Fara í efni
Mannlíf

Pálmi Óskarsson læknir

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

12. desember – Pálmi Óskarsson

Jól á Dalvík í veröld sem var

Jólin urðu áþreifanleg á Dalvík æsku minnar þegar jólasveinninn kom í austurgluggann á kaupfélaginu. Blessaður karlinn stóð þar vaktina ár eftir ár og kinkaði kolli án afláts. Stóreflis stjarna var sett upp á kaupfélagið og lýsti alla aðventuna. Þá voru jólin komin í seilingarfjarlægð. Svo komu jólasveinar og sungu lög á kaupfélagssvölunum. Þeir voru oft einkennilega kunnuglegir.

Annars á ég mömmu mest að þakka að aðventa og jól eru sveipuð notalegum vellíðunarljóma í minningunni.

Enginn skór – bara strengur!

Ég fékk aldrei í skóinn. Ég fékk á strenginn. Strengurinn var krosssaumslengja með dagatali sem móðir mín hengdi á vegginn í herberginu mínu að kvöldi þrítugasta nóvember. Við hvern dag var plasthringur sem eitt stykki sælgæti hékk á að morgni frá og með fyrsta desember. Síríuslengja, Rjómatoffee, Bananastöng, Staur, Hraun, Ópalpakki eða Rommí. Annars á ég mömmu mest að þakka að aðventa og jól eru sveipuð notalegum vellíðunarljóma í minningunni. Hún hafði veg og vanda af jólaundirbúningi í Svarfaðarbraut 11. Föt saumaði hún á okkur bræður fyrir jólin. Því næst var allt þrifið í hólf og gólf, skápar og loft skinu og ilmuðu, vandlega Ajax- og salmíökuð; átján smákökusortir söfnuðust í dunka, lagkökur og rúllutertur, perutertur, smurbrauðstertur, sherrytertur.

Mér þótti þeir feðgar heldur seinvirkir og skar einföld mynstur með laufabrauðshjóli svo við yrðum ekki að þessu fram á haust.

Laufabrauð var skorið og steikt fyrstu eða aðra helgina í desember. Deigið var lengst af fengið hjá Rikka bakara. Mamma og amma fóðruðu svo vöðvabólguna með því að fletja út ein 250 stykki. Pabbi og afi handskáru og gaumgæfðu kvurt hnífsbragð. Þeir höfðu höndlað þann mikla sannleik: It´s the journey, not the destination. Mér þótti þeir feðgar heldur seinvirkir og skar einföld mynstur með laufabrauðshjóli svo við yrðum ekki að þessu fram á haust. Seinna lærðist mér handskurður og hugarró. 

Jólaölið sótt í hátíðlegum leiðangri

Jólaöl var ómissandi og alltaf sótt í Sana-útibúið á Dalvík. Það var raunar á heimili Jóhanns Tryggva og Höddu í Ásveginum. Þetta renndum við feðgar (um það bil 20 sekúndna akstur úr Svarfaðarbraut 11) og var hátíðablær yfir, ekki síst vegna þess að fátítt var að faðir minn gerði annað en að smíða fyrir bæjarbúa og slíkar samverustundir því dýrmætar.

Aldrei var skreytt fyrr en tveim dögum fyrir jól. Þá var maður nánast kominn með harðlífi af jólaspenningi.

Seríur voru settar í glugga að kveldi tuttugasta og annars. Þar var faðir minn, smiðurinn sem klýfur millimetrann í fjóra parta, með fullkomna yfirsýn. Ekki skyldi flanað að neinu. Sama formið, sama sería, sami gluggi. Hjarta, tígull, ferningur; hallamál og tommustokkur. Jólatréð fór upp á Þollák og hengdar á það kúlurnar. Við bræður fengum að raða jólagjöfunum í kringum tréð á aðfangadag. Eru það einu skiptin sem ég hef haft verkstjórn yfir Degi bróður mínum.

Séra Stefán Snævarr þótti mér halda afskaplega langar ræður.
Arftaki hans, séra Jón Helgi, var sneggri að rusla guðsorðinu af.

Alltaf var farið í kirkju á aðfangadag þótt annars væri ekki farið nema ferma þyrfti eða skíra. Að vísu sungu foreldrar mínir lengi vel í kirkjukórnum hjá Gesti Hjörleifs og mættu því oftar. Gestur kom á Willys, A 2702, og brúkaði ökuhanska. Ég kom mér fyrir hjá pabba og körlunum í bassanum; þar lærði ég bassaröddina í jólasálmunum. Og að meta samhljóm raddanna. Séra Stefán Snævarr þótti mér halda afskaplega langar ræður. Arftaki hans, séra Jón Helgi, var sneggri að rusla guðsorðinu af. Afi sagði líka að hann væri verkhygginn og jarðarfarirnar væru snyrtilegar hjá honum.

