Fara í efni
Íþróttir

Hafdís Sigurðardóttir hjólreiðakona ársins

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar var á dögunum kjörin hjólreiðakona ársins hér á landi annað árið í röð. Hjólreiðasamband Íslands tilkynnti þetta í sameiginlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna þar sem kjöri íþróttamanns ársins var lýst.

„Hafdís er frábær íþróttakona og fyrirmynd og hefur skarað fram úr í hjólreiðum á Íslandi. Hún hefur lagt hart að sér í íþróttinni og stefnir ennþá lengra. Í ár byrjaði hún tímabilið á því að setja Íslandsmet með því afreki að hjóla í 46 klst. og yfir 1000 km. í einu,“ segir m.a. í umsögn Hjólreiðasambandsins.

Hafdís er tvöfaldur Íslandsmeistari, í götuhjólreiðum og í tímatöku. Hún er bikarmeistari í A-flokk kvenna tímatöku, keppt var þrisvar og hún sigraði í öll skiptin. Þá fagnaði hún ætíð sigri þegar keppt var í götuhjólreiðum hér heima.

„Hafdís tók þátt í Bláa Lóns þrautinni og bar þar sigur úr b[ý]tum og var hún efst íslenskra kvenna í The Rift 200 km elite flokki. Hafdís sótti sér mikilvæga keppnisreynslu erlendis og keppti í vor í þriggja daga keppni í Danmörku þar sem hún lenti í 9. sæti. Hún keppti í tveggja daga keppni í Hollandi í júlí og í 6 daga keppni í Svíþjóð þar sem hún lenti í 5. sæti. Hafdís keppti fyrir hönd Íslands bæði á HM í Glasgow í ágúst og á EM í Hollandi í september. Þar keppti hún bæði í tímatöku og götuhjólreiðum, gaf allt sitt í keppnirnar og stóð sig frábærlega.“