Fara í efni
Minningargreinar

Dagný Sigurgeirsdóttir

Dagný tengdamóðir mín hefur lokið þessari jarðvist með sömu reisn og ganga hennar var í gegnum lífið. Ég kynntist henni fyrst er ég kom á heimili hennar 22 ára gamall með dóttur hennar Huldu Björgu. Þessi fyrstu ár voru mörkuð erfiðri lífsreynslu er Jónas fyrsti sonur okkar fæddist og dó 12 daga gamall, þá bjuggum við ungu hjónin á heimili Dagnýjar í Norðurbyggðinni og styrkurinn að hafa hjúkrunarkonuna til að leita ráða og hjálpar hjá var mikill. Síðan þegar Hulda Björg veiktist haustið 1999 flutti Dagný til okkar og hélt heimili fyrir drengina okkar þrjá meðan við foreldrarnir vorum í Reykjavík fram að jólum, alltaf var sjálfsagt að hún kæmi til að aðstoða eða til spjalls og ráðagerða. Eftir fráfall Huldu varð hún oft að koma mér til hjálpar við heimilishald, alltaf með sama jafnaðargeði og kærleika.

Hún var Tommari og Akureyringur, ólst að hluta til í Skógargerði á Héraði og gat sagt sögur sem voru frá svo ólíkum stöðum eins og Lækjargötu 6, Spítalaveginum, Skógargerði, Bolungarvík, Kleppi og fjölda annarra staða sem hún hafði búið á eða starfað.

Dagný fór ung til þess að mennta sig í hjúkrun, eignaðist sex börn og varð ekkja ung, og missti seinni mann sinn fyrir 13 árum. En hún kvartaði aldrei, svona bara var lífið.

Þegar ég kynnti hana fyrir seinni konu minni, Björgu, þá gladdist hún og nýtti sér það að koma í nudd til hennar þegar líkamlegrar og andlegrar endurnæringar var þörf.

Síðast hittumst við er hún kom í kvöldverð til okkar Bjargar 24. júlí síðastliðinn, og tók ekki annað í mál en að fá að ganga þennan spöl frá Víðilundi niður í Hrafnagilsstræti með göngugrindina sína. Hún var brún og útitekin, sátt við Guð og menn og kannski bara södd lífdaga 87 ára gömul.

Mér er mikill harmur af að missa Dagnýju því hún var einn af mínum bestu vinum. Á undanförnum árum hef ég verið að reyna að vinna úr barnsmissinum með mikilli hjálp frá henni, því hún var til staðar og gat rætt um erfiðu tilfinningarnar sem þarf að horfast í augu við, af hluttekningu og nánd, og ekki síður af því að hún mundi önnur atvik frá þessum tíma sem eru í þoku í mínum huga.

Mikið er ég nú feginn að hafa sagt við hana margoft að mér þætti vænt um hana og væri þakklátur fyrir að hún kom drengjunum mínum að hluta til í móðurstað.

Ég samhryggist öllum þeim sem hennar sakna.

Hvíl í friði mín kæra Dagný.

Hörður Geirsson.

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05

Daníel Snorrason – lífshlaupið

04. apríl 2024 | kl. 06:00