Fara í efni
Mannlíf

Jólahald í 30 ár á sléttunni miklu

Katrín Frímannsdóttir og Haraldur Bjarnason á skíðum í Park City í Utah.

Katrín Frímannsdóttir og Haraldur Bjarnason hafa búið í Minnesotaríki í Bandaríkjunum síðustu þrjá áratugi, fyrst 10 ár í Minneapolis og síðan 20 ár í Rochester. Haraldur er læknir á Mayo Clinic og Katrín, sem er doktor í matsfræðum, var yfir gæðaeftirliti í Mayo Clinic háskólanum Mayo Clinic College of Medicine and Science en er nú sest í helgan stein. Katrín skrifar hér, að beiðni Akureyri.net, um jólahald á sléttunni. Þetta er sjöunda greinin í flokki sem Akureyringar erlendis skrifa.

_ _ _ _

Sléttan mikla, þessi sem Húsið (með stórum staf og ákveðnum greini) á sléttunni var á, er nokkurn vegin miðjan á Bandaríkjum Norður Ameríku (BNA) og í litlu horni í norð-austasta hluta hennar hef ég búið síðastliðin 30 ár. Héðan séð er langt til fjalls og enn lengra til fjöru og það þarf að ferðast langar leiðir til að sjá mishæðir í landslaginu, hvað þá fjöll, og enn lengra til að sjá til sjávar.

Kaup á jólatré hefur verið árlegur viðburður hjá okkur og árlega höfum við verið of seint á ferðinni. Við höfum nefnilega farið af stað að kaupa jólatré eftir 15. desember og hér eru nánast öll jólatré uppseld á þeim tíma. Flestir nágranna okkar, sem á annað borð halda jól og hafa tré, kaupa tréð daginn eftir Thanksgiving (Þakkargjörðarhátíðina), sem er í lok nóvember en við Íslendingarnir höfum þrætt jólatréssölur bæjarins til að finna tré seint og um síðir, allavega miðað við bæjarbúa almennt. Oft hefur það verið tæpt en alltaf hefur okkur tekist að finna tré og alltaf hefur það verið fallegt þrátt fyrir stress og vandræði að finna gripinn. Það mætti halda að það væri okkur þungbært að læra af reynslunni en það var svo greypt inní vitund okkar að kaupa tré eftir miðjan desember að við áttum í miklum vandræðum með að ýta á takkann sem segir að nú þurfi að breyta til. Nú er reyndar þannig komið að við erum eins og hinir og kaupum tré í lok nóvember.

Skreytingin á trénu er annar siður sem við höfum ríghaldið í; Þorláksmessa skal það vera! Við höfum búið til okkar eigin hefðir í kringum það, syngjum og dönsum og rifjum upp sögur af hverju einasta skrauti sem kemur uppúr kössunum. Hvenær skrautið var keypt eða búið til, hver gaf okkur það og af hvaða tilefni og alltaf er jafn skemmtilegt að heyra muninn á hver man hlutina og hvernig og muninn frá einu okkar til annars og hvaða sögur við tengjum hverjum hlut. Við breyttum útaf þessari hefð þessi jólin og ég skreytti tréð ein í byrjun desember, sem er ekki nærri því eins skemmtilegt og að gera það með fjölskyldunni en mikið er gott að létta á því sem þarf að gera á Þorláksmessu.

Aðfangadagur er svo afar íslenskur hjá okkur á allan hátt, sem er andstætt við nágranna okkar sem bíða eftir jóladegi með hátíðahöld. Oft höfum við setið við matarborðið eða við jólatréð á aðfangadagskvöld og nágrannar bankað uppá með gjafir og gotterí og brugðið við að sjá okkur uppáklædd eða í miðju pakkaflóði, okkur að meinalausu en þeim til undrunar og stundum skelfingar.

Ég sat í sófanum í stofunni í vikunni og naut þess að horfa á upplýst jólatréð þegar ég áttaði mig á því að við höfum eiginlega ekki tekið upp ameríska jólasiði, og þrátt fyrir að breyta venjum í kringum stóra jólatrésmálið þá höldum við okkur algerlega við það sem við hjónin ólumst upp við. Við höfum reyndar jólasokka á arninum, en bara fyrir barnabörnin, enginn jólasveinn kemur niður skorsteininn, allar jólagjafir eru frá okkur en engar frá jólasveininum, poppkornið sem langflestir sem við þekkjum gefa hefur aldrei verið hluti af okkar jólum, möndlu- valhnetu- pecan- eða hnetu brittle hefur aldrei verið gert á þessu heimili og aldrei höfum við horft á amerískan ruðning (fótbolta) á jóladag.

Það fer ekkert á milli mála á þessu heimili hver uppruni okkar er.

Jólakveðja heim í fjörðinn fagra!
Katrín Frímannsdóttir

FYRRI GREINAR

Hildur og Hermann í Brüssel

Bjarki og Elín í Boston

Arnór Þór og Jovana Lilja í Haan

Bianca og Stephany í Mexíkó

Lára Magnúsdóttir í Kaliforníu

Svanfríður Birgisdóttir í Örebro