Fara í efni
Íþróttir

„Stolt, ánægð, þakklát – en vil gera betur“

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar á EM í hjólreiðum.

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar keppti í tveimur greinum á Evrópumótinu í hjólreiðum sem fram fór í Drenthe í Hollandi dagana 20.-24. september. Í pistli sem Hafdís skrifaði og birti að móti loknu sagði hún alls konar tilfinningar fara í gegnum kollinn á sér eftir þessa keppni. Stolt, ánægð, þakklát, en á sama tíma vil ég gera betur og er hungruð í meira.

Baráttan við að halda sér í keppninni

Hafdís keppti fyrst í tímatöku og endaði þar í 27. sæti af 30 keppendum - sjá úrslit hér. Í tímatökunni voru hjólaðir 30 kílómetrar og fór Hafdís brautina á 40 mínútum, eða á 44,7 kílómetra meðalhraða.

Stóri dagurinn var svo á laugardaginn þegar hún ásamt Kristínu Eddu Sveinsdóttur úr HFR tók þátt í Elite-flokki kvenna í götuhjólreiðum. Lagt var upp frá Meppel og hjólað til Col du Vam. Leiðin þar á milli er 59,3 kílómetrar en þegar komið var til Col du Vam tóku við fimm 13,7 kílómetra langir hringir innan bæjarins.


Hafdís Sigurðardóttir ásamt keppnisfélaga sínum Kristínu Eddu Sveinsdóttur úr HFR. Á milli þeirra er Ása Guðný Ásgeirsdóttir, fulltrúi Hjólreiðasambands Íslands.

Í götuhjólreiðum er reglulega fækkað í hópnum ef keppendur eru komnir ákveðið langt á eftir aðalhópnum og mikil barátta um að halda í við hópinn til að vera ekki flögguð út. Hafdís lýsti því fyrir þátttökuna á HM fyrr í sumar að eitt markmiðið væri að halda út nógu lengi til að komast inn í bæinn þar sem hjólaðir eru fimm hringir, en stóra markmiðið auðvitað að klára keppni á slíku stórmóti alveg.

Þrjóska og adrenalín hjálpuðu til

Í frétt Hjólreiðasambandsins  af keppninni á laugardag er sagt frá því að eftir 20 kílómetra hafi íslensku konurnar misst af stóra hópnum, en sameiginlega og með samvinnu fimm annarra keppenda, ásamt því að nýta sér skjól af bílalestinni tókst þeim að ná aftur inn í hópinn.

Um þetta segir Hafdís: „Keppnin þróast þannig að ég missi af hópnum alltof snemma, en það var æsingur í hópnum. Farið var í gegnum marga litla bæi, um þröngar götur með alls konar undirlagi sem við Íslendingar þekkjum ekki vel. Með langri baráttu í bílalestinni næ ég ásamt Kristínu og þremur öðrum að koma mér aftur í hópinn.“

Hafdís lenti síðan í árekstri eftir um 55 kílómetra, en náði að koma sér aftur inn í hópinn. Þar náðu þær Kristín Edda að halda sér alla leiðina inn til Col du Vam og kláruðu tvo hringi þar áður en þeim var flaggað út úr braut, eins og það er kallað. Þær náðu því báðar að hjóla hátt í 90 kílómetra. 

Hafdís lýsti þessu þannig: „Er í hópnum og líður vel þar þangað til það detta hjólarar fyrir framan mig og næ ekki að bregðast við því og lendi í jörðinni! Ég næ að koma mér aftur af stað og þá hefst aftur eltingaleikurinn við að ná hópnum. Með adrenalíni og fullt af þrjósku að gefast aldrei upp næ ég að koma mér aftur inn í hópinn rétt áður en við komum inn á lokahringinn sem var farinn fimm sinnum. Ég held áfram að berjast og gefst aldrei upp! En eftir um tvo hringi þá stoppar sóparabíllinn mig og keppni lokið.“
 
Úrslitin í Elite-flokki kvenna má sjá á www.uec.ch.
 
Eins og á HM fyrr í sumar var Hafdís þarna að etja kappi við atvinnukonur í hjólreiðum, en nánast allar sem taka þátt í þessum mótum eru í hjólreiðum að atvinnu, vinna og keppa í hjólreiðum allt árið um kring. Því fylgir einnig að þær eru með fjölmennt lið aðstoðarfólks og stóra umgjörð í kringum sig, sem skiptir mjög miklu máli í svona keppnum.
 
Hafdís segir að nú taki við smá hvíld frá ferðalögum og keppnisstandi, en hún sé full tilhlökkunar að hefja næsta æfingavetur!