Fara í efni
Minningargreinar

Dagný Sigurgeirsdóttir

Það var á fallegum vordegi árið 1949, sem „Stóra-Systir“ mín gekk upp að altarinu til sr. Péturs Sigurgeirssonar í Akureyrarkirkju og staðfesti skírnarheit sitt, ásamt fermingarsystkinum sínum. Hún vakti athygli, hávaxin og myndarleg með gullna slöngulokka. Síðar sama dag hélt hún mér, „Litla-Bróður“, undir skírn. „Hvað á barnið að heita,“ spurði sr. Pétur. „Gísli,“ svaraði Dagný systir mín hátt og skýrt, ef mig misminnir ekki! Áður hafði systir okkar fengið nafnið Sigurlína Ármann en við köllum hana aldrei annað en Sísí. Við þessa athöfn held ég að hafi skapast sá sterki strengur milli okkar systkina, sem aldrei hefur slitnað. Strengur sem sr. Pétur átti stóran þátt í að spinna með sinni einlægu trú og sannfæringu. Við höfum borið gæfu til að verja hvort annað þegar gefur á bátinn og samgleðjast þegar ástæða er til.

„Stóra-Systir“ fór í sveit til ömmu okkar og afa í Skógargerði aðeins sex ára gömul. Þar var hún síðar sumarlangt fram að fermingu. Ég hygg að sveitadvölin hafi átt sinn þátt í að móta persónu hennar, hún gerði hana sterkari. Öll sú reynsla kom henni að góðu haldi síðar á lífsleiðinni, því almættið sendi henni margsinnis storminn í fangið. En hún var eins og eikin stóra; bognaði aðeins um stund, en rétti úr sér aftur. Hún hafði þroska til að horfa til framtíðar, hvað þar væri í boði, ef henni tækist að sigla hjá sárustu skerjum erfiðleikanna.

Það kom eiginlega af sjálfu sér, að systir mín varð hjúkrunarkona. Þótt tíðarandinn hafi breytt því starfsheiti er hún alltaf „hjúkrunarkona“ í mínum huga. Hún byrjaði að vinna við hjúkrun á gamla spítalanum við Spítalaveg. Þar fann hún sína fjöl og leiðin lá í Hjúkrunarskóla Íslands. Hún hafði greind og gæsku til að setja sig inn í líðan sjúklinga, andlega sem líkamlega, og hjúkraði þeim oft á tíðum langt umfram það sem skyldan bauð henni. Og það voru ekki bara sjúklingarnir sem nutu velvilja hennar, því hún gleymdi ekki aðstandendum. Mér er það minnisstætt þegar mikið slasaður ungur drengur kom inn á deildina hennar á Akureyri. Hann var úr Hafnarfirði en var hér í sumarferð með fjölskyldu sinni. Þá voru ekki öryggisbeltin og hann hafði fallið út úr bifreið þeirra þegar hurð hrökk upp á ferð. Dagný hjúkraði drengnum og hann komst til heilsu. En hún var ekki í rónni fyrr en hún var búin að koma foreldrum hans og systkinum í húsaskjól rétt hjá spítalanum – hjá foreldrum okkar á Spítalaveginum.

Systir mín var orðin 87 ára gömul, en engu að síður hraust og hress í andanum. Í okkar síðasta spjalli gantaðist hún með það hvernig hún yrði um nírætt. En skjótt bregður sól sumri. Stuttu síðar barðist hún fyrir lífi sínu og hún gaf sig ekki bardagalaust. Mér fannst almættið skulda henni kraftaverk, eftir allt það sem á hana hafði verið lagt. En kraftaverkið kom ekki. Eikin mín sterka bognaði og brast. Við söknum hennar sárt. En ég veit að hún heldur áfram að byrgja þá brunna, sem „Litli Bróðir“ gæti dottið ofan í.

Blessuð sé minning þín Systir kær.

Svo mælir þinn Bróðir.

Gísli Sigurgeirsson.

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00