Fara í efni
Minningargreinar

Björgvin Þorsteinsson

Björgvin Þorsteinsson

Björgvin var sterkur og heill persónuleiki, lét ekki mikið á sér bera og var aldrei með neina sýndarmennsku. Hann talaði opinskátt um hlutina, kom sínum skoðunum á framfæri á sinn einstaka rólega og yfirvegaða máta. Hann hafði mikla og góða tilfinningu fyrir íslensku máli og það nýttist honum vel í lögfræðinni og sínu daglega lífi. Það var alltaf gott að leita til hans enda voru engar málalengingar í boði og svörin skýr og skynsöm. Hann hafði djúpa réttlætiskennd sem skjólstæðingar hans, í heimi lögfræðinnar, höfðu alltaf aðgang að. Þrátt fyrir rólegheitin og yfirvegunina þá leyndist undir niðri mikill húmoristi sem hafði ávallt beinskeytt tilsvör á gamansaman máta til reiðu ef svo bar undir. Þar kom hin íslenska málkunnátta hans svo berlega í ljós.

Matarsmekkur Björgvins var skemmtilegur og fullkomlega af gamla skólanum. Gellur og nætursaltaður þorskur með hamsatólg trónaði ofarlega á listanum. Hann var ekkert að eltast við nýjabrumið í eldamennsku og maður gat stólað á að fá góðan, hefðbundinn íslenskan mat. Matarblandan reyndist þó fullkomin fyrir alla við matarborðið þar sem Jóna Dóra kom sínum einstöku réttum að. Þarna var samvinna hjónanna frábær eins og úti á golfvellinum, þar sem þau áttu sínar bestu stundir.

Það var gaman að ná að spila með honum einn golfhring í sumar en því miður reyndist hann sá síðasti. Þar sýndi hann hversu megnugur hann var þrátt fyrir mikil veikindi. Einbeitingin og keppnisskapið var svo mikið að hann lét enga líkamlega verki hindra sig í að ná sem bestu skori. Á einni 5 par holunni tók hann upp driverinn til að slá annað höggið. Ég ætlaði að fara að benda honum á að hann væri með ranga kylfu, en áttaði mig fljótlega á því að hann var algjörlega búinn að leggja upp holuna. Hann ætlaði sér að reyna að ná inn á flöt í öðru höggi og eiga þannig möguleika á erni eða jafnvel albatros. Þvílíkur meistari hér á ferð.

Björgvin barðist af fullum krafti við veikindi sín til fjölda ára og þar sá maður vel hversu hinir einstöku hæfileikar hans á golfvellinum hjálpuðu til. Hið sterka hjarta hans ásamt einbeitingunni og seiglunni til að vinna leikinn gerði honum kleift að halda áfram í íþróttinni sem hann elskaði svo heitt. Síðasta holan hefur verið leikin og eftir sitja minningar um einstakan mann á sínu sviði sem ávallt bar umhyggju fyrir fólkinu í kringum sig. Hans verður sárt saknað og söknuður Jónu Dóru er mestur enda var þeirra vinskapur og ást sterk alla tíð. Þau voru alltaf saman í golfinu hvort sem hún var að draga fyrir hann í keppnismótum eða þau að spila hvort við annað eða saman í liði. Jafnframt voru þau saman í hótelrekstri og eigum við margar góðar minningar með þeim frá skemmtilegum heimsóknum að Núpum og á Akureyri.

Við söknum Björgvins en um leið finnum við fyrir djúpu þakklæti fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með honum.

Elsku Jóna Dóra, Kristinn Geir, Steina og fjölskyldur, okkar dýpstu samúðarkveðjur og megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Birkir og Ragnhildur (Ragga).

Þorleifur Jóhannsson - minning

11. janúar 2021 | kl. 06:45

Þorleifur Jóhannsson

Inga Dagný Eydal skrifar
11. janúar 2021 | kl. 06:50

Ágúst H. Guðmundsson

Ásmundur Hreinn, Bjarni Ármann og Guðmundur Ævar Oddssynir skrifa
13. janúar 2021 | kl. 07:00

Þorleifur Jóhannsson

Símon Jón Jóhannsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 09:30

Þorleifur Jóhannsson

Sævar Benediktsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 10:30

Ágúst H. Guðmundsson

Guðrún Gísladóttir skrifar
13. janúar 2021 | kl. 07:00