Fara í efni
Mannlíf

Röð af klúðrum og klaufalegt tap Þórsara

Myndir úr heimaleik Þórs gegn Snæfelli fyrir stuttu. Þórsarar misstu sigurinn úr höndum sér á lokakaflanum gegn Haukum í gær, eins og í næsta heimaleik þar á undan, gegn Snæfelli. Páll Nóel Hjálmarsson var nálægt því að knýja fram framlengingu með þrigga stiga skoti á lokaandartaki leiksins. Smári Jónsson átti átta stoðsendingar í leiknum. Myndir: Guðjón Andri Gylfason.

Allt er gott sem endar vel, segir máltækið, en það á þó ekki við um körfuboltaleik Þórs og Hauka sem fram fór í Íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöld. Eftir slaka byrjun unnu Þórsarar upp forskot Hauka, komu síðan sterkir inn í seinni hálfleikinn og leiddu með tíu stigum um miðjan lokafjórðunginn, en þá kom klúður á klúður ofan og niðurstaðan þriggja stiga tap, 79-82. Annan heimaleikinn í röð missa Þórsarar frá sér þokkalegt forskot og tapa naumlega á lokamínútunni.

Byrjun leiksins var fremur slök hjá Þórsurum og fyrstu mínúturnar bentu ekki beinlínis til að úr yrði spennandi leikur. En þeir gáfust þó auðvitað ekki upp þó Haukar hefðu náð 13 stiga forskoti seint í fyrsta leikhlutanum. Munurinn níu stig þegar honum lauk. Þórsarar minnkuðu þennan mun, unnu annan leikhlutann með fimm stiga mun og staðan eftir fyrri hálfleikinn 42-46.

Þórsarar mættu svo öflugir og grimmir til leiks í seinni hálfleiknum, voru ágengir í vörninni og hittu nokkrum mikilvægum þriggja stiga skotum á góðum kafla í þriðja leikhlutanum, unnu hann með 13 stiga mun og leiddu 65-56 fyrir lokafjórðunginn. Þeir héldu forystunni frá því snemma í þriðja leikhlutanum og fram á lokasekúndurnar. 

Haukar náðu að saxa smátt og smátt á forskotið síðustu 4-5 mínúturnar. Þegar 2 mínútur og 22 sekúndur voru eftir var dæmd villa á Þór, og tæknivilla á bekkinn. Það var þriðja tæknivilla liðsins, þar af önnur í fjórða leikhlutanum. Þjálfarinn var sendur úr húsi.

Haukum óx ásmegin á meðan Þórsarar klúðruðu og loks þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum komust Haukar yfir, 79-80. Þórsarar tóku leikhlé og skipulögðu lokakörfuna, en töpuðu boltanum klaufalega. Brotið var á leikmanni Hauka í næstu sókn, Haukar fengu svo tvö vítaskot sem nýttust og þeir með þriggja stiga forskot. Aftur tóku Þórsarar leikhlé og undirbjuggu að knýja fram framlengingu með þristi, misstu aftur boltann, en fengu innkast þegar 1,7 sekúndur voru eftir. Minnstu munaði að þeim tækist að jafna því Páll Nóel Hjálmarsson náði þriggja stiga skoti sem var ekki langt frá því að fara ofan í. 

Fjórir úr liði Þórs spiluðu með fjórar villur á lokamínútunum og ef til vill hafði það einhver áhrif á varnarleikinn á þeim kafla. Það er auðvelt að sitja utan við völlinn og benda á mistök sem kosta sigur, bæði hjá dómurum og leikmönnum. Skot sem geigaði, bolti sem tapaðist, óvarleg viðbrögð við dómum, viðkvæmni dómara í hita leiksins, atvik sem einum finnst vera brot en öðrum ekki, og svo framvegis. Eitthvað af þessu eða kannski allt átti þátt í því að það voru gestirnir, Haukar úr Hafnarfirði, sem fóru heim með sigurinn í viðureign sinni við Þórsara. 

Þór - Haukar (14-23) (28-23) 42-46 (23-10) (14-26) 79-82

Þórsarar eru enn rétt ofan við fallsæti deildarinnar, hafa unnið þrjá leiki af 16, en Fylkir og Hamar koma á hæla þeirra, bæði lið með tvo sigra. Fylkir var á botninum með einn sigur, en vann Skallagrím með eins stigs mun í gærkvöld. Hamar á leik til góða. Nú eru aðeins sex umferðir eftir og má ekki mikið út af bregða hjá Þórsliðinu til að illa fari. Þeir eiga eftir að mæta Hetti, Skallagrími, Fjölni og svo tveimur neðstu liðunum, Hamri og Fylki, áður en þeir mæta Selfyssingum í lokaumferðinni.

Helstu tölur hjá Þórsliðinu, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Christian Caldwell 17/9/5 
  • Paco Del Aquilla 15/11/0 - 25 framlagspunktar
  • Páll Nóel Hjálmarsson 12/2/0
  • Axel Arnarsson 11/3/2
  • Smári Jónsson 9/3/8
  • Hákon Hilmir Arnarsson 7/1/0
  • Týr Óskar Pratiksson 4/1/2
  • Finnbogi Páll Benónýsson 4/0/0 

Tölfræði leiksins.

Staðan í deildinni.