Fara í efni
Menning

Leirugarður átti að sporna við aurnum

SÖFNIN OKKAR – 75

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Kannski má segja að Leiruvegurinn sem var opnaður 1986 sé í raun birtingarmynd grjótgarðsins sem enn er sjáanlegur og skagar út frá fjörunni við Leirunesti.

Þessar látlausu menningarminjar þjóna engu hlutverki í dag nema þá helst sem íverustaður fugla og annarra smádýra. Þessi hlaðni veggur heitir raunar Leirugarður og má rekja forsögu hans til miðbiks 19. aldar, en bygging hans byrjaði þó ekki fyrr en árið 1929. Megin tilgangur garðsins var að sporna við aurnum sem Eyjafjarðaráin ber með sér og ógnaði bryggjunum í Innbænum. Hann olli miklum grynningum og gerði skipum sífellt erfiðara að leggja að.

Til hægri eru leifar gamla Leirugarðsins en til vinstri er byrjað að vinna að Leiruveginum sem opnaður var 1986

Eyjarfjarðará var lengi farartálmi og ýmsar hugmyndir um að brúa hana en ekki var einhugur um hvar eða hvernig. Ein hugmyndin var að gera garð á Leirunum. Frímann B. Arngrímsson taldi árið 1917 að gullið væri í leirnum, aurleðjunni. Frímann hvatti til þess að hlaðinn yrði tveggja vagna breiður grjótgarður yfir Leirurnar frá Aðalstræti 15 eða 17 að Ytri-Varðgjá með sveiflubrúm yfir álana fimm sem væru á leiðinni og flóðgarða meðfram. Þetta yrði þjóðbraut yfir Pollinn og engi yrðu til að vestanverðu úr leirnum sem fóðrað gæti 300 til 400 nautgripi.

Ekkert bólaði á garðinum yfir Leirurnar en 1923 var Eyjafjarðará brúuð. Það voru þó fyrst og fremst áhyggjur af innri hafnarbryggjunni – Tuliniusarbryggju og Höepfnersbryggju – sem héldu hugmyndinni um Leirugarðinn á lífi. Árið 1929 var hafist handa við hleðslu garðsins og var grjótið einkum sprengt úr Vaðlaheiði og því ekið yfir ísilagðan pollinn. Eftir 1934 var þó lítið við hafist við frekari uppbyggingu garðsins, en á næstu áratugum færðist nær allur sjávarútvegur og verslunarlíf norðar í bæinn.

Hér má sjá hvernig Leirugarðurinn leit út um eða upp úr 1930.

Í dag er bróðurpartur garðsins undir uppfyllingu enda hefur svæðið mikið breyst í tímans rás. Þegar fjarar má þó enn sjá ysta hluta Leirugarðsins og er hann minning um framkvæmd sem átti að varðveita gömlu bryggjurnar í elsta hluta Akureyrar. Auk þess átti hann að mynda grösugar flæðiengjar sem bæjarbúar gátu notið góðs af. Verðmæti í leirnum eru minni nú en þá.

Leirugarðurinn eins og hann lítur út í dag. Hann sést bara þegar fjarar út.

Við gerð þessa pistils var einkum notast við grein Jóns Hjaltasonar sagnfræðings úr bókinni Ótrúlegt en satt. Einnig eru hér að neðan aðrar áhugaverðar heimildir um Leirugarðinn fyrir fróðleiksfúsa og áhugasama.

Prentaðar heimildir

„Endurbætur Leirugarðs.“ Íslendingur, 17. nóvember 1966, 7.

Frímann B. Arngrímsson. „Huldir fjársjóðir. Gullið í Leirunni við Akureyri.“ Norðurland, 5. september 1917, 133.

Jón Hjaltason. Ótrúlegt en satt. Saga Akureyrar í öðruvísi ljósi, stundum skemmtilegu, stundum sorglegu, jafnvel vandræðalegu en alltaf fróðlegu. Akureyri: Völuspá útgáfa, 2021. Sjá bls. 61–68.

Kunnugur. „Athugasemd.“ Íslendingur, 26. mars 1947, 6.

Steingrímur Matthíasson. „Úr „Heima og heiman.““ Heimskringla, 30. apríl 1930, 2–3.