Fara í efni
Mannlíf

Jólahjólin eru okkar, segir Sigríður Huld

JÓLALAGIÐ MITT

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri

Það eru jólin 1987 og vinsælasta jólalagið Jólahjól nýkomið út, ég var þá farin að búa í því fornfræga húsi Villa Nova á Króknum. Það var oft gestkvæmt í Villunni, mikið hlustað á tónlist og oftar en ekki sungið með enda söngelskur vinahópurinn. Einhvern vegin reikar hugurinn inn í stofuna í Villunni þegar ég heyri lagið Jólahjól, litla krúttlega sjónvarpið (sem þá var alveg glænýtt og þótti bara nokkuð stórt) úti í einu horninu og á skjánum er Stebbi Hilmars og Sniglabandið að flytja lagið Jólahjól. Líklega hef ég verið að undirbúa mig undir það að taka á móti gestum fyrir eitthvert djammið, tilbúin með ferðaglösin. Uppi á vegg er gítar sem bróðir minn átti og er skreyttur með jólaskrauti. Í gegnum tíðina er ég mikið búin að hlusta á þetta jólalag og finnst það alltaf skemmtilegt. Best er að hlusta á lagið og horfa á myndbandið í leiðinni.

Smellið hér til að hlusta og horfa.

Annað uppáhalds jólalag sem líka tilheyrir unglingsárunum er lagið sem ég ætla ekki að nefna af tillitssemi við þá sem reyna að forðast að heyra það lag í desember. Það lag kom út árið 1984 og þá var sjónvarpsþátturinn Skonrokk nánast eini þátturinn þar sem hægt var að horfa á tónlistarmyndbönd. Það lag var tekið upp á videoið og dreymin horft aftur og aftur á þá Wham félaga leika sér í snjónum og halda upp á jólin með vinum og kærustum, gömlum og nýjum. Herðapúðar og hársprey, stórar hálsfestir og nælur allt svo 1980 og eitthvað.

En svona til að vera ekki bara í fortíðarþránni þá verð ég að lokum að nefna eitthvað nýlegt og fallegt jólalag og fyrir valinu er lagið Jólin eru okkar í flutningi Bríetar og Valdemars ásamt Bagglút sem eru snillingar í jólalögum. Smellið hér til að hlusta.

Gleðilega jólahátíð og njótið tónlistarinnar á aðventunni og yfir hátíðarnar.