Fara í efni
Mannlíf

KA/Þór vann góðan sigur á Stjörnunni

Leikmenn KA/Þórs höfðu ástæðu til að fagna eftir að hafa landað góðum sigri á Stjörnunni. Mynd: Facebook-síða KA.

KA/Þór vann afar mikilvægan sigur gegn Stjörnunni í 15. umferð Olísdeildar kvenna í KA-heimilinu í kvöld. Lokatölur urðu 29:26 og jók liðið þar með forskotið á Stjörnuna í stöðutöflunni.

Nokkurt jafnræði var með liðunum fyrri hluta fyrri hálfleiks en um hann miðjan náði KA/Þór í fyrsta sinn þriggja marka forskoti, síðan fjögurra marka forskoti, 12:8, en Stjarnan lagði ekki árar í bát. Þær skoruðu 4 mörk á 4 mínútum og allt orðið jafnt á ný. En KA/Þór lagði heldur ekki árar í bát og sigldu þess í stað fram úr á nýjan leik. Munurinn í leikhléi var þrjú mörk 16:13 og það var ekki síst að þakka góðri markvörslu Bernadett Leiner, auk þess sem Susanne Denise Pettersen skoraði 6 mörk úr 6 skotum í hálfleiknum.

Stjörnustelpur komu frískar út á völlinn eftir hléið og það tók ekki nema 5 mínútur fyrir þær að vinna upp forskot heimaliðsins. En í stöðunni 19:19 kom góður kafli hjá KA/Þór og þær náðu fimm marka forystu, 25:20. Þá var seinni hálfleikur hálfnaður, þennan mun náði Stjarnan aldrei að vinna upp og lokatölur urðu 29:26 sigur KA/Þórs.

Bernadett með góðan leik í markinu

Líkt og í síðasta leik gegn Fram átti Bernadett Leiner góðan leik í markinu í fjarveru Mateju Lonac og var með 33% markvörslu. Susanne Denise var markahæst og átti feykigóðan leik í vörninni og þær Trude og Anna Þyrí voru með 100% skotnýtingu.

Núna þarf KA/Þór ekki að hafa áhyggjur af því að sogast niður í einhverja fallbaráttu heldur geta þær einbeitt sér að því að reyna að klifra upp töfluna. Liðið er enn í 6. sæti en það er ekki langt í liðin fyrir ofan. Næsti leikur liðsins er enn einn heimaleikurinn, þegar ÍBV kemur í heimsókn þann 7. febrúar.

Mörk KA/Þórs: Susanne Denise Pettersen 7, Trude Blestrud Hakonsen 6, Anna Þyrí Halldórsdóttir 5, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 3, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 3 (3 víti), Kristín A Jóhannsdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1.

Varin skot: Bernadett Leiner 13.

Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 7 (4 víti), Natasja Hammer 5, Sara Katrín Gunnarsdóttir 4, Inga Maria Roysdottir 2, Þóra Hrafnkelsdóttir 2, Hanna Guðrún Hauksdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2.

Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 3 (1 víti), Margrét Einarsdóttir 2.

Staðan í Olísdeild kvenna

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz