Fara í efni
Mannlíf

Eitt jólalag fyrir hvert þroskaskeið í lífinu

JÓLALAGIÐ MITT

Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri hjá Rauða krossinum

Þegar ég fór að leiða hugann að svari við þessari spurningu þá komst ég að því að ég á eiginlega eitt jólalag fyrir ákveðin þroskaskeið í mínu lífshlaupi.

  • Ég hlakka svo til með Svölu Björgvinsdóttur vekur alltaf upp hjá mér hugljúfar minningar af barnslegri gleði í kringum jólahátíðina. Svala er örfáum árum eldri en ég og hún söng þetta lag sem ung stúlka árið 1989, þá er ég sjálf rétt 9 ára svo þetta er svona fyrsta jólalagið sem ég tengi sterklega við frá barnæsku og mér þykir það alltaf jafn fallegt. Smellið hér til að hlusta. 
  • Lagið Handa þér með Gunnari Ólasyni og Einari Ágústi tengir mig við jólahátíðina sem ung manneskja stuttu fyrir aldamótin og farin að sjá jólin sem hátíð sem ég var farin að deila með öðrum en nánustu fjölskyldunni, fyrsti vísir að fullorðinsárum. Smellið hér til að hlusta. 
  • Á fullorðinsárum verður lagið Þú og ég og jól með Svölu Björgvinsdóttur mitt allra mesta uppáhald, ég tengi það svo sterkt við árin sem ég er að stofna mín eigin fjölskyldu og að byrja að halda jól á mínu eigin heimili. Smellið hér til að hlusta. 
  • Núna síðustu árin og kannski sérstaklega þetta árið hef ég verið að hlusta á Michael Bublé, It‘s Beginning to Look a Lot Like Christmas, það er einhver angurvær blær í röddinni hans sem fær mig til að halla mér aftur í sófanum og njóta hlustunar í algjörri afslöppun. Smellið hér til að hlusta. 

Ég elska jólin, gleðina og þakklætið. Mér hefur alltaf fundist jólin töfrum líkust og fólk leggur oft svo mikið á sig við að hjálpast að. En tel líka hollt að við séum öll meðvituð um að jólahátíðin er mörgum erfið af ýmsum og ólíkum ástæðum og það er mikilvægt að bera virðingu fyrir einstaklingum og mæta þeim þar sem þeir eru staddir hverju sinni – kærleikurinn kostar ekkert.