Fara í efni
Mannlíf

Mangójólatré og partí á aðfangadagskvöld

Sigurður Guðmundsson setur jólaseríu í mangótré í garðinum.

Sigurður Guðmundsson athafnamaður, verslunarmaður til fjölda ára og fyrrverandi bæjarfulltrúi, heillaðist af Sambíu í Afríkuferð fyrir nokkrum árum. Hann er nú búsettur þar, kvæntur sambískri konu, Njavwa Namumba, og er alsæll. Sigurður skrifaði þessa grein að beiðni Akureyri.net, þá áttundu í greinaflokki sem Akureyringar erlendis skrifa um jólahaldið.

_ _ _ _

Það er ekki ofsögum sagt að jólin í Sambíu séu frábrugðin því sem ég er vanur. Þar sem ég er alinn upp í leikfangaverslun hafa jólin alla tíð verið mér kær barnanna vegna. Þau hafa þó aldrei verið jafn róleg og nú. Venjan heima var að hafa allt á síðustu stundu og einhverjar mínútur í hjartaáfall hver einustu jól. Komandi af stóru heimili sem samanstóð af fimm brjáluðum systrum og tveimur einstaklega ljúfum bræðrum ásamt foreldrum er ég þess fullviss að stressið fylgdi mér fram á fimmtugsaldurinn vegna umhverfisins sem ég ólst upp í. Líklegast er þetta systrunum að kenna því við bræður vorum þekktir fyrir að vera stilltir og lítið fyrir einhver fáránleg uppátæki. Mig allavega minnir að þetta hafi verið svona. Kannski var þetta öfugt.

Þetta hefur þó nokkuð róast með árunum sem betur fer. Þessi jól verða skrýtin. Ekkert af börnunum mínum er hér og ég veit það með vissu að það á eftir að vera erfitt. En þetta hlýtur að hafast einsog allt annað. Það var ekki óalgengt hjá mér hér fyrrum að verða þjakaður af skammdegis þunglyndi á þessum árstíma. Alveg sama hvað var skemmtilegt í kringum mann. En þegar sólin skín á þig alla daga er skammdegið eins og einhver hrollvekjandi saga úr skáldsögu. Hreinn hugarburður.

Þegar eiginkonan er svona leikandi létt í skapi á þessum árstíma sem öðrum er bara gaman að vera til. Við héldum íslensk jól heima í fyrra. Njavwa kom beint í viðskotaillan íslenskan vetur og fannst það frábært. Henni fannst hún vera í miðri amerískri jólamynd með okkar fallega bæ, Akureyri, skreyttan jólaljósum, á kafi í snjó. Þetta gæti ekki verið meiri andstæða hér. Að upplifa snjó í fyrsta skipti er eitthvað sem alla dreymir um hér. Okkur Íslendinga dreymir um pálmatré og sól en hér er draumurinn snjór og norðurljós.

Þegar maður er vanur íslenskum jólaskreytingum er eiginlega hálf sorglegt hvað fólk er rólegt við að skreyta hér. Það er varla nokkur maður að gera nokkurn skapaðan hlut. Verslunarmiðstöðvar skreyta en fáar verslanir innandyra. Ég hef séð einn jólasvein hér sem skraut í verslunarmiðstöð. Hann mun vera af kínverskri gerð, úr plasti, grannur með hökutopp, kryppu og skásett augu! Meira að segja gleraugun hans eru með hringlaga svartri umgjörð. Ég sver þetta. Þetta er hreint og klárt rannsóknarverkefni. Í miðri Afríku!

Í byrjun aðventu fannst mér pínu vanta þessa íslensku geðveiki í öllu sem tilheyrir jólunum, en ekki lengur. Eins undarlegt og það er þá er það frábært. Þegar ég hugsa til baka hvernig jólin hafa verið, hlýtur maður að sjá að það er margt ekki eðlilegt við íslensk jól. Þessi andi jólanna sem á að færa okkur frið er fyrir löngu búinn að snúast upp i andhverfu sína. Friðurinn er farinn. En hann finnur þú hér.

Þegar ég spurðist fyrir um hvernig jólin væru hér í Sambíu var alltaf sama svarið. Partý! Það kemur manni nú frekar á óvart enda telja Sambíumenn sig kristna og hér eru fleiri kirkjur heldur en sjoppur sem selja munntóbak. Aldir upp hver og einn í guðsótta og góðum siðum. Þetta er semsagt hálfgerð drykkjuhátíð sem er algjörlega á skjön við það sem maður er vanur. Þar sem maður þarf að aðlagast þeirri menningu þar sem maður býr verð ég semsagt með partý á aðfangadag. Hér mun húsið fyllast af allskonar fólki frá þremur heimsálfum. Nýsjálendingar, Ástralir, Þjóðverjar, Englendingar, Sambíumenn og jafnvel einn gestur frá Congo. Svo mun öll Íslendinganýlendan mæta í heild sinni, fjórir einstaklingar að mér meðtöldum. Við erum tveir sem búum hér en tveir bættust við í byrjun desember og verða hér fram yfir áramót. Annar Dalvíkingur og hinn borgarbarn. Þetta verða því einhverjir 30 hausar með börnum. Allir væntanlega komnir á skallann þegar jólin hringja inn á íslenskum tíma. Þó ekki börnin. Þetta myndi mér aldrei detta til hugar heima á Íslandi. Vínlaus jól var ég alinn upp við. Vonandi verður netsamband svo ég nái útsendingunni frá RUV. Því ætla ég aldrei að missa af í þessu lífi. RUV færir mér jólin.

