Fara í efni
Mannlíf

Munaði sentimetrum að ég steindræpist

Um það til 10 klukkustundum eftir slysið var Orri settur í spelku og látinn standa á fætur þótt hann…
Um það til 10 klukkustundum eftir slysið var Orri settur í spelku og látinn standa á fætur þótt hann væri þríhryggbrotinn. Miklu máli skipti að láta strax reyna á skrokkinn eins og hægt væri.

Orri Hjaltalín, fyrrverandi knattspyrnukappi í Þór, sem var ráðinn þjálfari karlaliðs félagsins í gær, var stálheppinn að sleppa lifandi þegar hann lenti í mjög alvarlegu vinnuslysi í Hafnarfjarðarhöfn á síðasta ári. Mörg hundruð kílóa hlass féll ofan á Orra þar sem hann var að störfum niðri í lest í togara. „Hefði ég staðið 10 sentimetrum framar eða til hægri hefði ég steindrepist,“ segir hann. Það sé ísköld staðreynd.

Orri hefur ekki rætt opinberlega um slysið fyrr en núna.

Hann hefur starfað hjá löndunarfyrirtæki í Grindavík en tók að sér að hlaupa undir bagga með öðru slíku í Hafnarfirði þennan örlagaríka dag, 18. júlí 2019. Segir menn einstaka sinnum fengna lánaða milli fyrirtækja þegar þörf krefur. Að þessu sinni var hann að störfum í stórum grænlenskum togara. „Heima í Grindavík erum við vanir að vera með lausa kassa sem við stöflum sjálfir á bretti í lestinni en þarna var allt tilbúið á brettum sem við húkkuðum á krana og hann hífði þau upp,“ sagði Orri þegar blaðamaður ræddi við hann á dögunum.

Verkinu var um það bil að ljúka þegar ógæfan dundi yfir. Hann segir ekki nógu vel hafa verið raðað á brettin, að þeirra mati, en ekki hafi gengið að laga það. „Það var síðasta brettið sem hrundi ofan á mig – 850 til 900 kíló af fiski. Allt brettið var vandlega plastað svo ekki einn kassi datt af því. Ég fékk allan þungann ofan á mig.“

Staðan á Orra Frey var ekki glæsileg eftir slysið

  • Hann var þríhryggbrotinn
  • Sjö rifbein brotnuðu
  • Lunga féll saman
  • Innvortis blæðingar voru miklar

Orri var mikið marinn eftir slysið eins og sjá má. Á myndinni til hægri er hann á gjörgæslu fljótlega eftir komuna á sjúkrahús.

Orri var með meðvitund allan tímann og man vel eftir því sem gerðist. „Brettið var í svona tveggja og hálfs meters hæð þegar það hrundi niður, ég setti hausinn ósjálfrátt ofan í bringu en vantaði sennilega tvö skref til að komast alveg undan hlassinu, sem lenti á mér og svo á lyftaranum. Ég var heppinn að þetta datt ekki beint niður í hausinn á mér, aðal þunginn kom á hnakkann og hægri öxlina, en höfuðið og öxlin sluppu þó ótrúlega vel. Ég var auðvitað með hjálm, sem skipti sköpum, og í góðum hlífðarfatnaði.“

Hann gat sig hvergi hreyft, sem var eins gott. „Tveir aðrir voru í lestinni og í minningunni tók það þá ekki nema nokkrar sekúndur að losa plastið utan af kössunum og henda þeim ofan mér.“

Tveggja tíma bið í 30-40 stiga frosti

Ekki vildi betur til en svo að lyftaramanninum brá svo mikið við óhappið að hann braut stýrispinnann, þannig að lyftarinn varð ónothæfur. „Því var ekki hægt að hífa mig upp og mikil rekistefna varð í lestinni um hvernig ætti að fara að. Í lestinni var á milli 30 og 40 stiga frost og ég lá þar í tvo klukkutíma.“

Drjúga stund tók fyrir sjúkraflutningamenn að komast niður í lest vegna aðstæðna þar og þegar niður kom áttuðu menn sig á því að spelka, sem nota þarf þegar um áverka á hrygg er að ræða, var ekki við hendina. „Þegar því hafði verið reddað var hafist handa við að pakka mér saman og koma hryggjarspelkunni fyrir til að tryggja að ég myndi ekki haggast. Þá var ég settur í öryggisgrind, sem þeir náðu að skjáskjóta framhjá lyftaranum og upp en vesenið var ekki búið: Þegar ég var hífður upp bilaði kraninn þannig að ekki var hægt að stýra honum að bryggjunni. Þá hékk ég þar uppi í kortér, áður en tókst að koma mér niður.

