Fara í efni
Mannlíf

Akureyringur loks formaður KSÍ?

Vignir Már Þormóðsson, sem er í framboði til formanns Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) á ársþingi sambandsins næsta laugardag, er gestur í nýjasta hlaðvarpsþætti Ásgeirs Ólafssonar Lie. Þátturinn var birtur í dag.

Vignir var um árabil formaður knattspyrnudeildar KA og sat líka lengi í stjórn KSÍ. Í formannskjörinu etur hann kappi við annan KA-mann, Þorvald Örlygsson sem síðustu ár hefur starfað fyrir Stjörnuna í Garðabæ, og Valsarann Guðna Bergsson, fyrrverandi formann KSÍ.

Til gamans má geta þess að formaður KSÍ fyrsta starfsárið, 1947 - 1948,  var Víkingur en síðan annað hvort Valsmaður eða KR-ingur í liðlega sjö áratugi, allt þar til Vanda Sigurgeirsdóttir var kjörin árið 2021. Vanda er uppalin á Sauðárkróki.

Hann segist vilja breyta starfi formanns KSÍ á þann veg að hann verði ekki í fullu, launuðu starfi. „Undanfarin mörg ár hefur formaður KSÍ verið eins og annar framkvæmdastjóri, skipt sér of mikið af daglegum rekstri,“ segir Vignir í viðtalinu. Hann segist koma öðru vísi að borðinu en hinir tveir; hann hafi starfað sem sjálfboðaliði í hreyfingunni í 24 ár og aldrei þegið laun fyrir.

„Af hverju ætti hann að taka formannsstólinn á laugardaginn? Vignir hefur rekið fleiri veitingastaði í gegnum tíðina og nú síðast hótel. Hann er Akureyringur, ættaður að austan og á aðsetur í Reykjavík,“ segir Ásgeir í kynningu þáttarins.

„Hann er giftur Hörpu Steingrímsdóttur og hann segir okkur frá fjölskylduhögum, uppvextinum, börnunum og svo ræðum við framboðið vel. Ef þig langar að kynnast þessum sómapilti að norðan betur, getur þú gert það hér og haft gaman af.“

„Takk Vignir fyrir að kíkja til mín i spjall og gangi þér vel á laugardag! Megi sá besti vinna!“ segir Ásgeir.

Smellið hér til að hlusta á þáttinn.