Fara í efni
Mannlíf

Kristján Kristjánsson leikstjóri

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

18. desember – Kristján Kristjánsson, leikstjóri

Fjölskyldujól lítils glókolls í Þorpinu

Það er tuttugasti og fjórði desember árið nítjánhundruð áttatíu og eitthvað. Það er erfitt að vera nákvæmari en það. Enda tíminn einskis virði í höfði glókolls í Þorpinu. Ég er átta eða fjórtán ára eða allt þar á milli. Ég vissi ekki þá að við værum að telja ár, hvað þá nefna þau og staðsetja atburði, áfanga, sigra, töp og útgáfu á hljómplötum innan þeirra. Þetta eru tímalaus ár án fortíðar og framtíðar og enginn í heiminum sem getur hrært inn áhyggjum, vísitölu eða veðurbreytingum í þennan óharðnaða huga. Það er án vafa eitthvað um að vera um allan heim á þessum sama tíma en hvað sem það var þá er það ekki lengur. Ef það var gott þá á vonandi einhver um það minningarbrot. Minningarbrot eins og mitt, sem er stútfullt af tilfinningum og yndislegu áreiti á öll skynfæri, eitt hundruða augnablika sem gera mann ástfanginn af lífinu.

Það eru einhverjar líkur á að ég hafi náð eina kirsuberinu úr dósinni með blönduðu ávöxtunum

Hamborgarahryggurinn, grænu baunirnar og dísæta hvítkálið hans pabba sem hann lærði að gera af Ömmu Grétu er búið. Heimatilbúni vanilluísinn hennar mömmu með blönduðu ávöxtunum er líka búinn. Það eru einhverjar líkur á að ég hafi náð eina kirsuberinu úr dósinni með blönduðu ávöxtunum, spyrjið börnin mín, þau hafa heyrt þá ómerkilegu sögu oftar en þau vilja. Eða er sú saga ómerkileg ef enn lýsir af henni í mínum huga?

Þetta eru ekki ár allsnægtar líkt og nú, fjarri því, þetta eru ár nægjusemi og allrar þeirrar fegurðar sem því fylgir.

Það sem framundan er þetta aðfangadagskvöld eru heimsóknir til ömmu og afa og ömmu og afa. Ískaldur blár Ford Escort er sjálfsagt ógangfær þessi jólin... enn í minningunni er það samt sá bíll sem við ætlum að ferðast í. Ég brýt upp hurðina á bílnum og teygi mig vettlingalaus í hanskahólfið þar sem kassetturnar eru geymdar, þar gríp ég eitt hulstur fyrir mig og eitt fyrir systur mína svo við getum skafið blaðsíðuþykkt frostið af rúðum bílsins. Annað er Abba og hitt er Bítlarnir. Það er hvergi skráð hvort þeirra hentar betur sem rúðuskafa. Það eru gerfileg bíómynda snjókorn sem falla, allt í kring eru þau ósýnileg nema efst við ljós ljósastauranna og á augnlokunum þegar ég lít upp.

Íklædd spariskyrtu með sósublett og næfurþunnum spariskóm, alls ekki hentugir í neitt nema til að teika bíla

Þessi ferð er stutt en hún er sameiginlegt verkefni, okkur er öllum jafn kalt að utan. Íklædd spariskyrtu með sósublett og næfurþunnum spariskóm, alls ekki hentugir í neitt nema til að teika bíla, flatbotna skór henta best í teik. Ég teika fjölskyldubílinn samt ekki heim til ömmu og afa, það er pláss fyrir mig aftur í, og eldri systkynin tvö, og ef að Peddi bróðir er fæddur, þá er samt pláss, bara örlítið þrengra pláss.

Í þessari minningu og ég man rökkrið, mismunandi ilminn og allrahanda væntumþykju á þremur heimilum um jólin

Inni í hlýjunni er heimsins besta terta í boði, kaffi, kandís og þrjátíu bros frá andlitum meðlima stórfjölskyldunnar. Og það er þarna sem ég stoppa og dvel, í þessari minningu og ég man rökkrið, mismunandi ilminn og allrahanda væntumþykju á þremur heimilum um jólin, heima hjá ömmu og afa, heima hjá ömmu og afa og heima hjá mömmu og pabba.

Þessar stundir lögðu línuna um hvað jólin væru, stórfjölskylda, samvera, sögur, hlýja og hlátur.

Ég man engar gjafir frá þessum tíma en ég man þessar stundir sem auðvitað var aðalgjöfin. Í lok heimsókna var bíllinn gaddfreðinn aftur og kaldari en kaldur og við þurftum að skafa rúðurnar aftur með öðrum hulstrum, íklædd næfurþunnum sparifötum. Samt var okkur hlýtt.

Þá var lesið til fjögur um nóttina, áhyggjulaust. Því morgundagurinn var að mestu óskrifað blað.

Heima beið ný bók, nýkomin úr jólapakka, hún tók mann yfir í annan ævintýraheim, ljón, norn og tyrkjasæla. Mín tyrkjasæla var laufabrauð, malt og appelsín. Þá var lesið til fjögur um nóttina, áhyggjulaust. Því morgundagurinn var að mestu óskrifað blað. Það eru jólin.