Fara í efni
Mannlíf

Valmar Väljaots tónlistarmaður

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

10. desember – Valmar Väljaots, tónlistarmaður

Elskum mömmur okkar og skilum okkur heim um jólin!

Hún fer að nálgast, Jólatíð 2023. Þegar ég reyni að koma mér í gírinn til að segja frá sérstökum jólaminningum í mínu lífi, þá vil ég ekki endurtaka það sem ég hef deilt áður, en bæti hér við einni sögu um Kolba í Mývatnssveitinni. Hann Kolbjörn „Kolbi“ Arnljótsson færði mér óvænt sérstaka jólaró með því að ná heim til mömmu sinnar á aðfangadag fyrir um það bil 20 árum síðan.

„Allt eins og vanalega, einlægni og ljúfmennska í botni, enda erum við líka að tala um Mývetninga!“

Það var hefð fyrir því að koma saman á Þorláksmessukveldi á Hótel Seli, við Jón Árni spiluðum árlega jólalög og Mývetningar voru að syngja, knúsast, skoða bækur, fá sér mandarínur og kakó o.s.frv. Allt eins og vanalega, einlægni og ljúfmennska í botni, enda erum við líka að tala um Mývetninga! Svo fréttist að Siggi Bald hafði, ásamt krökkum sínum, lent í bílveltu á leiðinni heim frá Húsavík og auðvitað fórum við nokkrir um kvöldið að skoða hvort allt væri í góðu með feðgana. Sem betur fer var enginn slasaður og því bar að fagna!

Fórum við þá að spila brids og fyrir einhverja tilviljun var til bjór líka, svo okkur leið vel. Svo allt í einu kemur inn Kolbi! Hann var búinn að ganga frá öllu á hótelbarnum og kom bara eftir vinnu, nema klæðaburður hans var ekkert vetrarlegur, hann kom nákvæmlega í klæðnaði barþjóns og í sandölum. Við tókum honum fagnandi og enn meiri gleði í hópnum.

Þá kom tími til að fara að kveðja og ég bauð Kolba að gista hjá okkur því enginn Mývetningur keyrir eftir að hafa fengið sér bjór. Kolbi var samt efins, því hann vildi alls ekki láta mömmu bíða eina heima um jólin. Loksins urðum við sammála um að hann færi heim snemma næsta morgun og allt í góðu með það!

„Bíllinn hans Kolba var á kafi í snjó og það var augljóst að á þessum bíl, við þessar aðstæður, færi enginn neitt.“

Næsta morgun kom óvænt stórhríð... Við fórum út að skoða aðstæður og það leit alls ekki vel út, bíllinn hans Kolba var á kafi í snjó og það var augljóst að á þessum bíl, við þessar aðstæður, færi enginn neitt. Því fannst mér sjálfsagt að bjóða honum að vera rólegur heima hjá mér, nóg til af öllu og alltaf gott að hafa mann eins og Kolba sem gest!

Hann tók ekki til greina að skila sér ekki heim, því mamma biði ein heima... Og hann fór af stað eftir að við komum bílnum í gang og losuðum hann úr snjónum, ég man ekki hvernig bíll þetta var, en ekki var það 4x4 jeppi… Kolbi var ekki með neinn farsíma og barþjónafötin og sandalarnir ekkert sérstakir til að ferðast í svona veðri, en svona einfalt var það; Mamma var að bíða!

Mikið var ég ánægður þegar hann hringdi í mig eftir heimkomu og ég veit að mamma var það og Kolbi sjálfur líka... Jólaboðskapurinn úr þessari sögu: elskum mömmur okkar og skilum okkur heim um jólin!