Fara í efni
Menning

Verðlaunagripur frá héraðshátíðinni 1890

SÖFNIN OKKAR – 91

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Dagana 20.–22. júní árið 1890 var haldin héraðshátíð Oddeyri í tilefni þess að 1000 ár voru liðin frá því Helgi magri nam Eyjafjörð. Matthías Jochumsson átti frumkvæði að hátíðinni og var jafnframt formaður forstöðunefndar. Umfangsmesta og eftirminnilegasta skemmtiatriði hátíðarinnar var sjónleikurinn Helgi magri eftir Matthías sem hann samdi sérstaklega fyrir hátíðina. Sjónleikurinn var vel sóttur og sýndur alls fjórum sinnum fyrir fullu pakkhúsi neðst á Oddeyrartanga (neðan við Gránufélagshúsið). Páll J. Árdal lék Helga magra en Anna M. Stephensen Þórunni hyrnu.

Akkerið er um 16,5 sentimetrar á hæð, segir í pistlinum. 

Mikill metnaður var lagður í hátíðarhöldin. Auk sýninga á Helga magra var ýmislegt annað um að vera þessa þrjá daga. Til dæmis voru sýningar á kvikfénaði úr nokkrum hreppum Eyjafjarðarsýslu, reist var stórt veitingatjald og danspallur, dönsk herskip sem lágu við höfnina skutu litlum sprengjum og fleira. Fyrsta daginn var einnig keppt í kappróðri og urðu Svarfdælingar hlutskarpastir, en rærarar voru sex talsins; Gunnlaugur Friðleifsson, Jón Jóhannesson, Sigurður Jóhannesson, Halldór Jónsson, Þorsteinn Jónsson og Jón Kristjánsson. Í verðlaun var silfrað akkeri umvafið keðju og framan á því var hitamælir. Akkerið er varðveitt á Minjasafninu á Akureyri og er einn af stofngripum safnsins. Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum eru grafnar tölur í akkerið sem segja til um hitann en sjálfur mælirinn hefur einhverntímann glatast áður en það barst safninu. Akkerið er um 16,5 sentimetrar á hæð.

Alls mættu yfir 4000 manns á hátíðina og þar af sáu um 1200 sjónleikinn. Var héraðshátíðin á Oddeyri 1890 lengi í minnum höfð. Ekki hafa varðveist ljósmyndir frá hátíðarhöldunum svo vitað sé, nema sitthvor myndin af aðalpersónunum tveimur í fullum skrúða, Helga magra og Þórunni hyrnu.