Fara í efni
Mannlíf

Heims um ból en í dag er það Þorláksmessa

JÓLALAGIÐ MITT 

Valmar Väljaots organisti í Glerárkirkju og kórstjóri – þúsundþjalasmiður í tónlist

Heims um ból toppar allt. En vegna þess að það er Þorláksmessa vel ég lagið Þorláksmessa með Borgardætrum! Smellið hér til að hlusta.

Mörg jólakvöld æsku minni voru sérstök; ég var alinn við það heima í Eistlandi að hverja gjöf þurfti að leysa út með því að syngja, lesa ljóð eða jafnvel dansa. Eitt kvöldið er mér mjög minnisstætt vegna þess að þá fannst mér ég ekki fá vel borgað fyrir sönginn: ég fékk stóran pakka og þegar hann var opnaður kom í ljós að jólasveinninn hafði komið með fiðlu! Mér fannst gjöfin ein sú ómerkilegasta sem hægt var að hugsa sér; ég var fimm ára – sem sagt 50 ár síðan – og hljóðin sem gjöfin gaf frá sér voru skelfileg. Mér fannst allt við gjöfina einhvern veginn óeðlilegt!

Annað dæmi um eftirminnilegt jólakvöld er frá 1986. Ég var þá í sovéska hernum og auðvitað kom ekki til greina að halda einhvers konar kirkjulega hátíð þar á bæ! En við höfðum í laumi fengið sendar nótur af Brandenburgarkonserti númer 3 eftir Johann Sebastian Bach og þegar yfirmenn okkar voru farnir hófum við spila og fengum okkur alvöru jólamat og viðeigandi drykki. Það var mjög spennandi útgáfa af jólahaldi og tókst vel; enginn varð var við að brutum reglur hersins með þessum hætti.

Þriðja eftirminnilega jólakvöldið í lífi mínu var 2018 þegar Elín Dögg Gunnarsdóttir svaraði játandi!

Smellið hér til að heyra Heims um ból í flutningi Kristjáns Jóhannssonar og Mótettukór Hallgrímskirkju

Smellið hér til að heyra fyrsta kafla Brandenborgarkonserts númer 3 eftir JS Bach