Fara í efni
Mannlíf

Ekkert hátíðlegra en Heims um ból í kirkjunni

JÓLALAGIÐ MITT

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims

Jólin er einn af mínum uppáhaldstímum á árinu. Þegar ég var lítil þá fannst mér ótrúlega mikilvægt að allt væri eins ár eftir ár um jólin. Þannig að ef eitthvað breyttist var það alltaf smá áhyggjuefni en svo komu jólin og þau urðu alveg jafn dásamleg og alltaf.

Þegar kemur að jólalögum er ég alæta. Elsta dóttir mín er byrjuð að hlusta á jólalög í nóvember þannig að þessi lög eru mikið í spilun á okkar heimili. Mér finnst það dásamlegt og gott en það vekur vissulega mismikla ánægju innan fjölskyldunnar!

Jólalagið sem ég hugsaði strax um að væri eitt af mínum uppáhalds er skemmtilegt en öðruvísi en mörg þeirra. Það er lagið Dansaðu vindur með Eivör. Mér finnst þetta lag minna mig á hvað er gott að vera inni með kertaljós og fólki sem maður elskar um jólin sama hvernig viðrar í lífinu. Smellið hér til að hlusta.

Ég hlusta líka alltaf á I´ll Be Home for Christmas með Elvis Presley, finnst það bara eitthvað svo geggjað lag. Smellið hér til að hlusta.

Ég tengi líka Bill Crosby mjög mikið við jólin, kannski af því að hann er mjög mikið spilaður í amerískum bíómyndum. Það vekur upp einhverjar minningar frá því maður var lítill að horfa á góða jólamynd með pabba í sófanum á meðan mamma var á fullu að undirbúa jólin og gera þau að þeirri hátíð sem mér fannst fullkomin alltaf. Í dag þegar ég er sjálf að undirbúa mín eigin jól þá rennur upp fyrir manni að þetta gerist ekki að sjálfu sér, það þarf að gera margt til að hátíðin verði svona ótrúlega hátíðleg og falleg. Í dag myndum við flokka þetta allt undir þriðjuvaktar verkefni, er það ekki?!

Ég er alin upp við að fara í kirkju á aðfangadagskvöld klukkan 18.00 og mér finnst ekkert hátíðlegra en að hlusta á Heims um ból í kirkjunni. Þá eru jólin virkilega komin fyrir mér. Ég reyndar get ekki hlustað á lagið nema bara á þessari stundu þannig það kannski flokkast ekki undir mitt uppáhaldslag en mér finnst það samt stór partur af hátíðinni að hlusta á það á þessari stundu. Smellið hér til að hlusta.

Ég er þakklát fyrir hver jól sem ég fæ með fólkinu mínu og vil helst hafa sem flesta hittinga og samverustundir með mínum litla kjarna en líka foreldrum, tengdaforeldrum, systkinum , vinum og öllum þeim sem okkur þykir svo væntum.

Njótum og verum glöð og þakklát.

Gleðileg jól!