Fara í efni
Menning

Verksmiðjan Gefjun, Akureyri – olía á striga

Í síðustu viku hóf Akureyri.net að opna dyr safnanna í bænum, ef svo má segja, lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það verður gert vikulega, á fimmtudögum, með því að birta mynd af listaverki, einhvers konar grip eða skjali, með upplýsingum um viðkomandi hlut. Þetta er gert í samstarfi við Listasafnið, Minjasafnið, Héraðsskjalasafnið og Iðnaðarsafnið._ _ _ 

SÖFNIN OKKAR – IIFrá Listasafninu á Akureyri
_ _ _
 

Kristín Jónsdóttir
Verksmiðjan Gefjun, Akureyri
1926
Olía á striga

Málverkið Verksmiðjan Gefjun, Akureyri eftir Kristínu Jónsdóttur er málað 1926 og sýnir lognværan Eyjafjörðinn með fjallið Kaldbak í baksýn, dregið kröftugum línum. Sjónarhornið sem listakonan velur er mikilvægt þar sem horft er í norðurátt, út Eyjafjörðinn. Við áhorfandanum blasir gamla íslenska bændasamfélagið, en jafnframt sproti nýhafinnar iðnvæðingar og úrvinnsluatvinnugreina. Svæðið, sem nú kallast Glerárhverfi, er þétt setið litlum býlum sem eru á fallanda fæti. Framtíðin birtist annars vegar í fyrsta verksmiðjuhúsinu af mörgum við Glerána og hins vegar í glæsilegu íbúðarhúsi verksmiðjustjórans, sem er eins og höll í samanburði við bæina handan árinnar.

Kristín Jónsdóttir (1888-1959) var brautryðjandi, enda fyrst norðlenskra kvenna til að leggja stund á listnám og skipa verk hennar góðan sess í íslenskri listasögu. Kristín hélt til Kaupmannahafnar 21 árs gömul og nam í Tegne- og Kunstindustriskolen for Kvinder 1909-1911 og stundaði nám við Konunglegu Listaakademíuna 1911-1916. Samtíða henni í námi voru m.a. Jóhannes Kjarval, Muggur og Júlíana Sveinsdóttir. Öll áttu þau eftir að verða mikilsmetnir myndlistarmenn.

Málaralist Kristínar fjallar fyrst og fremst um landslag þar sem næmi hennar fyrir formum, birtustigi og kyrrð eru áberandi. Blátónar eru einkennandi ásamt grænum blæbrigðum í grasi og jurtum jarðarinnar. Þegar horft er á málverk Kristínar í dag vísa þau til fortíðarinnar, í rómantískt og ósnortið landslag sem vekur sterkar tilfinningar fegurðar og kyrrir hugann. Í upphafi ferils síns málaði Kristín mikið í Eyjafirði og nærsveitum, en flutti svo til Reykjavíkur og stundaði list sína þar.