Fara í efni
Mannlíf

Michael Jón Clarke tónlistarmaður

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

3. desember – Michael Jón Clarke, tónlistarmaður

Tengdamömmujól

Tengdamamma mín Guðrún Jónsdóttir kenndi mér íslensku. Eitthvað hefur það verið átak fyrir hana, nýorðna ekkju að fá svona sendingu til sín frá Englandi! Hún talaði enga ensku og það voru langar stundir í eldhúsinu sem við „ræddum“ saman. Henni fannst ég vera furðufugl, en var voða elskuleg og þolinmóð við mig. 

„Henni fannst ég vera furðufugl, en var voða elskuleg og þolinmóð við mig.“

Ég ákvað að vera á Íslandi fyrstu jólin mín og mér fannst það bæði í senn yfirgengilegt vesen og vinna en samt spennandi. Bretar hafa ekki svona mikið fyrir hlutunum! En hæst ber að nefna smákökubaksturinn hennar tengdamömmu. Gamli Rafha ofninn hafði engar hitastillingar nema „á“ og „af“ og „yfir“ og „undirhiti“. En smákökunar hennar voru lostæti og gullfallegar. Enn í dag heldur fjölskyldan áfram að baka þessar sortir, en þrátt fyrir að allir eigi nýtískulegar eldavélar með öllum hugsanlegum stillingum nær enginn sömu gæðum og hún við smákökubaksturinn!

„Smákökurnar hennar voru ljúffengari en nokkurntíma áður og hjá fjölskyldunni voru þetta eftirminnilegustu jólin okkar.“

Nokkrum dögum fyrir jól nokkur féll tengdamamma frá. Í húsinu hennar var hún búin að baka tuttugu tegundir af smákökum þrátt fyrir veikindi og orkuleysi. Við Sigurlína Jónsdóttir konan mín ákváðum að halda einföld jól, kaupa lítið sem ekkert af gjöfum og minnast tengdamömmu í ró og friði. Smákökurnar hennar voru ljúffengari en nokkurntíma áður og hjá fjölskyldunni voru þetta eftirminnilegustu jólin okkar.