    • Rétt er að taka fram, áður en lengra er haldið, að Sigurður sendi Akureyri.net greinina rétt fyrir jól. Eins og vænta mátti var allt samkvæmt áætlun á aðfangadagskvöld!

Hér er auðvitað skortur á ýmsu. Stundum er allt til en oftast bara helmingur af því sem þig langar í. En þessu venst maður einsog öðru.

Þar sem mér hefur aldrei leiðst að elda mat hef ég verið að sanka að mér hráefni sl. vikur. Hér þarf maður að sæta færis til að nálgast það sem mann langar í. Það tók mig þrjár vikur að finna kalkúnaræfil og núna tími ég varla að elda hann. Skíthræddur um að hann klárist og ég hafi enga afganga á jóladag. Sambískan hamborgarhrygg eldaði ég í tilraunaskyni fyrir vinafólk mitt sem hélt jólaboð fyrir viku. Var fullviss um að þetta væri óæti enda búinn að hlusta á Framsóknarmenn í næstum hálfa öld halda því fram að erlendar matvörur væru skaðlegar Íslendingum, en merkilegt nokk þá var hann var frábær. Fór þar endanlega tiltrú mín á þeim þjóðflokki. Þannig að hamborgarhryggur verður aftur hér á borðum.

Kílóið af nautalundum kostar jafn mikið hér og poki af Nóa kroppi heima á Íslandi þannig að Beef Wellington verður eldað af kostgæfni. Haldapoki af sveppum er á hundraðkall þannig að sveppasósa ásamt minni rómuðu pipar/osta/rjóma/sultu sósu verður á borðum. Svo verður auðvitað grillað líka, einhver ósköp af hinum og þessum kjöttegundum. Ég náði meira að segja í smávegis flóðhestakjöt sem verður grillað. Það er staðreynd að hvergi í heiminum er betri grillmatur en einmitt hér. Þetta er spennandi verkefni.

Forrétturinn verður reykt bleikja úr Fnjóská og reyktur lax úr Skjálfandafljóti, framreitt á minn hátt sem er afbrigði af uppskrift frá einhverri Instagram glamúrgellu í Reykjavík. Hafði hugsað mér að gera Ris a la mande í eftirrétt en það kemur í ljós. Líklega best að hafa bara vanilluís með perum úr dós. Get varla með orðum lýst hvað mér þótti það gott sem barn. Ég er ekki nýjungagjarn með jólamat. En nú verður breyting. Þriðja í jólum hefur sjónsvið mitt oftast minnkað mikið vegna ofáts á reyktu kjöti og laufabrauði. Hér færðu varla unnar kjötvörur þannig að ég verð líklega lesfær þriðja í jólum, í fyrsta skipti í áratugi.

Ég hló alltaf að fólki sem burðaðist með íslensk matvæli til útlanda. Ef þið kjaftið ekki frá, er ég akkúrat svoleiðis í dag. Fór næstum því að grenja um daginn þegar sú hugsun kom upp að ég ætti ekki hangikjöt fyrir jólin. Í síðustu ferð var ómissandi að taka með sér reyktan lax og silung sem ég veiddi sjálfur, remúlaði, kokteilsósu, ýmsa osta og auðvitað steiktan lauk. Við skulum heldur ekki gleyma lifrarkæfunni frá Kjarnafæði. Maður er auðvitað orðinn eitthvað ruglaður þegar ferðast er með tvo bauka af steiktum lauk 10.500 km. Hér er einhver veila í gangi! En svona er þetta bara. Ég get svo svarið að ég opna stundum bauk bara til að þefa af honum. Kemur í staðinn fyrir dásemdar ilminn af greni.

Ég nenni ekki að skreyta hjá mér. Henti upp einni seríu svona til að líta ekki út einsog nirfill. Það er bara svo mikil ró yfir öllu og ekkert kallar á einhverja fyrirhöfn. Svo verður líklega rafmagnslaust þannig að ástæðulaust er að setja fleiri upp. Engan fann ég Norðmannsþininn hér á svæðinu heldur afskaplega ljót gervijólatré einsog Rúmfatalagerinn reyndi að selja landsmönnum fyrir 30 árum síðan. Kannski gamall lager frá þeim. Þannig að ekkert verður jólatréð enda næstum tilgangslaust þegar þú býrð í skógi. Óþarfi algjör, enda mangótré í garðinum sem er miklu fallegra. Kannski ég setji bara seríu á það. Það væri eitthvað. Mangójólatré!

Gleðileg jól, kæru vinir!
Sigurður Guðmundsson

Hjónin Njavwa Namumba og Sigurður Guðmundsson með nýtíndar melónur úr garðinum. Til hægri perluhænsn sem þau hyggjast borða á gamlárskvöld.

Okkar maður og eini jólasveinninn sem hann hefur séð upp á síðkastið. Til hægri, Íslendinganýlendan á aðfangadagskvöld, Jón Örn, Björn, Vilhjálmur og Sigurður.

FYRRI GREINAR

Hildur og Hermann í Brüssel

Bjarki og Elín í Boston

Arnór Þór og Jovana Lilja í Haan

Bianca og Stephany í Mexíkó

Lára Magnúsdóttir í Kaliforníu

Svanfríður Birgisdóttir í Örebro

Katrín Frímannsdóttir á sléttunni miklu