Í minningunni voru jólalög aldrei leikin fyrir fyrsta desember, hvorki í útvarpi né af hljómplötum heima fyrir. Jólaföndrið í Dalvíkurskóla kom manni í fyrirtaks jólagír. Þar hljómuðu jólasöngvar af snældum einn laugardag á meðan maður draslaði saman einhverri ólögulegri jólahrúgu úr filti, pípuhreinsurum og glimmer, vopnaður skærum og límstifti.

Þá loka ég augunum og er staddur í litlu stofunni hjá afa og ömmu, í stólnum með skammelinu, rökkvað inni sem úti en jólaljós í glugga.

Lítil stemning var fyrir hátíðlegum jólalögum á mínu æskuheimili; það var Gáttaþefur sem gægðist fyrstur inn í barnssálina, svo Jólastjörnur Gunnars Þórðarsonar og auðvitað Ellý og Vilhjálmur. Amma átti safnplötu sem ég skellti gjarnan á fóninn. Þar var Eddukórinn. Það er einhver sérkennilega þung og góð nostalgísk stemning yfir þessum kór þótt hljómurinn sé grófur og svolítið vanti upp á jafnvægi milli radda. Og enn í dag finn ég mér stað og stund í einrúmi rétt fyrir jól og spila Á jólunum er gleði og gaman. Þá loka ég augunum og er staddur í litlu stofunni hjá afa og ömmu, í stólnum með skammelinu, rökkvað inni sem úti en jólaljós í glugga.

Í dag er glatt var uppáhalds jólalag afa. Hann var held ég vita laglaus sjálfur, og aldrei heyrði ég hann syngja, en einhvern jólastreng snerti Mozart í honum. Þetta fallega lag er eitthvað svo dapurlegt en textinn einn allsherjar rífandi fagnaðarboðskapur. Sennilega er þetta þó á sinn hátt lýsandi fyrir lúterskt helgihald: Mikill fögnuður boðaður með hálfgerðum hundshaus.

Kirkjukórinn tók alltaf kúnstpásu á eftir mannkind og sleit þar með setninguna sundur. Og meinvillin...mér stóð alltaf stuggur af henni, hún lá í myrkrunum og át börn.

Aldrei tókst mér að átta mig á því hvers vegna sólin var songuð í Heims um ból. Ég gat bekennt að mærin væri signuð, en songuð sól?? Setningin „frumglæði ljóssins en gjörvöll mannkind“ er líka fullkomlega óskiljanleg þegar punktur er settur aftan við hana, eins og ég gerði alltaf. Enda ekki skrítið: Kirkjukórinn tók alltaf kúnstpásu á eftir mannkind og sleit þar með setninguna sundur. Og meinvillin... mér stóð alltaf stuggur af henni, hún lá í myrkrunum og át börn.

Jólamaturinn

Ég er alinn upp við reykt svín á aðfangadag. Svínakambur, bayonneskinka, hamborgarhryggur. Pabbi skaut eitt sinn hálfa rjúpu þegar prófa átti villtara mataræði. Hún dugði skammt, og þau jól urðu jafn reykt og fyrri jól. Í hádeginu á jóladag var arkað til afa og ömmu, rétt eftir að maður opnaði augun, svínakets- og konfektþrútinn. Þar var jólahangiketið snætt. Svo liðu jólin í vellystingum og áhyggjuleysi þess sem ekki þarf að mæta í skólann fyrr en eftir áramót. Jólaböll fyrir krakka voru haldin í Víkurröst. Þau sótti ég illa, hafði enda meiri ánægju af því að lesa í einrúmi og éta smákökur.

Maður skalf af leiðindum yfir fréttaannálum á gamlárskvöld, bíðandi eftir Sirkus Billy Smart og skaupinu. Nú er Billy Smart löngu dauður, og öll dýrin líka af illri meðferð og trúðarnir úr sorg. Engar prúðbúnar þulur á skjánum með logandi jólakerti. Og fréttaannállinn það skemmtilegasta í dagskránni …

Ártalið í fjallinu var ómissandi. Það var brilliant framtak og mikill sjónarsviptir að því.

Flugeldum var svo fýrað upp í kringum miðnættið; heldur var það hófsamara en nú. Ártalið í fjallinu var ómissandi. Það var brilliant framtak og mikill sjónarsviptir að því.

Eftir nýársdag hrökk mannlífið í sitt gamla horf, fólk skrapp í kaupfélagið, það var soðin ýsa og skyr og brauð á virkum dögum, lifur og gota á útmánuðum, það hríðaði, fraus og hlánaði og svo voraði og allt kom í ljós; sumarið með fótbolta í hafgolu og taktföstum, klingjandi skellum fánalínanna við flaggstangirnar. Og svo haustaði og skólaði og aftur nálguðust jólin ...