Fara í efni
Mannlíf

Ingvi Rafn Jóhannsson rafvirkjameistari

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

24. desember Ingvi Rafn Jóhannsson, fyrrv. eigandi og framkvæmdastjóri Raftækni

Þegar ljósið lifnaði við í Skjaldarvík

Ein jólin, einhversstaðar á milli 1950 og 60, voru Íslendingar að kaupa einhverjar rússneskar ljósaperur, til þess að jafna viðskipti við Rússa sem höfðu keyptu svo mikla síld af okkur eða eitthvað slíkt, ef ég man rétt. Þessar ljósaperur voru svo endingarlausar og gallaðar, að það kviknaði nú bara á þeim svona endrum og eins. Oft slógu þær út öryggjum og svoleiðis þegar þær brunnu yfir. Þá varð bara straumlaust í húsunum.

„Ég bað fólk um að finna til nýjar perur, sleppa þessu rússneska drasli.“

Það voru ótal uppákomur um þessar mundir, þar sem ég var kallaður út til þess að aðstoða fólk með rafmagnið út af þessum vandræðaperum, fólk gat náttúrulega ekki verið rafmagnslaust og hvað þá um jólin. Ég bað fólk um að finna til nýjar perur, sleppa þessu rússneska drasli. Mér er minnistæðast þegar ég var rétt kominn heim til mín eftir útkall, upp úr fjögur á Aðfangadegi. Þá beið mín ný beiðni frá Skjaldarvík, þar sem var orðið straumlaust. Á þessum tíma var þar rekið heimili fyrir aldraða.

„Það var svona hálfmyrkur, eða hálfljós. Fer eftir því hvernig maður lítur á það.“

Ég varð að drífa mig út aftur og þá voru svona týrur í Skjaldarvík. Það var talað um að þegar einn fasi af rafstraumnum datt út minnkaði ljósið. Ég var frekar fljótur að finna hvað var að þarna, en bilunin átti sér upptök hjá Rafveitunni. Það sem situr í minningunni er þessi birta sem var þarna. Það var svona hálfmyrkur, eða hálfljós. Fer eftir því hvernig maður lítur á það.

Þegar að ljósin svo komu, braust út svo ósvikin gleði, og það er hún sem er svo ljóslifandi ennþá í minningunni. Þarna bjó náttúrulega aldrað fólk og jólin viðkvæmur tími. Margir búnir að missa mikið. Mér fannst þetta vera jólagjöf.

„Það gaf mér mikið að finna hvað það hafði glatt fólkið í Skjaldarvík að fá birtu og yl á jólunum.“

Fjölskyldujólin mín biðu heima, en þá átti ég held ég orðið fimm börn. Mér fannst það svolítið erfitt að koma seint heim á jólunum, en ég mætti miklum skilningi og umhyggju frá fjölskyldunni. Það gaf mér mikið að finna hvað það hafði glatt fólkið í Skjaldarvík að fá birtu og yl á jólunum, og tvisvar verður nú gamall maður barn.