Fara í efni
Mannlíf

Rjúpa fyrir matgæðinga – eða uppstoppara!

Akureyrsku hjónin Hildur Blöndal og Hermann Örn Ingólfsson, ásamt sonunum Goða og Thor.

Hildur Blöndal Sveinsdóttir ríður hér á vaðið og skrifar, að beiðni Akureyri.net, um jólahald Akureyringa á erlendri grundu. Hildur og eiginmaður hennar, Hermann Örn Ingólfsson, sendiherra, búa í Brüssel þar sem hann er fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO). Synir þeirra tveir verða hjá foreldrum sínum um hátíðarnar, Goði, sem stundar nám í Hollandi og Thor, sem lýkur alþjóðlegu stúdentsprófi í Brüssel í vor.

_ _ _ _

Það er Þorláksmessa 1998 í úthverfi Washington DC. Það er komið fram yfir hádegi á þessum fallega degi og við langt komin með undirbúning fyrir okkar fyrstu jól í Bandaríkjunum. Búin að baka nokkrar sortir af smákökum eftir uppskiftum frá mömmu og tengdamömmu og allt eins og það á að vera. Óvænt byrjar að snjóa og við glöð að vera vel keyrandi því nú skal haldið út í leit að hinu fullkomna jólatré.

Jólatrésraunir

Síðustu vikur höfum við séð fjölmarga staði sem selja jólatré. Við keyrum af stað og tökum stefnuna á þann stað sem er næstur okkur. Okkur til mikillar undrunar þá er enginn á staðnum og bara greinarusl og hálf ónýt tré liggjandi á víð og dreif. Við hjónin horfum hissa hvort á annað og ákveðum að keyra á næsta stað, en við okkur blasir sama sjón. Eftir að hafa rúntað á milli staða í rúma tvo tíma án þess að fá tré er okkur ekki skemmt. Heldur hefur nú bætt í snjókomuna og aksturshæfni þeirra sem hafa hætt sér út er ekki uppá marga fiska. Gráti næst rámar mig í að hafa séð gróðrastöð í nágrenni skóla sonar okkar, það er okkar síðasta hálmstrá enda komið fram yfir kvöldmat og laufabrauðið ennþá óskorið. Og viti menn þar er ennþá hægt að fá jólatré og nú meira segja á miklum afslætti því allir Ameríkanar löngu búnir að kaupa sér jólatré sem þeir setja gjarnan upp fyrir Þakkargjörðarhátíðina sem er í lok nóvember. Við urðum sammála um það á þessari tilfinningarþrungnu stund að héðan í frá yrði jólatréð keypt í byrjum desember þó svo að það yrði ekki skreytt fyrr en síðar. Já, það eru ekki alltaf jólin að halda jól á erlendri grund.

Ég hef ekki lengur tölu á árunum sem ég eða við sem fjölskylda höfum eytt í útlöndum en löndin eru fjögur, Danmörk, Bandaríkin, Belgía og Noregur. Nokkur skipti í hverju landi. Sjálft jólahaldið hefur tekið breytingum eftir því sem árin hafa liðið og litast af jólahefðum í hverju landi fyrir sig. En laufabrauðið er algjörlega ómissandi og hangikjötið verður að sjóða á Þorláksmessu. Aðfangadagur er al-íslenskur með öllum sínum hefðum, útvarpsmessu, pökkum og dásamlegum jólamat.

Að hamfletta rjúpur...

Við höfum reyndar farið nokkuð frjálslega með matarhefðir á jólum og ýmislegt verið á boðstólum. Önd, fasani og fleira í þeim dúr. Rjúpur komu hins vegar sterkar inn fyrir nokkrum árum þegar okkur áskotnuðust nokkrar, alveg óvænt og sagan af fyrstu hamflettingu frú Hildar er ávallt rifjuð upp um jólaleytið.

