Fara í efni
Mannlíf

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir kennari

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

7. desember – Melkorka Mjöll Kristinsdóttir, grunnskólakennari

Jólaklippingin, jólagardínur og harmonikkur í helvíti

Sonur okkar spilaði jólalög á harmonikku í eldhúsinu fyrir ömmu sem var í jólaskapi.

Ákvað að læra að spila eftir að gestur sem spilaði í leikskólanum sagði að þó það væri vissulega satt að allir sem kæmust til himnaríkis fengju hörpu, þá væri það jafn öruggt að þeir sem yrðu sendir til helvítis fengju harmonikku. Sonurinn lét ekki segja sér þetta tvisvar og í dag erum við stolt að geta sagt að hann er á góðri leið með að fara til helvítis.

Mamma dillaði sér við tónlistina meðan hún virti fyrir sér hvernig eldhúsið okkar rímaði við jólalögin.

„Ætlarðu ekki að setja upp jólagardínur?“

„Neei, sé ekki tilganginn í því“ - sagði ég og leit út um eldhúsgluggann.

„Nei, ég meina, þá færðu tækifæri til að þvo sumargardínurnar,“ sagði mamma meðan ég leit út um gluggann.

„Tækifæri?“ - sagði ég.

Ég horfði stíft út um gluggann vegna þess að nágranninn var að setja seríur uppúr og niðrúr húsinu sínu með borvél, stiga og líklega 300 metra seríuflóð að vopni.

Ég vissi að ég þyrfti að svara þessu með einhverjum hætti.

Sá útundan mér að mamma var búin að rífa niður hversdagsgardínurnar og byrjuð að troða jólagardínum upp á stöng.

„Takk mamma!“

Þegar gardínurnar voru komnar upp hringdi mamma í slökkviliðið og náði að sannfæra einhvern yfir-dúdda þar um að mæta með lið sitt, lyftara og körfu heim til okkar. Hún setti á sig varalit, náði í hamar og lét hífa sig upp að þakskegginu þar sem hún stóð og barði niður kertin hennar Grýlu.

Næsta dag reif ég son okkar upp klukkan 8:00 á frídegi og óð með hann gegnum snjó og myrkur til að mæta á rakarastofu þar sem ekki er hægt að panta tíma, heldur verður að sýna sitt úfna hár.

Ruddum snjó, ljósum lokkum og náfölri móður hans inn klukkan 8:28, tveimur mínútum fyrir auglýstan opnunartíma. En það var búið að opna og 6 kollar mættir. Einn með skeggið í höndum rakarans, sem sjálfur var grunnsamlega vel snyrtur (hver rakaði hann og hvenær?!)

Ég hafði ætlað að skjóta rakaranum ref fyrir rass með því að mæta fyrir opnun og sitja úti í skafli meðan hann skjögraði úr bílnum með klippurnar í annarri, orðlaus yfir framsýni minni og getu til að moka unglingi, sem allir vita að eru best geymdir myglaðir undir sæng, í gegnum stingandi loft-rósir og í stólinn þar sem jólin byrja.