Fara í efni
Mannlíf

Mikið jólabarn og legg ríka áherslu á hefðir

JÓLALAGIÐ MITT

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri

Mín uppáhalds jólalög eru mörg. Ég er eiginlega löngu farin að hlusta enda mikið jólabarn og legg miklar áherslur á ríkar hefðir í kringum mitt jólahald. Lögin mín tengjast ljúfum minningum frá því er ég var stelpa í Stykkishólmi.

1. Driving Home for Christmas. Þetta tengist minningunni að aka heim í Hólm með fjölskyldunni til að halda jól en foreldrar mínir héldu tvö heimili, í Reykjavík og Stykkishólmi. Venjulega var farið um leið og þingstörfum og prófum okkar systkinanna lauk. Það gat verið á Þorláksmessu og þá átti eftir að rigga upp jólum í Stykkishólmi. Að aka í vetrarsólinni vestur og sjá Snæfellsjökulinn ber við loft er einstök sýn og þetta lag kallar fram þá minningu. Smellið hér til að hlusta á lagið.

2. Það aldin út er sprungið er alltaf sungið á aðfangadagskvöld í Stykkishólmskirkju. Það er minn uppáhalds jólasálmur og ekki verra að ljóðið er eftir Matthías Jochumson. Reyni meira að segja að spila hann sjálf á píanó á aðventunni. Smellið hér til að hlusta.

3. Jólaóratóríu Bach spila ég alltaf á aðfangadag og helst mjög hátt. Píni heimilisfólk til þess að hlusta á þessa stórkostlegu fegurð um leið og ég brúna kartöflurnar. Ég hvet ykkur til að hlusta í það minnsta á fyrsta kaflann. Smellið hér til að hlusta.
_ _ _

  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri er fyrst til að segja lesendum Akureyri.net frá uppáhalds jólalaginu sínu – uppáhalds lögum, í hennar tilfelli. Þannig verður jóladagatalið að þessu sinni; einn Akureyringur mun segja frá uppáhalds jólalaginu sínu á hverjum degi þar til hátíðin gengur í garð.
  • Á síðasta ári taldi Akureyri.net niður til jóla í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri og vakti það mikla lukku – hér má sjá það sem birtist 1. desember í fyrra. Lesendur hafa vonandi gaman af því að lesa um uppáhalds jólalögin.