Fara í efni
Mannlíf

Gæti auðveldlega verið ein með jóladagatal!

JÓLALAGIÐ MITT

Þórhildur Örvarsdóttir söngkona

Aðventan er tími sem ég hef mikið dálæti á og jólalög eru svo stór partur af stemningunni. Og þar sem ég er söngvari fyllir jólatónlist eiginlega alla kima lífs míns frá miðjum október og til áramóta. Þegar ég svo fór að reyna að velja þrjú lög fyrir þennan pistil lenti ég í stökustu vandræðum, ég á svo mikið af uppáhalds jólalögum að ég gæti auðveldlega verið ein með jólalagadagatal og nefnt allavega þrjú lög á dag! En hér koma nokkur sýnishorn.

Sennilega eru mínar fyrstu jólaminningar tengdar plötunni Jólastrengir sem er hér í heild.

Þegar ég heyri sleðabjöllurnar í byrjuninni á Jólasveinninn kemur í kvöld hellist yfir mig nostalgían, ég finn ilminn af mömmukökum og laufabrauði og sé fyrir mér plötuna snúast á fóninum hjá ömmu og Sirrý frænku. Ég gat hlustað endalaust! En í dag finnst mér lagið Jólakvöld eftir Magnús Þór Sigmundsson við texta Kristjáns frá Djúpalæk einna fallegast. Svo syngur Vilhjálmur Vilhjálmsson svo töfrandi fallega. Smellið hér til að hlusta.

Jól og jazz er algjörlega skothelt kombó. Það koma t.d. ekki jól fyrr en búið er að rúlla plötunum Ella (Fitzgerald) Wishes You A Swinging Christmas og Hnotubrjótnum í flutningi Duke Ellington og hljómsveitar hans allavega þrisvar svo ekki sé minnst á Ég verð heima um jólin - jazzklassík frá Kristjönu Stefáns.

Smalavísur Bjarna Frímanns og Guðmundar Óskars Guðmundssonar í flutningi Sigríðar Thorlacius hafa lent á „repeat“ hjá mér nokkur síðustu jól. Ég fæ einfaldlega ekki nóg af snilldinni í þessu ljóði eftir Jóhannes úr Kötlum, hvernig hann nær að draga upp mynd af aðstæðum fjárhirðanna á Betlehemsvöllum er óviðjafnanlegt. Þetta er sallafínn jazz! Smellið hér til að hlusta á lagið.

Einsog ég sagði hér að framan þá spila jólalög mikla rullu í mínum jólaundirbúningi. Eitt árið hófst hann þó óvenju snemma þegar ég fékk Atla bróður minn með mér í að taka upp jólaplötu. Upptökur hófust í ágúst og þá skall auðvitað á með hitabylgju. Hlýindin og lognið voru einsog best gerist á Akureyri... kannski svolítið einsog í lygasögu! Á meðan blíðviðrið geysaði útifyrir kúrðum við með góðum vinum inni í Akureyrarkirkju við kertaljós og reyndum að búa til jól. Úr varð platan Hátíð sem kom út fyrir jólin 2016 og mér þykir ógurlega vænt um og gott ef við náðum ekki að kreista út smá jólastemmara. Hér er Vetrarsálmur eftir norðmanninn Trygve Hoff og textinn eftir mína góðu vinkonu Gretu Salóme.