Fara í efni
Minningargreinar

Aðalgeir Aðalsteinsson

Góða ferð afi.

Þrátt fyrir að hafa skrifað eitthvað yfir hundrað minningarorð er eins og hugurinn verði seigfljótandi þegar ég byrja að skrifa um afa. Þetta er gangur lífsins, en það er óraunverulegt að hann sé farinn. Afi var fasti í tilverunni, eins og fjöllin sem umlykja fjörðinn. Traustur, lætur storma lífsins ekki hreyfa sig úr stað, alltaf eins, alltaf gamall, teygir sig til himins. Nú er fjallið hrunið, eða kannski náði það taki á himninum og hóf sig til flugs. Ég tala oft um afa, enda gaf hann mér þá merkilegu gjöf að opna fyrir mér dyrnar að spírítismanum. Við ræddum eilífðina, læknamiðla og mátt bænarinnar. Afi var mikill trúmaður, en til að gæta þess að ég færi ekki að prédika einhverja vitleysu afhenti hann mér bókina Sumarlandið þegar ég hóf nám í guðfræði, þar væri nefnilega sannleikurinn.

Afi hafði frá mörgu að segja, nú vildi ég óska að ég væri jafn minnugur og hann. Það sem ég dreg saman, man og get fullyrt eftir samtölin okkar er að hann var virkilega stoltur af tvennu. Það fyrra erum við afkomendurnir, það ræddum við síðast á bráðamóttökunni þegar hann var lagður inn annan í jólum. Það seinna er ævistarfið. Hann var þakklátur fyrir það hvað margir nemendur virtust minnast hans með hlýju, nálguðust hann í búðinni eða úti á götu til að spjalla og rifja upp gamla tíma. Náðargáfa afa var minnið. Eftir smá umhugsun gat hann þulið upp nemendahóp heilu árganganna. Það sá ég á aðfangadag þegar gamall nemandi kom til hans eftir aftansöng og kastaði á hann kveðju. Það gladdi hann, og afi fór strax að telja upp hver fleiri hefðu verið í þessum árgangi. Afi, þú lifir með okkur. Í minningunum, þeim sporum hlýju sem þú markaðir í líf okkar, og svo vitum við að þú vakir yfir okkur. Nú kunna langaafabörnin að spila lönguvitleysu og „Dodda litla“, lagið sem þú kenndir mér 4 eða 5 ára gömlum. Hér er hjónabandssælan bökuð eftir þinni uppskrift og þakklætið fyrir allt það sem þú varst og gafst litar minningarnar. Þú sagðir að við myndum hittast á Hvítafjalli í Sumarlandinu, svo góða ferð afi.

Við sjáumst síðar.

Sindri afadrengur

Þór Sigurðsson

Valgerður H. Bjarnadóttir skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:00

Þór Sigurðsson

Kristín, Sigurður og Herdís skrifa
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 10:30

Þór Sigurðsson

Hörður Geirsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 09:30

Þór Sigurðsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 06:00

Þór Sigurðsson – lífshlaupið

10. júní 2024 | kl. 06:00