Eftir á að hyggja er þetta dálítið spaugilegt!“

Fann að rifbeinin voru í maski

„Þrátt fyrir allt var ég mjög undrandi yfir því hve vel ég virtist hafa sloppið og velti því ekki fyrir mér hvort ég myndi deyja. Fannst ég furðu góður; gat hreyft fingur og tær, en áttaði mig ekkert á því að ég væri þrí hryggbotinn. Ég hefði getað lamast hefði ég reynt að hreyfa mig en var sem betur fastur þar sem ég lá í lestinni.

Ég dofnaði strax upp og það tókst að verkjastilla mig um borð í skipinu, en eftir að ég kom í sjúkrabílinn var lengi verið að koma í mig hita. Vegna þess hve ég var kaldur fannst ekki æð til að gefa mér lyf fyrr en eftir 45 mínútur.“

Orri segist strax hafa áttað sig á því að eitthvað alvarlegt var að. „Ég hafði sjö sinnum lent í því að lunga féll saman og þekkti því tilfinninguna. Þar sem ég lá kjurr stakk ég hendinni inn á mig og fann strax að rifbeinin voru í maski; það var ekki skemmtileg tilfinning. Ég reyndi að slaka á og hafa þannig stjórn á önduninni. Ég hef lært það vegna vandræðanna með lungun í gegnum tíðina að ef ég anda of hratt getur liðið yfir mann.“

Orri fór ekki í aðgerð vegna hryggbrotsins. „Mér skilst að það hafi verið alveg á mörkunum að ég yrði spengdur en ekki var talin hætta á að brotin færu í mænuna og fyrst ég var tiltölulega ungur og í góðu formi ákváðu læknarnir að láta á það reyna að brotin myndu gróa rétt af sjálfu sér. Það hefur gengið eftir og allt virðist á réttri leið. Það spilaði líka inn í ákvörðun læknanna að ef maður er spengdur er talið öruggt að maður missi að minnsta kosti 15% af hreyfigetu en ef brot er látið gróa á náttúrlegan hátt getur maður náð 95% af hreyfigetunni aftur, jafnvel 100%.“

Oftast fara menn í aðgerð vegna samfallins lunga en þar sem Orri hafði jafn mikla sögu af þeim ófögnuði og raun ber vitni var ákveðið að aðhafast ekki og láta lungað lagast af sjálfu sér. „Lungað féll sex sinnum saman á einu og hálfu ári þegar ég var tvítugur eða 21, ég var hávaxinn og grannur, þá eru lungun víst há og mjó og þetta getur gerst. Ég fór í stóra aðgerð vegna þessa rúmlega tvítugur og hafði ekki lent í þessu síðan.“

Sjö strákar úr 6. flokki Þórs 1990 náðu langt á íþróttasviðinu. Þeir eru þarna með uppskeru sumarsins ásamt þjálfurunum Jónasi Róbertssyni og Gísla Bjarnasyni. Orri er neðst til hægri, grænn hringur er dreginn um höfuð Jóhanns Þórhallssonar, blár um Jónatan Magnússon, handboltakappa úr KA, gulur er Kristján Sigurðsson atvinnu- og landsliðsmaður, bleikur Hörður Rúnarsson, appelsínugulur Andri Hjörvar Albertsson og svartur Þórður Halldórsson.

Fjölskyldan ári fyrir slysið: Þórunn Erlingsdóttir, Ragnheiður Tinna, Óskar Örn, Orri og Arnór Ingi.

