Fara í efni
Mannlíf

Fannst mikilvægt að halda í „íslensku“ jólin

Sara, Sunna og Sigyn, dætur Svanfríðar og Sveins, voru 10, 8 og 4 ára þegar fjölskyldan flutt til Sv…
Sara, Sunna og Sigyn, dætur Svanfríðar og Sveins, voru 10, 8 og 4 ára þegar fjölskyldan flutt til Svíþjóðar til þriggja ára dvalar ...

Svanfríður Birgisdóttir og Sveinn Eiríksson búa í Latorp, litlum bæ rétt utan við Örebro í Svíþjóð. Svanfríður er skólastjóri fullorðinsfræðslu í Örebro og Sveinn innkaupastjóri hjá fyrirtæki sem framleiðir m.a. jarðbora. Svanfríður skrifaði þessa grein að beiðni Akureyri.net, þá sjöttu í greinaflokki sem Akureyringar erlendis skrifa um jólahaldið.

_ _ _ _

Við fluttum til Svíþjóðar í júlí 1994 með þrjár dætur okkar, Söru, Sunnu og Sigyn. Þá voru þær 10, 8 og 4 ára. Við yfirgáfum Stórutjarnir sem hafði verið heimili okkar í 7 ár og ætluðum að búa erlendis á meðan ég las stjórnunarfræði við háskólann í Örebro. Við reiknuðum með að vera erlendis í þrjú ár og flytja svo aftur heim. Í dag eru liðin 26 ár.

Þegar við sáum að við vorum ekki á leiðinni heim eftir þrjú ár þá settum við okkur markmið. Það fyrsta var að við færum heim áður en Sara byrjaði í menntaskólanum, að við færum heim áður en hún fengi sér sænskan kærasta, að við færum heim áður en allar stelpurnar væru giftar, komnar í vinnu og búnar að eignast börn og áður en við keyptum okkur hús og... Nú erum við að venjast hugsuninni um að kannski deyjum við í Svíþjóð og liggjum í sænskri mold en ekki í kirkjugarðinum á Akureyri – með útsýn norður og suður yfir Eyjafjörðinn, austur í Vaðlaheiðina og í vestur upp á Súlurnar og Hlíðarfjallið!

Fyrstu tvö árin í Svíþjóð fóru í að horfa á og taka inn og læra hvernig „hinir“ gerðu í kringum okkur. Fyrstu jólin okkar var ég mjög dugleg við að afla mér upplýsinga um það hvernig Svíar héldu upp á jólin og hvað þeir borðuðu en það var engu að síður margt sem kom okkur algerlega í opna skjöldu. Ég og Svenni höfum alltaf verið mikið fyrir jólin og finnst mikilvægt að gera aðventuna og jólin eftirminnileg fyrir alla fjölskylduna. Smátt og smátt uppgötvuðum við að við vorum greinilega „öðruvísi“ og ættum frekar langt í að vera talin „eðlileg“.

Fyrsta í aðventu settum við seríur í gluggana hjá okkur og gerðum aðventukrans og pakkadagatal fyrir stelpurnar. Einn daginn komu þær heim úr skólanum og spurðu hvað en bordell væri. En bordell? Það er sem sagt hóruhús ...

Jú, við höfðum náttúrlega skellt upp jólaseríunum að heiman með marglitum ljósum í alla glugga. Hér voru bara hvít ljós, aðventuljós eða stjörnur í gluggunum! Ég var ekki lengi að hreinsa gluggana og losa mig við bordell lúkkið. Síðan þá hefur ekki komið litað ljós inná heimilið og við getum hlegið að þessu í dag.

Það sem er ekki alveg eins létt að hlægja að er hversu erfitt það getur verið að aðlagast nýju umhverfi, skapa nýtt samhengi, verða hluti af nýrri heild og það án þess að týna sjálfum sér í leiðinni. Það er ótrúlegt hversu stóran og sterkan þátt umhverfi, hefðir, siðir og menning forma okkur og skilgreina okkur sem persónur.

Ég veit ekki af hverju, en eftir 26 ár í útlöndum eru það jólin sem standa fyrir allt það sem er íslenskt í okkur og hjá okkur og við höfum aldrei vikið frá þeirri hefð. Okkur finnst mikilvægt að stelpurnar okkar og barnabörnin fjögur alist upp með íslensku jólasveinunum, viti hvernig maður hélt jólin áður fyrr í torfbæjunum, hvað maður borðaði, hvernig maður eldaði og hvernig maður undirbjó jólin áður fyrr.

Hér er farið í laufabrauð ömmu Svönu, kleinur Sigrúnar á Lækjarmóti og soðiðbrauðið hennar Ingu Lór. Myndakökubakstur, piparkökur, randalína mömmu, seytt rúgbrauð og ástarpungar frá Stínu í Tjarnarborg. Kjúklingalifrarpaté og laxakrem frá Svönu vinkonu, franskur ís frá Danielle, lúðupaté frá Steinlaugu vinkonu, glöggpæjur og annað góðgæti er framleitt allan desember.

