Fara í efni
Minningargreinar

Björgvin Þorsteinsson

Björgvin Þorsteinsson

Björgvin var nokkrum árum yngri en ég. Ég kynntist honum við kennslu í lagadeild Háskóla Íslands, þar sem hann var nemandi minn. Kunningsskapurinn þróaðist upp í vináttu eftir að hann útskrifaðist.

Hann var stálgreindur og heiðarlegur í nálgun sinni að hinum lögfræðilegu viðfangsefnum. Við urðum skoðanabræður um aðferðafræðina sem beita mætti. Ævistarf hans þróaðist upp í að verja réttindi þeirra sem sótt var að. Hann byggði varnir sínar á gildum réttarheimildum og sjónarmiðum um réttaröryggi sem heyra þeim til. Hann keypti aldrei kenningar um að dómstólar hefðu heimildir til að setja nýjar lagareglur. Beita bæri gildandi réttarheimildum sem túlka bæri á hlutlægan hátt, þar sem allir skyldu sitja við sama borð. Með öðrum orðum var hann góður lögmaður. Hann átti sæti í stjórn Lögmannafélagsins síðasta árið sem ég var þar formaður 1985-1986. Með honum var gott að vinna.

Svo spiluðum við bridge saman um alllangt árabil. Sumir segja að sambandi milli spilafélaga verði helst jafnað til sambands milli hjóna. Ekki skrifa ég upp á þá kenningu án fyrirvara, en víst er samt að þetta getur verið viðkvæmt samband, sérstaklega þegar spilamennskan gengur ekki of vel. Við félagarnir komumst samt nokkuð vel frá samneyti okkar og náðum stundum vel viðunandi árangri í bridskeppnum. Spilamennskan þjónaði vel þeim tilgangi okkar beggja að hvílast frá lögfræðistaglinu og endurnýja kraftana.

Þekktastur er Björgvin samt fyrir afburða hæfni sína í golfi. Ferill hans á því sviði er margrómaður og hef ég því einu við að bæta að það var sérstakur sómi fyrir mig, golfskussann, að fá að spila með þessum meistara. Það var líka lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig hann bar sig að í golfinu. Hann spilaði með okkur piltunum í vikulegum tímum sem við settum upp. Og hann sló auðvitað öllum við, allt fram undir haust á þessu sumri.

En umfram allt var Björgvin góður vinur. Að leiðarlokum færi ég honum þakkir mínar fyrir vináttuna sem stóð óskert um áratuga skeið.

Jónu Dóru og ástvinum öllum sendum við Kristín samúðarkveðjur um leið og við gleðjumst með þeim yfir því að hafa notið návistar og ástar þessa góða drengs.

Jón Steinar Gunnlaugsson.

Þorleifur Jóhannsson - minning

11. janúar 2021 | kl. 06:45

Þorleifur Jóhannsson

Inga Dagný Eydal skrifar
11. janúar 2021 | kl. 06:50

Ágúst H. Guðmundsson

Ásmundur Hreinn, Bjarni Ármann og Guðmundur Ævar Oddssynir skrifa
13. janúar 2021 | kl. 07:00

Þorleifur Jóhannsson

Símon Jón Jóhannsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 09:30

Þorleifur Jóhannsson

Sævar Benediktsson skrifar
11. janúar 2021 | kl. 10:30

Ágúst H. Guðmundsson

Guðrún Gísladóttir skrifar
13. janúar 2021 | kl. 07:00