Hafdís best 4. árið í röð og Hlynur efnilegastur
Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar (HFA) var valin hjólreiðakona ársins hér á landi, fjórða árið í röð, og Hlynur Snær Elmarsson, einnig úr HFA, var valinn efnilegasti hjólreiðakarlinn. Þetta var tilkynnt á lokahófi Hjólreiðasambands Íslands sem fram fór um helgina.
Besti hjólreiðakarlinn í ár var valinn Davíð Jónsson og Hekla Henningsdóttir efnilegasta hjólreiðakonan. Þau eru bæði úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.
„Heiður að fá að bera þennan titil fjórða árið í röð! Tímabilið var viðburðaríkt og skemmtilegt. Það er frábært að vera hluti af hjólreiðasamfélaginu og keppa við hóp af ótrúlega sterkum stelpum,“ skrifar Hafdís á Facebook síðu sína í dag. „Ég er ótrúlega heppin með allt fólkið mitt sem hefur óbilandi trú á mér og öllu sem ég tek mér fyrir hendur, þið eruð best. Það er ómetanlegt að fá aðstoð og stuðning frá fyrirtækjum og gera þetta keppnisstand mögulegt.“
Allir bikarmeistarar ársins voru heiðraðir á lokahófinu og viðurkenningar veittar í aldursflokkum og B- flokkum. Smellið hér til að sjá tilkynningu á vef Hjólreiðasambands Íslands.