Fara í efni
Mannlíf

Brynja Harðardóttir Tveiten myndlistarkona

JÓLADAGATAL AKUREYRI.NET

4. desember – Brynja Harðardóttir Tveiten, myndlistarkona

Jólaljósin á Árskógssandi og Örebro í Svíþjóð

Ég sit við tölvuna mína. Í þessum skrifuðum orðum er rúmlega mánuður til jóla, 8 stiga hiti og hláka. Rigningin bylur á rúðunum, ég hvorki kveiki á Spotify né útvarpi heldur nýt þess að hlusta á hvassviðrið. Það er gul viðvörun á nánast öllu landinu, himininn þungur og hugurinn leitar reglulega til Grindvíkinga. Jólaljósin í götunni eru frekar framlág í veðurhamnum en nokkuð sjálfsörugg. Þau vita að töfrar þeirra skerpast um leið og dimmir og snjóleysið víkur.

Ég man t.d. hversu dásamlegt mér þótti að síðasta dag fyrir jólafrí mátti taka með sér kerti í Árskógsskóla. Ég sé okkur bekkjarsystkinin fyrir mér hvert með sitt tendraða kertið, hljóð og prúð við skólaborðin.

Töfrar jólaljósanna hafa alltaf náð til mín í einhverri mynd. Ég man t.d. hversu dásamlegt mér þótti að síðasta dag fyrir jólafrí mátti taka með sér kerti í Árskógsskóla. Ég sé okkur bekkjarsystkinin fyrir mér hvert með sitt tendraða kertið, hljóð og prúð við skólaborðin. Kennarinn les jólasögu og öll rafmagnsljós eru slökkt. Árið er sirka 1981 og við 9-10 ára. Eflaust vorum við ekki jafn prúð og mig minnir. Við hljótum að hafa verið með einhverja óþægð, a.m.k. rennt fingrum í gegnum logana eða dýft fingurgómunum í bráðið kertavaxið. Hvað sem því líður þá man ég vel mjúku birtuna sem varpaði hátíðleika og hlýju yfir andlit okkar og skólastofuna. Nú á þessu augnabliki finn ég að sú birta yljar mér enn.

Serían var ólíkindatól, komin til ára sinna og því nauðsynlegt að dytta að henni fyrir hver jól.

Á bernskuheimili mínu á Árskógssandi var að jafnaði ekki skreytt fyrr en daginn fyrir Þorláksmessu og ég var yfirleitt orðin mjög óþreyjufull þegar sá dagur loks rann upp. Ég man sérstaklega eftir seríunni sem var sett í stofugluggann. Það sem mér þótti hún falleg. Utan um hvert perustæði var gul margblaða plastrós með grænum laufum úr harðplasti. Serían var ólíkindatól, komin til ára sinna og því nauðsynlegt að dytta að henni fyrir hver jól. Ég get ekki annað en brosað við tilhugsunina um mömmu og pabba í þessu brasi. Mamma kroppaði af gamalt límband, greiddi úr snúruflækjunni, pabbi fór yfir perurnar, festi þær sem voru lausar og skipti út þeim sem voru búnar að þjóna tilgangi sínum. Þetta þótti ekki skemmtilegt verk. Gleðin var hinsvegar einlæg þegar ljósin kviknuðu á seríunni enn ein jólin. Birtuspilið bjó til ævintýri í barnshuga mínum og ég sá álfadans, gimsteina og sjálfa jólastjörnuna.

Ég nærsýnn krakkinn tók þá gleraugun mín gjarnan niður, pírði augun, teygði þau og togaði svo ljósin runnu saman í rauðbleika, hvíta, gula, bláa og græna ljósboga.

Í aðdraganda jólanna fylgdist ég líka grannt með jólaljósunum birtast í húsunum í kring. Ljósastaurarnir voru þá frekar fáir á Sandinum og lýsingin frá aðventuljósunum, appelsínugulu pappírsstjörnunum og marglitu inni- og útiseríunum kærkomin viðbót í skammdeginu. Ég var líka svo lánsöm að svefnherbergisglugginn minn snéri í áttina að Hrísey. Daglega horfði ég þangað yfir ekki síst eftir myrkur þegar bæjarljósin mynduðu gyllta geislarák í hafinu. Mér þótti svo fallegt þegar jólaljósin bættust við eitt af öðru. Ég nærsýnn krakkinn tók þá gleraugun mín gjarnan niður, pírði augun, teygði þau og togaði svo ljósin runnu saman í rauðbleika, hvíta, gula, bláa og græna ljósboga. Ég kallaði þennan leik „litahræring“.

Jólaljósin eru mér jafnmikið gleðiefni í dag og áður. Úrvalið hefur svo sannarlega aukist og ég hef í gegnum tíðina látið undan ýmsum tískustraumum þar að lútandi. Enn hef ég þó ekki keypt slönguseríu né uppblásinn og upplýstan jólasvein. Óháð tískustraumum hélt ég þó eins lengi í gömlu marglitu jólaseríurnar mínar og ég gat þ.e. þessar með mjúku birtunni. Ég man meira að segja hvenær þær síðustu runnu sitt skeið. Árið er 2005. Þá bjuggum við fjölskyldan í Örebro í Svíþjóð og höfðum látið okkur hafa það að flytja jólaskrautið milli landa. Við bjuggum í raðhúsi. Fyrstu jólin í útlöndum voru gömlu marglitu seríurnar hengdar upp í glugga barnanna og í þakskeggið. Þetta fannst okkur afar fallegt og jólalegt. Nágrannar okkar voru þó ekki sama sinnis. Við vorum spurð með léttum tóni oftar en einu sinni hvort við værum að fara að halda partý sem var vissulega ekki raunin. Þá var okkur bent kurteisislega á með alvarlegri rómi að þetta væri stílbrot þar sem allir aðrir væru með hvít jólaljós. Okkur datt þó ekki í hug að skipta út ljósunum, það væri bruðl og þetta var okkar eigin litla jólamenningarbylting.

Þessi sömu jól keyrði vinafólk okkar sem þá bjó í Stavanger í Noregi til okkar. Þegar rennt var inn fyrir borgarmörkin í þessari 100 þúsund manna borg fann það heimili okkar óhikað. Ekki bara vorum við einu híbýlin í borginni með marglitar jólaseríur heldur vorum við líka einu híbýlin með slíkt góss alla akstursleiðina. Árinu eftir þ.e. jólin 2006 önduðu íbúar raðhússins okkar og eflaust allir íbúar hverfisins léttar svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Marglitu seríurnar okkar sögðu pass. Við endurnýjuðum því lagerinn, sögðum byltingunni lokið og vorum í stíl þau jólin.