Þann 13. desember er svo Lucia hátíðin og Lussekatterna (gerbrauð með saffran sem formað er eftir kúnstarinnar reglum) eru orðnir mikilvægur þáttur í aðventunni. Fyrst og fremst er Lúsíuhefðin og sagan á bakvið yndisleg áminning um að ljósið og birtan er framundan. Þegar stelpurnar voru litlar þá settum við alltaf skóinn út í glugga á Lúsíudaginn þar sem íslensku jólasveinarnir fóru einmitt á stjá þá nóttina.

Ný hefð sem skapaðist hjá okkur eftir að við fluttum út fjallar um matinn á aðfangadagskvöld. Bæði ég og Svenni erum alin upp við rjúpur á aðfangadagskvöld. Pabbi og bræður mínir veiddu rjúpurnar sjálfir svo undanfari hverra jóla var sjálf rjúpnavertíðin. Hangandi rjúpur á snúrustaurunum heima í Norðurbyggðinni og pabbi sem fiðurhreinsaði og verkaði þær á Þorláksmessunni.

Hér í suður Svíþjóð voru hvorki rjúpur í skóginum né kæliborðinu í kaupfélaginu. Ég skrifaði langt bréf til Svönu Vil. vinkonu og sagði mínar farir ekki sléttar í rjúpnamálunum og að hér yrðu sennilega engin jól. Eins og venjulega sagði hún mér að hætta þessu væli og sendi mér fleiri handskrifaðar blaðsíður með uppskrift að fylltum kalkún ásamt meðlæti. Það eru sömu blaðsíðurnar sem teknar eru fram enn þann dag í dag á aðfangadag.

Eftir mikla leit komst ég að því að hér í Örebro voru bara til frosnir kalkúnar á stærð við spörfugla svo nú voru góð ráð dýr... eiginlega rosalega dýr vegna þess að þetta er ástæðan fyrir því að kalkonresan er farin til Stokkhólms þremur dögum fyrir jól á hverju ári! (Þess má geta að Kalkonresan er þekkt grínmynd hér í Svíþjóð og fjallar um allt annað en lukkaða ferð til Stokkhólms fyrir jól!)

Í lok nóvember panta ég 10 kg ferskan kalkún í Saluhallen í Stokkhólmi og sæki hann daginn fyrir Þorláksmessu. Kalkonresan er tveggja daga fjölskylduferð til höfuðborgarinnar þar sem við erum á hóteli og njótum þeirrar ótrúlegu ljósadýrðar sem Stokkhólmur skartar fyrir jólin. Fyrstu jólin vorum við bara fimm, nú erum við 11! Fastir liðir eru jólagluggarnir í NK (Nordiska Kompaniet), jólamarkaðirnir, Gamla stan (gamli bæjarhlutinn við konungshöllina), Eataly, kaffihús og Rosendahls trädgård. Að lokum verjum við svo góðum tíma í matarmarkaðnum Saluhallen, verslum osta, rækjur, lúðu og annað góðgæti og sækjum kalkúninn.

Svíar halda upp á aðfangadaginn frá því að þeir vakna og þar til þeir sofna. Þeir halda upp á daginn með fjölskyldunni og ættingjunum og þessar samkomur geta verið eins og lítil ættarmót á íslenskum mælikvarða. Fólk ferðast langar leiðir til að geta verið saman og borðað jólahlaðborð frá hádegi fram á kvöld, dansa í kringum jólatréð og taka upp pakka.

Við höldum hinsvegar fast í okkar íslensku hefðir og höldum upp á aðfangadaginn eins og flestir Íslendingar gera. Klukkan 19:00 hljóma kirkjuklukkurnar heima á Íslandi í öllu húsinu og hringja inn jólin hér hjá okkur í Latorp. Það hafa þær gert í 26 ár. Fyrst af segulbandi en í dag í beinni útsendingu á netinu. Hjartað fyllist lotningu og augun fyllast tárum hvert einasta ár! Þetta með kirkjuklukkurnar og messuna í útvarpinu er ein sú fallegasta athöfn sem ég veit og sameiningarkrafturinn sem liggur í henni er stærri en við trúum.

Við erum þeirrar gæfu njótandi að hafa fengið heimsóknir frá Íslandi yfir jólin og í desember gegnum árin og síðustu árin hefur mamma verið sótt á Arlanda til að vera með okkur í Kalkúnaferðinni í Stokkhólmi og yfir jólin í Latorp. Jólunum verjum við saman uppá hvern dag, erum mikið úti í skóginum, grillum við varðeld, förum á skauta og í gönguferðir og njótum góðs matar og samveru með vinum og tengdafjölskyldum hér í Svíþjóð.

Með kærri kveðju,
Svanfríður Birgisdóttir, Sveinn Eiríksson

Sara Sveinsdóttir
Sunna Sveinsdóttir og Johan Amnebratt, Atli Amnebratt 9 ára og Íris Amnebratt 7 ára
Sigyn Sveinsdóttir og Gustav Ekblad, Laura Ekblad 2 ára og Loke sem varð mánaðargamall 21. desember.

FYRRI GREINAR

Hildur og Hermann í Brüssel

Bjarki og Elín í Boston

Arnór Þór og Jovana Lilja í Haan

Bianca og Stephany í Mexíkó

Lára Magnúsdóttir í Kaliforníu