Fara í efni
Íþróttir

Hafdís og Silja sáttar en vilja gera betur

Kristín Edda Sveinsdóttir úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir, báðar úr Hjólreiðafélagi Akureyrar. Aðsend mynd.

Akureyri.net hefur fjallað um þátttöku akureyrsku hjólakvennanna Hafdísar Sigurðardóttur og Silju Jóhannesdóttur á Heimsmeistaramótinu í hjólreiðum sem fram fór í Skotlandi fyrstu daga ágústmánaðar. Þær Hafdís og Silja tóku saman smá pistil um keppnina og þátttökuna á HM. 

Það er áhugavert að lesa í pistli þeirra að þrátt fyrir að í keppninni hafi verið fjölmargar atvinnukonur í greininni, margar hverjar nýkomnar úr Tour de France, eins og fjallað hefur verið um í fyrri fréttum, að þær Hafdís og Silja eru þó orðnar það reyndar í íþróttinni og það metnaðarfullar að eitt af viðfangsefnunum sem gerðu þeim erfiðara fyrir var í þessari keppni hafi margar þjóðir verið að stíga sín fyrstu skref, í samræmi við stefnu Alþjóða hjólreiðasambandsins að efla hjólreiðar um allan heim, og það hafi gert þeim erfiðara fyrir, eða eins og þær orða það: „Svo ekki nóg með að þurfa að byrja aftast í risastórum hóp og fara krefjandi braut, þá var líka mjög krefjandi að hjóla með óreyndum hjólurum.

Pistil þeirra Hafdísar og Silju má lesa í heild hér að neðan.


Hjólreiðahetjurnar úr HFA á HM, Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir. Aðsend mynd.

Heimsmeistaramótið í götuhjólreiðum fór að þessu sinni fram í Glasgow í Skotlandi. Þetta var í fyrsta skipti sem heimsmeistaramót í samtals 13 greinum hjólreiða var haldið saman og var þetta því stærsti hjólaviðburður allra tíma. Mótið stóð yfir í 11 daga og á lokadeginum var keppt í götuhjólreiðum elite kvenna með hópstarti. Þar átti Ísland þrjá keppendur, þær Hafdísi Sigurðardóttur og Silju Jóhannesdóttur úr Hjólreiðafélagi Akureyrar og Kristínu Eddu Sveinsdóttur úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur. Hingað til hefur engri íslenskri konu tekist að klára götuhjólakeppni á stórmóti og er það stóra markmiðið.

Keppnisbrautin var vel krefjandi. Hún lá frá Loch Lomond yfir til Glasgow og þegar þangað var komið átti að fara sex hringi innan borgarinnar og brautin samtals 154 kílómetrar. Eftir um 30 kílómetra leið kom töluverð hækkun og ljóst að það yrði erfitt verkefni að halda í fremstu keppendur upp þá brekku. Borgarhringirnir voru ekki síður krefjandi en hver hringur taldi um 50 beygjur og mikið af bröttum brekkum. Karlakeppnin fór fram vikunni áður, þar sem farin var svipuð braut nema bara töluvert lengri, og mátti heyra keppendur lýsa keppninni sem hardest day on the bike ever. Um leið og keppendur eru komnir meira en 10 mínútum á eftir þeim fremstu er þeim gert skylt að hætta keppni og var ekki nema fjórðungur keppenda sem náði að klára keppnina karlamegin.

Á ráslista kvennamegin voru samtals 207 konur frá 71 landi. Áður en keppnin er ræst er keppendum raðað á ráslínu eftir styrkleika, Hollendingar fremstir, Ítalir næstir, svo Belgar o.s.frv. en við Íslendingarnir vorum í sætum 193-195. Sem sagt með þeim öftustu. Okkar markmið fyrir keppni var að vinna okkur framar í hópnum og eiga þannig auðveldara með að halda í fremstu hjólara. Það er hins vegar hægara sagt en gert og allir mættir með sama hugarfarið að berjast um bestu staðsetninguna í hópnum. Svo er ákveðin kúnst að hjóla þétt í hóp og augljóst að marga hjólara vantaði reynslu í þeim efnum.

Alþjóða hjólreiðasambandið leggur sig mikið fram að efla hjólreiðar um allan heim og veitir byrjendaþjóðum aukinn stuðning og má gera ráð fyrir að þarna hafi verið margar þjóðir að stíga sín fyrstu skref á stórmóti. Svo ekki nóg með að þurfa að byrja aftast í risastórum hóp og fara krefjandi braut, þá var líka mjög krefjandi að hjóla með óreyndum hjólurum.

Það fór svo að einungis 86 keppendur náðu að klára keppnina. Hafdís komst inn á Glasgow hringina, sem var eitt að markmiðunum, en náði ekki tímamörkum og var því látin hætta keppni. Hún skilur sátt við sitt og bar sigur úr býtum í ljósi eigin væntinga. Silja var látin hætta keppni fyrr, eða eftir u.þ.b. 54 km leið, og er staðráðin í því að standa sig betur í næstu keppni.