Fara í efni
Mannlíf

Andstæðan við hefðbundin jólalög

JÓLALAGIÐ MITT

Bretarnir Ren Títus Gates og Stu Ness hafa verið búsettir á Íslandi síðan 2016 en saman reka þeir fornbókabúðina Fróða á Akureyri. Hér segja hjónin frá sínum eftirlætis jólalögum sem fjalla um eitthvað allt annað en jólagjafir og sleðabjöllur.

RenIt's Christmas so we'll stop með Frightened Rabbit 

„Ég var alltaf gaurinn sem hataði „stóra daginn“, sérstaklega öll asnalegu jólalögin sem voru endurtekin í hverri búð, bar eða útvarpi vikurnar á undan. Mér fannst eins og Mariah Carey eða Michael Bublé væru að elta mig frá einum stað til annars,“ segir Ren. „Svo heyrði ég þetta lag, It's Christmas so we'll stop með skosku hljómsveitinni Frightened Rabbit og varð strax ástfanginn af því, því lagið er algjör andstæða við öll venjuleg jólalög. Textinn fjallar um það að fólk ákveður að vera notalegt hvert við annað um jólin, óháð því hvort það nái saman í raun og veru það sem eftir lifir ársins. Þetta er eins og að vera fullur í einn dag með þvingað bros, og svo í þynnkunni uppgötvarðu að allt er alveg jafn skítt og áður. Maður hefur bara fengið stutt þvingað hlé frá því. Þetta er eins konar andjólalag, en flestir jólasmellir snúast um hamingju, að kyssa einhvern undir mistilteini eða biðja jólasveininn um gjafir. Þetta lag snýst hins vegar um að reyna að þola fólk sem þú hatar í einn dag, reyna að vera ekki þunglyndur í 24 klukkustundir og að reyna að njóta dags sem hefur enga persónulega þýðingu fyrir þig. Allt sungið með frábærum, þykkum Glasgow hreim hins látna Scott Hutchinson. Þetta er niðurdrepandi meistaraverk! Ótrúlegt en satt þá hef ég núorðið mjög gaman af jólunum, en þetta lag er samt sem áður í uppáhaldi hjá mér.“

Smellið hér til að hlusta

StuFairytale of New York með The Pogues (með Kirsty MacColl) 

„Ég var tveggja ára þegar uppáhalds jólalagið mitt kom út, og þar sem það er ekki hægt að sleppa við jólalagahlustun á Bretlandi, þá gæti ég hafa heyrt þetta lag strax þá. Ég man bara ekki eftir því að hafa ekki heyrt þetta lag á hverju ári alveg frá því ég man eftir mér,“ segir Stu.

„Lagið er öðruvísi en önnur jólalög því það er ekki minnst á sleðabjöllur, snjó eða jólatré í textanum. Þetta er í raun frekar niðurdrepandi lag um drukkinn gaur á aðfangadagskvöldi, sem dreymir um glataða ást á meðan hann sefur úr sér í fangaklefa í New York borg. Lagið fjallar um allt það sem við viljum ekki að jólahátíðin snúist um þ.e.a.s. ofdrykkju og rifrildi við fjölskyldu og ástvini, en þrátt fyrir allt er ósvikin ást undir niðri hjá sögupersónunum og lagið fangar augnablik í lífi þessa fólks. Parið í laginu hefur kannski ekki endað með happily ever after og jólin þeirra saman gætu hafa verið þeirra síðustu, en það skiptir ekki máli, því svona er lífið: Hver jól eru þín síðustu jól ... þar til á næstu jólum. Lagið heitir Fairytale of New York flutt af The Pogues (með Kirsty MacColl) og það er eina jólalagið sem ég get hlustað á án þess að langa til að skera af mér eyrun.“

Smellið hér til að hlusta