumast í brúna tertu, mjólk og skeið, en í hornskápnum í eldhúsinu beið iðulega nýbökuð brúnterta. Dúna var nefnilega húsmæðraskólagengin og fann einhvern veginn alltaf tíma til að baka. Upp úr tvítugu vildi ég kenna henni um að ég væri farin að gildna um mig miðjan. Ég held að ég hafi verið í pínu uppáhaldi hjá tengdó því hún eldaði td. alltaf eitthvað annað handa mér ef hún vissi að ég borðaði ekki það sem var í boði. Ég átti eitt sinn samtal við tengamóður mína fljótlega eftir að við kynntumst um uppþvottavélina á heimilinu, ég nefnilega skildi ekki að það ætti að vaska upp inní uppþvottavélina, ég hélt að vélin væri til þess að þvo leirtauið. En trúið mér, enn þann dag í dag vaska ég upp inní uppþvottavélina heima hjá mér.

Þau hjónin voru mjög samheldin hvort sem var í vinnu eða heima fyrir. Þau eignuðust ung lítið sumarhús í Vaðlaheiði sem gekk frekar brösulega að græja til að byrja með og var það nefnt Tregða fyrir vikið. Þar átti fjölskyldan saman góðar stundir þegar færi gafst og síðar eignuðust þau stærri bústað í Vaglaskógi þar sem að þau undu sér vel hvort sem var bara tvö eða með alla fjölskylduna, börn, tengdabörn og barnabörn hjá sér, en þar var oft glatt á hjalla þegar allir komu saman og margar yndislegar minningar sem fjölskyldan á tengdar þeim tíma.

En aftur að vinnunni. Ég var 16 ára þegar ég hóf störf hjá þeim hjónum og tók þátt í mikilli þróun og breytingum á fyrirtækinu en það sem stendur upp úr í minningunni er að það var alltaf gaman og mér leið alltaf vel með þeim hjónum. Þau voru alltaf til í að ræða nýjar hugmyndir um reksturinn og bjóða uppá nýjungar, þau kenndu mér svo sannarlega að vinna og þegar ég sagði í upphafi að tengdamamma væri töffari þá átti ég líka við að hún veigraði sér ekki við að tækla langa vinnudaga. Oft mættum við kl. 8 á morgnana og unnum til miðnættis, sumar eftir sumar, jól eftir jól, til að viðskiptavinir gætu fengið myndirnar sínar framkallaðar fljótt og vel. Ég hef oft gantast með að það hafi verið eins gott að elsti sonur minn sé fæddur á frídegi verslunarmanna, annars hefði ég sennilega ekki verið viðstaddur fæðingu hans, þannig var vinnuálagið á okkur á þeim tíma.

Amma Dúna eins og börnin mín kölluðu hana var mikill húmoristi með kolsvartan húmor sem hún hélt til síðasta dags og þannig er gott að minnast hennar en við hlógum oft dátt saman. Ég er afskaplega þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Dúnu og fyrir það uppeldi og aðhald sem hún veitti okkur Ingu, hún hafði ómælda trú á okkur alla tíð.

Hvíl í friði elsku Dúna.

Þórhallur Jónsson

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Isaksen skrifa
04. mars 2024 | kl. 09:30

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir skrifar
04. mars 2024 | kl. 06:00

Hermína Jónsdóttir

Daði, Freyr og Katrín skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05

Hermína Jónsdóttir

Rannveig María, Erlingur, Anna Marit og Ragnhildur skrifa
01. mars 2024 | kl. 10:05