Fara í efni
Mannlíf

Ljósin bjarga dauðri, veðurbarðri hríslu

Elín Dröfn Þorvaldsdóttir og Bjarki Guðmundsson á heimili sínu í Boston.

Bjarki Guðmundsson og Elín Dröfn Þorvaldsdóttir búa í Boston á austurströnd Bandaríkjanna. Bjarki er tónlistarmenntaður og lærir nú tónmenntakennslu. Eftir sálfræðinám á Íslandi nam Elín hagnýta atferlisfræði í Boston og starfar við fagið. Bjarki skrifar hér, að beiðni Akureyri.net, um jólahald hjónakornanna vestanhafs. Þetta er önnur greinin í flokki sem Akureyringar erlendis skrifa.

_ _ _ _ 

Senn líður að fjórðu jólum okkar hjóna hér í Ameríku en hvorugt okkar hefur þó enn formlega viðurkennt einhvern söknuð til hinna rammíslensku jólahefða. Heimilið hefur blessunarlega verið vinsæll áfangastaður vina og fjölskyldu á síðustu árum og slíkum heimsóknum fylgja yfirleitt kræsingar að heiman og því hefur okkur aldrei skort aðföng svo hægt sé að halda íslensk jól. Hvort sem það er Ora-grænar, laufabrauð, hangikjöt, malt eða appelsín, þá hefur það borist til okkar með einum eða öðrum hætti. Þrátt fyrir alla þessa fyrirhöfn höfum við aldrei gengið svo langt að halda fullkomlega heilög jól að íslenskum sið, heldur einhverskonar blöndu.

Það getur reynst erfitt að alhæfa í þessum efnum, þar sem væntingar til þess hvað uppfyllir íslensk jól eru örugglega breytilegar eftir heimilum. Þar með biðst ég forláts ef staðhæfingar mínar um hvað teljist eðlilegt kunni að stuða ykkar lífssýn!

Sjálfur ólst ég upp við það að jólatréð væri sett upp og skreytt á Þorláksmessu en slíkt samræmist sannarlega ekki þeirra hefð sem Ameríkanar fara eftir, því hér tíðkast það að jólatréð sé dregið fram og uppstrílað rétt eftir uppvaskið á Þakkargjörðardag í lok nóvember.

Á okkar fyrstu jólum hér úti var ég staðráðinn í því að hefja formlegan undirbúning langt á undan áætlun og kaupa tréð um miðjan desember. Það mátti þó litlu muna þar sem jólatrén voru komin á útsölu og fátt eftir nema veðurbarðar hríslur. Hvað er þó annað hægt að gera en líta á björtu hliðarnar og taka slíkri reynslu sem fagnandi áminningu um að vera fyrr í því fyrir næstu jól? Vinalegur viðskiptavinur kenndi greinilega í brjósti um mig og taldi mér trú um að þetta myndi allt reddast, þegar ljósin væru komin upp myndi ekki nokkur maður sjá að þetta væri dautt!

Formlegur aðdragandi jóla er frekar rólegur á heimilinu, það eru nokkrar bíómyndir sem þarf að smella í tækið, það þarf að fara niðrí bæ, sjá jólaljósin og anda að sér angan þúsunda yfirhafna (þegar almennilegur samgangur fólks var leyfður) og svo þarf að baka nokkrar sortir. Hvort sem ég kenni hráefninu, uppskriftinni eða gasofninum um hrakfarir mínar, þá þurfa lakkrístopparnir að falla til að ég átti mig á því að jólin eru að ganga í garð.

Þorláksmessa er mér afar kær hátíðisdagur. Hef þó aldrei náð að koma kæstri skötu inn fyrir mínar varir og ef ég væri með slíku óráði held ég að lögreglunni yrði sigað á mig fyrir að reyna slíkar kúnstir á mínum stigagangi. Þess í stað held ég mig við þá áralöngu hefð að bjóða upp á djúpsteiktan kjúkling í hádeginu og horfa á hina ástsælu jólamynd Á tæpasta vaði (Die Hard). Sú hefð hófst rétt eftir síðustu aldamót, þegar við félagarnir ákváðum að fara gegn ráðandi gildum og kröfðumst þess að vera keyrðir niður í Hagkaup við Furuvelli og fá djúpsteiktan kjúkling og franskar. Hefðin vatt upp á sig með tímanum og er nú ein af stoðum jólanna. Síðustu ár hafa hátíðahöldin þó farið fram stafrænt þar sem haf og mýrar skilja okkur félagana að.

Aðfangadagur fellur einna næst hefðbundnum íslenskum jólum á heimili okkar. Við byrjum daginn á möndlugraut og hefjumst svo handa við að undirbúa kvöldmatinn. Sama hvað hefur verið í aðalrétt þá er ekki vikið frá hefðinni varðandi meðlæti, það er að sjálfsögðu waldorfsalat, rauðkál, grænar baunir, og brúnaðar kartöflur. Eftir matinn opnum við pakkana líkt og heima, og sofnum yfir sjónvarpinu máttvana sökum ofáts, eins og Íslendingum sæmir.

Aðfangadagur hefur þó reynst okkur erfiður síðustu ár. Baðvaskurinn hefur stíflast, ruslakvörnin gefið sig, vatn flætt um allt gólf og loftið byrjað að leka, allt á aðfangadag! Ferð í byggingavöruverslun hefur því orðið að jólahefð á okkar heimili.

Jóladagur er svo haldinn hátíðlegur með vinum að amerískum sið. Við komum saman fyrir hádegi, skiptumst á litlum jólasokkagjöfum, spilum spil og borðum saman. Við reynum því okkar besta til að halda í íslensku hefðirnar samhliða amerískum hátíðarbrag. Reyndar er mjög góð spurning hvernig við tæklum þetta allt í ár. Það kemur bara í ljós!

Gleðileg jól!
Bjarki og Elín

  • Að ofan: Bjarki við „hefðbundin“ störf á aðfangadag - daginn þegar eitthvað bilar!

Í GÆR Hildur Blöndal og Hermann Örn Ingólfsson í Brüssel