Fara í efni
Minningargreinar

Daníel Snorrason

Dansi er kominn heim. Heim í Eyjafjörðinn þar sem hann verður jarðaður í dag. Heim á annað tilverustig þar sem hans mannkostir fá að njóta sín á ný.

Dansi var litli bróðir mömmu Ollu en hún elst af systkinunum fimm. Milli þeirra var afar kært eins og raunar milli allra systkinanna. Eins var samband Dansa og pabba afar gott og einkenndist af virðingu og hjálpsemi hvorum öðrum til handa. Milli þeirra voru átján ár í aldri og hefur sambandið eflaust verið svolítið eins og Dansi væri litli bróðir pabba í upphafi. Leiðir þeirra lágu síðar saman við leik og störf á Akureyri þar sem fjölskyldurnar bjuggu og áttu sín bestu ár. Ég man ekki eftir að skugga hafi brugðið þar á.

Dansi hafði stórt hlutverk í fjölskyldunni. Þegar mikið lá við eða erfiðleikar steðjuðu að var Dansi alltaf mættur, boðinn og búinn. Hann var ómetanlegur stuðningur systra sinna, í veikindum pabba og ótímabæru fráfalli Ófeigs, manns Tobbu. Hann gekk í mörg mál fyrir aðra og hlífði sér hvergi í stóru sem smáu. Þegar einhver var að flytja eða það þurfti að mála var Dansi fyrstur á staðinn. Dansi kenndi mér á bíl og þó ökutímarnir hafi varla náð tilætluðum fjölda áttum við margar góðar stundir í þessum bíltúrum. Það er óhætt að segja að hann hafi verið stoð og stytta sinna nánustu og þeirra sem til hans leituðu.

Fjölskylduboðin voru mörg og minningin um þau einkennist af gleði og leik þar sem Dansi lét sitt ekki eftir liggja enda annálað selskapsljón. Það var stundum grínast með það þegar sest var við spil í þessum boðum að fjölskylda pabba, Ása Svarta, og mömmu væri svarta liðið og hinir í hvíta liðinu. Við í svarta liðinu settum Dansa eflaust í erfiða stöðu á okkar yngri árum, sem frænda og löggu. Sambandið rofnaði þó aldrei og fyrir það má þakka og í seinni tíð reyndum við að rækta sambandið uns hann hvarf inn í veikindin.

Lífshlaup Dansa var viðburðaríkt en ekki alltaf eftir beinum og breiðum vegi. Hans stóra gæfa var hjónabandið með Ninný og börnin þeirra tvö, Agnar Hlynur og Valgerður Lilja. Í dag eiga þau dágóðan hóp af afkomendum sem eflaust búa yfir góðum kostum afa og lang-afa. Dansi var litrík persóna sem tók virkan þátt í félagslífi og oftar en ekki hrókur alls fagnaðar. Stundaði íþróttir, gerði Möllersæfingar í sundlaug Akureyrar á hverjum morgni og svo mætti lengi telja. Dansi var mikill dýravinur. Hundar voru í miklu uppáhaldi enda átti hann hunda sem hann þjálfaði upp til fíkniefnaleitar. Rannsóknarlögreglustarfið var ástríða og sóttist hann eftir aukinni þekkingu og fylgdist með nýjustu tækni. Dansi fékkst við mörg krefjandi verkefni í vinnu og einkalífi sem tóku sinn toll. Leiðir hans og Ninnýjar skildu og fann hann hamingju hjá Hrafnhildi sinni uns þau skildu eftir nokkurra ára hjónaband. Á seinni árum bar Dansa af leið og heilsunni tók að hraka.

Dansi yfirgaf þetta líf eftir margra ára veikindi og óminnið hafði náð yfirhöndinni. Dánardagurinn var 90 ára afmælisdagur pabba og það er einhver fegurð í þeirri hugsun að þessir mágar séu nú einhverstaðar í sæluvist í góðum hópi fólks og vætta.

Takk Dansi fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína!

Valur Ásmundsson

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00

Ingvi Rafn Jóhannsson

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
03. apríl 2024 | kl. 16:10