Fara í efni
Mannlíf

Gestur Einar Jónasson fjölmiðlamaður og leikari

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

23. desember Gestur Einar Jónasson, fjölmiðlamaður og leikari

Botnlanginn er enn í henni!

Ein jól eru mér sérstaklega eftirminnileg. Fyrir mig, Elsu konuna mína og alla fjölskylduna. Við vorum í Reykjavík, hjá dóttur okkar sem býr hér með fjölskylduna sína. Við vorum búin að vera hress og kát, nema hvað, að á Þorláksmessukvöldi fær konan mín svona ægilega illt í magann. Það var ekki þessi klassíska magapest, heldur eitthvað annað. Hún harkaði nú samt af sér þangað til morguninn eftir - Aðfangadagsmorgun.

Hann sendir okkur tafarlaust á Borgarspítalann og segir að það þurfi að gera eitthvað í þessu strax.

Dóttir okkar segir að við verðum að fara á læknavaktina og athuga málið þar sem móðir hennar var ennþá mjög kvalin. Elsa er þannig kona, að hún kvartar aldrei yfir neinu, þannig að okkur stóð nú ekki á sama. Við fórum þá á einhverja stofu þarna rétt hjá Smáralindinni fyrir hádegið og eftir svolitla skoðun hjá lækni, segir hann okkur að þetta sé botnlanginn. Hann sendir okkur tafarlaust á Borgarspítalann og segir að það þurfi að gera eitthvað í þessu strax.

Beðið eftir jólum á Borgarspítalanum

Við hlýðum þessu að sjálfsögðu og mín var lögð inn, þarna um miðjan dag á Aðfangadegi. Frábær tímasetning. Hún var lögð þarna í rúm, tekin í skoðun og staðfest að botnlanginn væri bólginn og það yrði að taka hann. Henni voru gefin einhver lyf og svo líður og bíður. Við sitjum þarna og bíðum, hún í sjúkrarúmi og ég í óþægilegum stól. Alltaf leið nær og nær jólum og heldur leið okkur undarlega að vera í þessum aðstæðum.

Klukkan slær sex og jólin gengu í garð. Við höfum alltaf heiðrað það, að vera tilbúin fyrir jólin þá, með allt klappað og klárt fyrir jólamatinn.

Nú var annað upp á teningnum. Við gátum ekki einu sinni hlustað á klukkurnar klingja inn jólin, eina sem heyrðist var þegar gengið var um ganga fyrir utan herbergið og stöku spjall milli starfsfólks og sjúklinga sem vantaði lyf eða eitthvað slíkt.

Jólamaturinn á sjúkrahúsbakka

Það leið og beið og loksins kom þarna matur handa Elsu, en ég fékk ekki neitt. Það var ekki einu sinni horft á mig! Elsa gaf mér nú svolítið af matnum sínum, hún hafði ekki mikla lyst. Þetta var eitthvert svínakjöt sem við gæddum okkur á þarna. Fljótlega eftir þessa jólamáltíð okkar, var okkur tilkynnt að hún yrði að fara yfir á Landsspítalann. Henni var skutlað þangað með sjúkrabíl og ég keyrði á eftir. Eitthvað átti að hóa í lækni til þess að skera hana upp, en ekki bólaði á neinum og við ennþá í sömu stöðunni, að bíða og bíða.

Þegar heim til dóttur okkar var komið, skellti hún afgangi af jólasteikinni í örbylgjuofninn.

Upp úr krafsinu kom, að hún þótti hafa jafnað sig þokkalega og það væri ekki lengur ástæða til þess að skera hana upp. Ég var sendur heim og hún átti að gista um nóttina. Þegar heim til dóttur okkar var komið, skellti hún afgangi af jólasteikinni í örbylgjuofninn. Ég fékk þarna svolítinn jólamat um ellefuleytið um kvöldið.

Morguninn eftir dreif ég mig upp á sjúkrahús og þar lá mín, óuppskorin. Hún hafði bara verið þarna liggjandi, og var áfram allan Jóladag líka. Að morgni annars í jólum fékk hún svo að fara heim. Við keyrðum svo norður aftur daginn eftir. Það er skemmst frá því að segja, að botnlanginn er enn í henni!

Þetta voru sérstök jól. Að vera þarna, á spítalanum. Um átta, eða hálf níu, fóru að koma inn eldri menn sem voru farnir að finna til í hjartanu vegna ofáts. Þetta hélt ég að hefði alltaf bara verið flökkusaga. Einnig varð mér hugleikið, eftir þetta, hvað starfsfólkið sem þurfti að vinna var einbeitt. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þau óska hvert öðru gleðilegra jóla eða neitt slíkt. Þetta var bara eins og venjulegur vinnudagur. En auðvitað vissi ég, að þau áttu að öllum líkindum fólk heima hjá sér og eflaust var hugurinn þar líka.