Það var komið fram yfir miðnætti á Þorláksmessu þegar ég man skyndilega að ég á ennþá eftir að hamfletta rjúpurnar. Þar sem ég hafði aldrei gert það áður né séð það gert þá var bara eitt að gera, nýta sér mátt internetsins. Við fundum álitlega síðu og minn ástkæri eiginmaður hafði það hlutverk að lesa upphátt hvernig best væri að bera sig að. Ég stend við eldhúsvaskinn og fylgi leiðbeiningunum samviskusamlega en er pínu undrandi á hvað þetta er allt ítarlegt og varfærnislegt. Mér fer að leiðast þófið enda örgeðja í eðli mínu og enn eru þrjá blaðsíður ólesnar. Ég legg því frá mér rjúpuna sem ég var búin að velkjast með og bið um að fá að sjá þessa heimasíðu. Þegar við skoðum síðuna nánar rennur upp fyrir okkur ljós, þetta er ekki síða fyrir matgæðinga heldur uppstoppara. Með einhverjum ráðum tókst mér að rífa ræfilsins rjúpuna úr hamnum og eldamennskan á aðfangadag tókst vel. Síðan þá höfum við oft verið með rjúpu og eitt árið okkar í Noregi fengum þær frá Kautokeino, þaðan sem mér er sagt að íslensku hreindýrin eigi ættir að rekja, og voru þær rjúpur alveg prýðilegar.

Þess sem við helst söknum við það að verja jólunum og áramótum fjarri heimahögum eru jólaboðin og samvera með nánustu fjölskyldu. Í minni æsku fórum við alltaf til ömmu Bíbíar og afa Bjössa í hádeginu á jóladag í hangikjöt og ílengdumst svo þar við að spila, spjalla og borða. Þetta eru minningar sem ennþá ylja. Hjá okkur hefur skapast sú hefð að vera með veglegan jólabrunch á jóladag, eitthvað sem er orðið ómissandi hjá sonum okkar.

Aldrei aftur í Belgíu!

Sorglegustu áramót sem við fjölskyldan höfum eytt í útlöndum voru í Belgíu 2007. Við bjuggum í skógarjaðri á svæði þar sem ekki má skjóta upp eigin flugeldum. Til að bæta fyrir það átti að vera stór flugeldasýning í miðborg Brüssel. Nokkrum dögum fyrir gamlársdag var hún hins vegar slegin af vegna hryðjuverkaógnar. Þá voru góð ráð dýr. Fjölskyldan endaði saman hlið við hlið í sófanum og fylgdist með flugeldunum á Akureyri í gegnum netið. Við hétum því þá að eyða aldrei aftur áramótum í Belgíu. Ekki tókst okkur að halda það loforð því nú stefnir í þriðju áramótin okkar hér. Við yljum okkur hins vegar við yndislegar minningar um nokkur áramót í Osló þar sem við vorum svo heppin að fá foreldra mína og systur með sínar fjölskyldur til okkar. Hefð sem við vildum gjarnan festa í sessi.

Covid jólin verða pínu öðruvísi en við höfðum ætlað okkur en þau höldum við hjónin ásamt sonum okkar tveimur í Belgíu líkt og í fyrra. Minnug þess að hluti jólapakkanna frá Íslandi skilaði sér ekki til okkar fyrr en í febrúar var nú allt gert til að tryggja að pakkarnir í ár næðu í tæka tíð. Póstþjónustan í Belgíu er nefnilega fræg fyrir óskilvirkni og skapar það vægast sagt spennu þar sem allt frá jólasokkabuxunum yfir í málningu og sandpappir er nú keypt á netinu svo ekki sé minnst á allar jólagjafirnar. Engir jólamarkaðir eða verslunarleiðangrar í ár. Rjúpunum verður skipt út fyrir fasana, skelfisk, krónhjört og einhvern gómsætan grænkeramat. Hangikjötið er búið að tryggja og það sama á við um maltið og Egils appelsínið, líterinn af þeim góða drykk til okkar komið á verði besta rauðvíns.

Lýsum upp hverfið

Ég er mikið jólabarn og elska að skreyta fyrir jólin. Það yrði seint sagt um mig að ég aðhyllist minimalisma en á þessum jólum er gengið enn lengra í öllum skreytingum bæði innan húss og utan. Nágrannarnir eru að okkar mati alltof sparir á jólaseríurnar eins og reyndar Belgar almennt. Við tókum því að okkur að lýsa upp allt hverfið og hefur umferð bæði gangandi og akandi aukist í jöfnu hlutfalli við fjölda jólaljósa hjá okkur. Lauslega reiknað þá eru perurnar vel yfir 10.000!

Þrátt fyrir að vera orðin örlítið einræn og einkennileg í einangrun síðustu missera erum við kjarnafjölskyldan þakklát fyrir að geta varið jólum og áramótum saman í rólegheitum, með góða bók og laufabrauðsstæðu innan seilingar, vitandi að það koma jól eftir þessi jól.

Gleðilega hátíð!
Hildur Blöndal