Fara í efni
Menning

Framleiðsla á Pez töflum í Lindu á Akureyri

SÖFNIN OKKAR – 86

Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Íslendingar kynntust hinum vinsælu Pez sælgætistöflum árið 1959. Pez-ið var þó ekki innflutt og tilbúið í verslanir heldur var það framleitt á Akureyri af Súkkulaðiverksmiðjunni Lindu undir stjórn Eyþórs Tómassonar. Safngripur vikunnar að þessu sinni kemur frá Iðnaðarsafninu á Akureyri og tengist Pez töflum og framleiðslu þeirra á Akureyri.

Til vinstri, auglýsing úr Morgunblaðinu, 15. september 1960: Um það leyti sem fyrstu Pez-karlarnir litu dagsins ljós framleiddi fyrirtækið einnig sérstakar Pez leikfangabyssur sem skutu Pez-töflum. Byssurnar urðu þó ekki eins lífseigar og karlarnir, enda gátu þær reynst hættulegar og voru síðar teknar af markaði. Pez leikfangabyssurnar rötuðu þó til Íslands og ef krakkar söfnuðu hundrað Pez bréfum og skiluðu inn fengu þau í staðinn eina slíka. 

Til hægri: Pez-karlarnir svonefndu hafa í áratugi verið eitt helsta einkenni sælgætisins. Þessi pakki var framleiddur rétt fyrir síðustu aldamót.

Pez var stofnað í Austurríki árið 1927 af viðskiptamanninum Eduard Haas III. Fyrstu árin var Pez einungis selt með piparmyntubragði og markaðsett fyrir reykingarfólk sem vildi hætta að reykja. Áttu Pez töflurnar þannig að verða nokkurs konar staðgengill sígarettunnar. Það mun þó hafa skilað misjöfnum árangri en töflurnar urðu fljótt vinsælar sem sælgæti og nokkrar bragðtegundir bættust við. Fyrstu töflurnar voru hringlaga en fljótlega tóku þær á sig það múrsteinslaga form sem við þekkjum enn í dag. Þá komu töflurnar í litlum dósum en árið 1949 komu á markaðinn Pez staukar eða hylki með áföstu loki. Staukana var hægt að fylla af Pez-i og þegar lokinu var lyft kom út Pez tafla.

Pez sjálfsalinn sem Kaupfélag Eyfirðinga afhenti Iðnaðarsafninu árið 2004 og er þar til sýnis ásamt ýmsu öðru sem tengist Lindu.

Það var síðan á sjötta áratugnum sem Pez sló endanlega í gegn. Byrjað var að selja töflurnar í Bandaríkjunum og bættust þá við töflur með ávaxtabragði. Þá var farið markaðsetja Pez meira fyrir yngri kynslóðina. Enda nokkrum árum síðar birtust fyrstu hausarnir á staukunum og voru þeir þá farnir að líkjast þeim sem enn þann dag í dag eru notaðir og í daglegu tali eru nefndir Pez-karlar. Pez-karlarnir voru oftar en ekki persónur úr vinsælum teiknimyndum og hefur sú hefð haldist.

Eyþór Tómasson stofnandi Lindu og framkvæmdastjóri lengst af. Það var mikill áfangi í sögu fyrirtækisins þegar Linda fékk einkaréttinn á framleiðslu Pez taflna hér á landi árið 1959.

Árið 1959 gerði Súkkulaðiverksmiðjan Linda á Akureyri samning við Pez samsteypuna um að fá einkaréttinn á framleiðslu Pez á Íslandi. Pez var í kjölfarið hægt að fá í flestöllum matvöruverslunum á Akureyri og um land allt en einnig voru settir upp sérstakir Pez sjálfsalar. Á neðri hæð Iðnaðarsafnsins á Akureyri er ýmislegt til sýnis sem tengist Lindu, þar á meðal er einn Pez sjálfsali. Kaupfélag Eyfirðinga afhenti safninu sjálfsalann árið 2004, en áður fyrr voru Pez sjálfsalar í matvöruverslunum KEA og víðar. Sjálfsalinn er gulur að lit og framan á er „Pez-stúlkan“, sem iðulega var í auglýsingum frá sælgætisframleiðandanum. Leiðbeiningar eru á íslensku en í öðrum löndum þar sem Pez var selt mátti finna sambærilega sjálfsala. Pakkinn kostaði þá 2 íslenskar krónur og var hægt að velja um þrjár bragðtegundir; piparmyntu-, sítrónu eða appelsínubragð. Linda framleiddi þó fleiri tegundir af Pez töflum, til að mynda með kirsuberja- og lakkrísbragði og var því meira úrval í búðum.

Öskudagsmynd. Gunnar Gunnarsson í heimagerðum Pez búning. Ljósmynd: Gísli Ólafsson/Minjasafnið á Akureyri

Enn þann dag í dag nýtur Pez mikilla vinsælda um allan heim, bæði sælgætistöflurnar en sömuleiðis og ekki síst Pez-karlarnir sem jafnframt vekja upp skemmtilegar minningar hjá mörgum. Alveg frá því að fyrstu Pez-karlarnir komu á markaðinn hafa þeir vakið mikla lukku og hefur fólk um allan heim, bæði börn og fullorðnir, safnað þeim.

Iðnaðarsafnið á Akureyri er opið alla daga frá 11–17.

Auglýsing úr Vikunni, 16. apríl 1959. Þá var Pez-ið nýkomið á íslenskan markað.