Fara í efni
Mannlíf

Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

8. desember – Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd

Til hvers að eiga dót ef það er enginn til að leika við?

Ég var á fjórða aldursári þegar að ég ákvað fyrst að biðja jólasveininn um eitthvað annað en nammi og dót í skóinn. Þriggja ára afmælið hafði þá markað ákveðin tímamót í mínu lífi með því að bjóða mig formlega velkominn í eldri-barna-hóp. Á bæði líkama og sál fann ég muninn á því sjálfstæði og frelsi sem því fylgdi að fella út orðið smá í smábarn! Þetta barn sem ég nú var orðinn hafði öðlast bæði þroska og reynslu til þess að taka á sig hlutverk eldri bróður og kenna öðru smábarni á lífið og tilveruna. Í einfeldni minni hélt ég að jólasveinninn hlyti að hafa eitthvað að gera með það. Mamma kyssir jú jólasveininn og þannig verða börnin til ekki satt?

„Ég greip því næsta Crayon lit og blað og hófst handa við að skrifa þrettán bréf til þessara þrettán vonbiðla móður minnar.“

Líkurnar voru strax með mér þar sem einhver einhvern tímann hafði ákveðið að íslensk börn ættu skilið meira glingur og góss en önnur með því að færa okkur þrettán jólasveina á einu euro-bretti í staðinn fyrir einn eins og víða annars staðar. Þetta var eins og að fá þrettán skafmiða meðan að aðrir fá einn eða ekki neinn. Ég greip því næsta Crayon lit og blað og hófst handa við að skrifa þrettán bréf til þessara þrettán vonbiðla móður minnar. Ég kunni reyndar ekki að skrifa nema mitt heimasmíðaða stafróf. Það var bara aukaatriði í huga 3 ára sem hélt að Akureyri væri Ísland, Reykjavík útlönd og jólasveinninn almáttugur og göldróttur.

Hver á fætur öðrum komu þeir til byggða prúðbúnir og órakaðir, litlir og stórir, með gjafir, glens og háværan gleðisöng um sjálfan sig eins spaðarnir í öllum seríum af Bachelorette. Með sömu eftirvæntingu og spennu leit ég í gluggann á hverjum morgni með trú á þeim öllum en einn af öðrum reyndust þeir vonbrigði. Kannski hefði verið betra að velja gæði umfram magn í þessum jólasveinum eins og svo mörgu öðru... en það eru jólin og þá má ekki vera vanþakklátur. Flestir færðu þeir mér múmínálfa sem ég var að safna og hafði mjög gaman af því að leika mér með. Ég var hins vegar að bíða eftir litla bróður og tók því hvern álfinn á fætur öðrum og sett beint ofan í töskuna sem ég var með tilbúna fyrir fæðingardeildina.

„Það sem ég öfundaði þennan 5 ára í laginu með Bjartmari sem fékk súrmjólk í hádeginu og cheerios á kvöldin.“

Smám saman fylltist taskan af nýju dóti sem ég neitaði að leika mér með fyrr en ég hefði lítinn bróður til að leika við. Hver dagur leið og ekkert gerðist nema maginn á mömmu stækkaði og pabbi sá oftar um kvöldmatinn. Pabbi minn er mjög flinkur í sínu fagi og fagmaður fram í fingurgóma. Hæfileikar hans í eldhúsinu takmarkast þó við það eitt að kunna að sjóða vatn. Það var því tvennt á matseðlinum: pylsur eða bjúgu, sem vart þarf að taka fram að ég get hvorugt borðað í dag. Það sem ég öfundaði þennan 5 ára í laginu með Bjartmari sem fékk súrmjólk í hádeginu og cheerios á kvöldin. Sá hefði ekki kvartað yfir því í samanburði við pylsur og bjúgu til skiptis marga daga í röð.

Á endanum fékk ég nóg og ákvað að taka málin í mínar eigin hendur. Ég bjó til horn og setti á mig eins og ég væri hreindýr. Planið var að fara til jólasveinanna, slást í för með hreindýrunum og hjálpa þeim að koma þessum litla bróður til mín fyrir jól! Mamma benti mér þá góðfúslega á þá staðreynd að ég ætti þá á hættu að fara á mis við litla bróður og missa af jólunum. Ég hætti því við þessa áætlun mína, kláraði bjúgun af disknum til þess eins og bíða eftir pylsunum daginn eftir. Ekki veit ég hvernig Bjúgnakrækir fer að þessu ár eftir ár.

„Settur dagur var löngu liðinn og ég var farinn að átta mig á því að litlir bræður væru settir í þennan heim til þess að gera eldri systkinum sínum lífið leitt.“

Jólin komu með pakkaflóði og fleiri pylsupökkum. Allar gjafirnar fóru beint úr jólapappírnum í töskuna góðu sem beið eins og ég eftir jólabarninu. Til hvers að eignast allt þetta dót ef það er enginn til að leika við? Jólin liðu og áramótin komu. Settur dagur var löngu liðinn og ég var farinn að átta mig á því að litlir bræður væru settir í þennan heim til þess að gera eldri systkinum sínum lífið leitt. Minn var ekki kominn í heiminn og var strax farinn að standa sig skrambi vel í því hlutverki.

Með nýju ári kom loks í heiminn lítill bróðir. Þarna komu jólin loksins fyrir mér! Ég rauk til og raðaði öllu dótinu mínu á sófann heima til þess að taka á móti honum. Það sem ég var spenntur fyrir að hitta hann, sýna honum allt nýja dótið mitt og leika við hann. Fljótt komst ég þó að því að lítil nýfædd smábörn væru ekki mikið fyrir að leika sér. Mamma og pabbi voru víst búin að segja mér það oft en ég ákvað að hlusta ekki á það frekar en aðra foreldraþvælu á borð við kuldabola, garnaflækjur, grettur sem festast og kassaaugu við sjónvarpsáhorf.

„Með litla bróður í fanginu fann ég að jólin snúast um meira en pakkaleiki, plastdót og purusteikurprump.“

Þótt þetta litla jólabarn, sem frekar vildi vera nýársbarn, væri ekki tilbúið að leika sér strax þá var það ekki aðal málið í mínum huga. Biðin eftir því hafði kennt mér þolinmæði og að góðir hlutir gerast oft hægt. Með litla bróður í fanginu fann ég að jólin snúast um meira en pakkaleiki, plastdót og purusteikurprump. Allt nýja dótið mátti bara alveg bíða. Samveran með litla bróður var allt sem ég óskaði mér og allt sem ég vildi. Allir jólasveinar heimsins gætu ekki fært mér það sem ég var nú með í höndunum. Jólin eru nefnilega ekki eitthvað sem maður kaupir, borðar eða neytir. Þau koma ekkert með jólasnjónum, bókaflóðinu eða þegar að klukkan slær 6. Þau koma í huga okkar þegar að við tökum á móti þeim í faðmi þeirra sem okkur þykir vænt um.

Jæja þá byrjar litli bróðir að gráta... fínt að mér þykir líka vænt um sjálfan mig. Ég fer þá bara inn í herbergi að leika með nýja dótið á meðan.