Fara í efni
Mannlíf

Tengi uppáhaldslagið við öll mín æskujól

JÓLALAGIÐ MITT

Birgir Orri Ásgrímsson, forseti Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri

Ég elska góðar hefðir og engin hátíð er eins og jólin þegar kemur að hefðum. Hverjar sem hefðirnar eru þá er alltaf mikilvægast að hafa góðan jólalaga playlista undir á meðan. Hérna eru nokkur af mínum uppáhalds jólalögum sem koma mér alltaf í jólaskapið!

1. Er líða fer að jólum, sá klassíski jólasmellur, er mitt uppáhalds jólalag. Ég tengi það strax við öll jólin sem ég átti í æsku, það hljómaði eiginlega við hvert tækifæri. Hvort sem það var í bílnum á leiðinni í jólaboð eða á meðan við vorum að bíða eftir jólamatnum á aðfangadagskvöld þá mátti oftast heyra Ragga Bjarna syngja um þá stund er líða fer að jólum. Smellið hér til að hlusta.

2. Það snjóar er einnig eitt af mínum uppáhalds. Sigurður Guðmundsson og Memfismafían tóku þetta fallega lag á plötunni þeirra, Nú stendur mikið til, en það var á jólatónleikum í Hofi fyrir nokkrum árum þar sem ég heyrði það flutt í fyrsta skipti. Þar var það Valdimar sem flutti lagið og má segja að ég hafi verið agndofa yfir því og hefur það verið í miklu uppáhaldi síðan. Smellið hér til að hlusta á Sigurð og Memfismafíuna.

3. Jólin eru okkar eftir Baggalút er að mínu mati besta nýja jólalagið. Þau Valdimar og Bríet flytja það ásamt Baggalút og er lagið, þó nýtt sé, eiginlega orðið að jólalagaklassík. Lagið er á nýju jólaplötu Baggalúts, Jólasjór, sem er hreint í gegn geggjuð til að koma þér í jólaskapið, eins og flest allar jólaplöturnar þeirra. Smellið hér til að hlusta.