Fara í efni
Minningargreinar

Fjóla Hermannsdóttir

Kveðja frá vinkonum í Rauða krossinum

Vinkona okkar, Fjóla Hermannsdóttir, var mikil félagsvera. Hún starfaði lengi með skátum hér á Akureyri, m.a. í áratugi við þann mikilvæga undirbúning jóla að koma upp ljósakrossum í fallega kirkjugarðinum á höfðanum ofan Innbæjarins. Eftir að starfsævinni lauk gerðumst við allar félagar í prjónahóp Rauða krossins en það er hópur innan starfsins sem hefur það að markmiði að útbúa prjónavörur, skapa þær eða betrumbæta og endurnýta, til sölu í Rauða kross versluninni eða á sumarmörkuðum í miðbæ Akureyrar og á vetrum á Glerártorgi.

Fjóla var einstaklega vönduð kona eins og vinna hennar bar fagurt vitni um. Hún bókstaflega framleiddi flíkur í verslunina; vettlinga, sokka, húfur og peysur, var lagin og úrræðagóð í viðgerðum og fallegu barnapeysurnar sem hún prjónaði og við stoltar settum fram á markaðina voru nánast rifnar af slánum! Við kölluðum hana einnig í gríni „fjölmiðlafulltrúann“ okkar af því hún vílaði ekki fyrir sér að sjá um samskipti við opinbera aðila vegna leyfa, til að finna pláss og til annars undirbúnings fyrir markaðina. Hún var alltaf boðin og búin í verkefnin sem fyrir lágu og gekk rösklega til verks. Auk þessa var hún ávallt með eitthvað annað á prjónunum fyrir fjölskyldu og vini sem nutu í ríkulegum mæli listfengi hennar en Fjóla var líka fjölskyldukona fram í fingurgóma sem sinnti vel barnabörnunum og studdi sitt fólk, sýndi því kærleika sinn í verki.

Við stöllur munum sakna Fjólu sárt úr okkar hópi en eigum jafnframt yndislegar minningar um góða vinkonu og þann frábæra félagsskap sem hún veitti. Á næstu jólum munu ljósakrossarnir hafa enn dýpri merkingu í huga okkar. Framlag Fjólu til Rauða krossins verður einnig seint metið til fjár, en þannig var hún - hún lét gott af sér leiða.

Grynnist ekki góðvildin
þótt gerist gömul kona.Betri væri veröldin,viðmótið og samskiptin,ef heimurinn ætti fleira af fólki svona.(H.P.)

Eiginmanni Fjólu, Pétri Torfasyni, og öðrum aðstandendum vottum við okkar innilegustu samúð,

Þórey Bergsdóttir og Ragnhildur Ingólfsdóttir (Ragna)

Þór Sigurðsson

Valgerður H. Bjarnadóttir skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:00

Þór Sigurðsson

Kristín, Sigurður og Herdís skrifa
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Hörður Geirsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 09:30

Þór Sigurðsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 06:00

Þór Sigurðsson – lífshlaupið

10. júní 2024 | kl. 06:00