Heima er best

„Ég var dreginn á fætur strax seinna sama dag og slysið varð, 10 tímum eftir að ég kom á sjúkrahúsið ef ég man rétt. Var þá settur í spelkur og látinn ganga. Það var gert þrisvar eða fjórum sinnum á dag fyrstu dagana, ég var með svo miklar innvortis blæðingar að þeir voru hræddir um að ég fengi blóðtappa, þess vegna var mikilvægt að hreyfa sig til þess að halda blóðrásinni almennilega gangandi.“

Orri var á sjúkrahúsi í 11 daga eftir slysið, „fékk þá að fara heim í helgarleyfi og langaði ekkert aftur á spítalann! Látið var á það reyna að ég yrði þar, ég fékk rafmagnsrúm að gjöf frá vinum sem gerði mér kleift að reisa við mig sjálfur og það gerði allt einfaldara og auðveldara.“

Heima er best, eins og þar stendur. Eiginkona Orra er Þórunn Erlingsdóttir úr Skagafirði og eiga þau þrjú börn; elst er Ragnheiður Tinna 12 ára, þá Óskar Örn 9 ára og Arnór Ingi er 4 ára.

Mælt er með því, segir Orri, að menn hreyfi sig eins mikið og þeir mögulega geti, eins fljótt og nokkur kostur er. „Strax fyrsta daginn og ég kom heim byrjaði ég ganga í stofunni og gat það án stuðnings. Mér gekk mjög vel fyrstu dagana, algengt er að menn séu „útskrifaðir“ eftir 100 daga, eftir að hafa lent í slysi sem þessu, en ég slapp með 70 daga.“

„Verkjastillti mig úr fjarlægð!“

Orri segir lækna varla trúa því hve hratt hann hafi náð sér. „Ég er kominn ótrúlega langt í bataferlinu, er sagður langt á undan áætlun. Kannski er það vegna þess hve þrjóskur ég er, mér er sagt að ég hafi bara einn gír – fulla ferð áfram! Það hefur líka án efa hjálpað mér að vera með bakgrunn úr íþróttum.

Þegar ég gerði mér ljóst að ég ætti möguleika á að ná mér hlakkaði ég strax til þess að hefja endurhæfinguna, leit á það sem verkefni til þess að koma mér aftur í gang og var strax svakalega duglegur. Ég hreyfi mig flesta daga, lyfti, hleyp og spila golf. Ég þarf að ögra sjálfum mér til þess að fá hreyfingu í hrygginn og fer alveg að sársaukamörkum.“

Orri nefnir líka ákveðin trix sem hann telur hafa hjálpað sér gríðarlega mikið. „Ómar Guðmundsson, vinur minn sem býr í Hrísey, hefur til dæmis skipt miklu máli, því hann verkjastillti mig úr fjarlægð! Ég er ekki að grínast með það. Ég fékk níu sprautur af morfíni í bakið annan hvern dag fyrst eftir slysið, en eftir að hafði talið við Ómar þrjá daga í röð hætti ég á sprautunum. Ég veit ekki hvernig hann fer að þessu, en það virkar!“

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Orri segist hafa notið góðs af aðstoð Ómars. „Eftir að ég sneri mig illa á ökkla þegar ég var 15 ára lagði Ómar hendurnar utan um ökklann í 10 til 15 mínútur. Hann kom samt aldrei við mig, en ekki fór á milli mála að ég var með fingraför á ökklanum! Ég trúi því að hann hafi fært bólguna því ég varð mjög fljótt svartur á tánum og gat farið að hlaupa fljótlega.“

Erfiðar hugsanir

Orri losnaði við bakspelkuna 1. október í fyrra, hóf að kenna í forföllum við Grunnskóla Grindavíkur daginn eftir og byrjaði aftur að vinna við löndun 1. janúar – „reyndar í gjörbreyttu hlutverki.“

Orri, sem varð fertugur 1. júlí í sumar, lék knattspyrnu um langt árabil, með Þór, Grindavík og Magna. Á til dæmis að baki 165 (14 mörk) í efstu deild Íslandsmótsins og 123 (30 mörk) í þeirri næst efstu. Hann var enn að þegar hann slasaðist; lék með liði GG í 4. deildinni. „Mér fannst súrt að vera látinn hætta, ég hefði verið til í að spila lengur og hætt svo á mínum forsendum.“

Honum líður vel þrátt fyrir allt en slysið rifjast upp með reglulegu millibili, og skyldi engan undra. „Já, ég fer reglulega ofan í lest í huganum og velti því fyrir mér að mun verr hefði getað farið. Ég verð að viðurkenna að það eru oft erfiðar hugsanir.“