Fara í efni
Minningargreinar

Bára Jakobsdóttir Ólsen

Kær tengdamóðir mín Bára J. Ólsen er látin 95 ára að aldri. Andlát hennar bar brátt að, því þótt hún hafi farið í aðgerð í vikunni vegna lærbrots, þá kom hún til meðvitundar eftir aðgerðina og virtist á góðum batavegi. En skyndilega var þrek hennar þrotið og lést Bára á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð að morgni 25. ágúst s.l., umvafin sínum nánustu.

Mér líður seint úr minni sú stund er ég kynntist þeim hjónum Báru og Hrafni í fyrsta sinni. Það var haustið 1963 að ég þá sextán ára gamall kom í heimsókn í Grænumýri 18 til að hitta elstu dótturina Sigrúnu sem var heima að passa yngri börnin.

Planið var að láta sig hverfa áður en foreldrarnir kæmu heim, en þar sem mér dvaldist lengur en ráðgert var, þá mætti ég þessum glæsilegu hjónum Báru og Hrafni í forstofunni.

Mér fannst Hrafn frekar óárennilegur við þessar aðstæður, svo ég snéri mér að Báru, sem heilsaði með hlýju brosi og bauð mig velkominn. Ótti minn við Hrafn var þó ástæðulaus, því hann heilsaði mér með þéttu handtaki sveitamannsins, bauð mig velkominn og spurði síðan hvort ég væri ekki svangur og vildi líta aðeins með sér í eldhúsið ?

Það er skemmst frá því að segja að upp frá þessu varð Grænumýri 18 mitt annað heimili. Ég hafði skömmu áður misst föður minn og vantaði því aðhald og stuðning. Þau Bára og Hrafn studdu mig á allan hátt og með okkur tókst vinátta sem aldrei hefur borið skugga á.

Heimili Báru og og Hrafns var nokkuð ólíkt því sem ég hafði áður kynnst, þar var stór fjölskylda, alltaf fullt hús af fólki og mikill léttleiki yfir öllu og mikið spilað og sungið. Þetta andrúmsloft og hlýja og gestrisni þeirra hjónanna einkenndi allt þeirra líf og er því ekki að undra að heimili þeirra hafi verið miðpunktur alls fjölskyldulífsins gegnum árin og barnabörnin og barnabarnabörnin sótt þangað öruggt og hlýtt skjól eftir að börnin fóru.

Eftir að Hrafn féll frá árið 1997, gerði Bára allt sem hún gat til þess að viðhalda þessu góða andrúmslofti og halda góðum tengslum við alla í stórfjölskyldunni. Í dag er því mikið skarð fyrir skildi og sár söknuður í hjarta okkar allra.

Ef lýsa ætti Báru tengdamóður minni í fáum orðum kemur mér fyrst í hug óbilandi viljastyrkur, hreinskilni, umhyggjusemi og lífsgleði. Mér fannst hún alltaf eins og klettur sem ekkert mundi vinna á, þótt ágjöf væri á stundum.

Hún veiktist nokkrum sinnum mjög alvarlega á seinni árum, en náði sér alltaf ótrúlega vel aftur. Má ætla að hennar mikli viljastyrkur og lífsvilji hafi hjálpað þar til.

Hún naut því lífsins til hinstu stundar. Hún fylgdist alla tíð vel með, hafði áhuga á öllu og naut þess almennt að vera til.

Síðustu árin dvalist Bára á Lögmannshlíð, þar sem henni leið vel og naut góðrar umönnunar, bæði starfsfólks og sinna nánustu. Arna dóttir hennar og Sigfús maðurinn hennar fá þó sérstakar þakkir fjölskyldunnar fyrir einstaka umönnun Báru á síðustu árum.

Nú þegar komið er að leiðarlokum kveð ég kæra tengdamóður. Ég vil biðja Guð almáttugan að styrkja börnin hennar og bróður, og ekki síst barnabörnin og barnabarnabörnin, sem sakna ömmunnar, sem alltaf var til í gott spjall um lífið og tilveruna eða grípa í spil til að stytta þeim stundir.

Við Sigrún, börnin okkar, tengdabörn og barnabörn kveðjum ömmu Báru með þakklæti og söknuði.

Blessuð sé minning Báru J Ólsen.

Gylfi Már Jónsson

Smári Jónsson – lífshlaupið

Fjölskylda Smára skrifar
30. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Freyja Rögnvaldsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Gunnar Jóhann Gunnarsson

Tryggvi, Sigríður Dóra, Sigurjón, Gunnhildur Harpa og Tómas skrifa
12. apríl 2024 | kl. 06:00

Daníel Snorrason

Valur Ásmundsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 09:45

Daníel Snorrason

Björn Björnsson skrifar
04. apríl 2024 | kl. 06:05