Fara í efni
Íþróttir

Hafdís Íslandsmeistari í 200 km á malarvegi

Hafdís Sigurðardóttir og Ingvar Ómarsson á verðlaunapalli, Íslandsmeistarar í hjólreiðum á malarvegum. Mynd: Hjólreiðasamband Íslands.

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar varð um helgina Íslandsmeistari í hjólreiðum á malarvegi. Mótið var hluti af stóru alþjóðlegu hjólreiðamóti, The Rift, sem haldið var í Rangárvallasýslunni og hjólað við rætur Heklu.

Hafdís keppti í 200 kílómetra vegalengd í elite-flokki þar sem 24 keppendur voru skráðir til leiks, en 18 luku keppni, þar af tvær íslenskar konur sem náðu í mark, báðar úr HFA. Hafdís varð í 10. sæti í heildina og fyrst íslenskra kvenna og þar með Íslandsmeistari í greininni. Sóley Kjerúlf Svansdóttir, einnig úr HFA, endaði í 18. sæti í flokknum og þar með í 2. sæti Íslandsmótsins.

Hafdís hjólaði vegalengdina á átta klukkustundum og rúmum 22 mínútum. Til að setja vegalengdina í samhengi má til dæmis nefna að frá Akureyri eru 225 kílómetrar í Staðarskála. Úrslitin í elite-flokki kvenna má sjá hér. Í frétt Rúv af mótinu má meðal annars sjá svipmyndir úr keppninni þar sem ægifögur náttúra og umhverfi Heklu ramma inn erfiðið sem keppendurnir leggja á sig í þessari erfiðu keppni.

Hafdís hefur aðallega keppt í götuhjólreiðum og hefur landað fjölmörgum Íslandsmeistaratitlum á malbikinu á undanförnum árum.